13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (3009)

192. mál, alsherjarafvopnun

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson) [frh.7:

Ég þakka hæstv. forseta. Ég skal ekki þreyta ræðu um þetta mikla vandamál, sem hér hefur verið fært inn á þennan vettvang. Hv. 4. þm. Reykv. hefur miklu betur en ég mundi gert hafa sýnt fram á það, að hv. flm. þáltill. hafa verið ofhaldnir af einhliða áliti í þessum efnum, þeir sem fluttu þessa till. upphaflega, hv. 2. þm. Reykv. og hans skoðanabræður; það sést af því, eins og hv. 4. þm. Reykv. sýndi glöggt fram á, að till. er þar einvörðungu beint gegn einu ríki veraldar.

Það er ekki af því, að við, sem myndum þennan meiri hl., höfum nokkuð minni ótta eða finnum til minni fordæmingar á þessum válegu vopnum, sem brúkuð eru, heldur en hv. 2. þm. Reykv. og hans trúarbræður, að við viljum haga orðum okkar á annan veg til þess að láta í ljós vilja okkar og ósk um það, að þeirri vá verði afstýrt, sem af notkun kjarnorkuvopna og slíkra sprengna, sem hér eru nefndar, vetnissprengna o. s. frv., mundi leiða, heldur af því, að við lítum ekki litað á þetta mál. Við lítum ekki á voðann sem komandi aðeins frá einni átt. Ef um það væri að ræða hér, sem ég ætla ekki að fara út í neitt að verulegu leyti, að tala um það, hvaðan heiminum stæði mestur voði, þá er þar mörgum fleirum til að dreifa og margri annarri utanríkispólitík til að dreifa heldur en utanríkispólitík Bandaríkjanna, sem hv. 2. þm. Reykv. virtist vera svo fróður um. Hann minntist ekkert á utanríkispólitík ríkjanna austan járntjaldsins, og ætla ég þó, að hann muni engu ófróðari vera um hana heldur en þá, sem hann lýsti. Við höfum fullan rétt á því, og okkur ber skylda til þess, þótt smáir séum, að leggja það til í þessum efnum, sem við hyggjum réttast og bezt og er í samræmi við rödd okkar eigin samvizku.

Á hinn bóginn get ég ekki fallizt á þá skoðun, sem fram kom hjá hv. 4. þm. Reykv., að Alþingi Íslendinga ætti að snúa sér að slíku máli sem þessu annan veg en í gegnum þá allsherjarstofnun, Sameinuðu þjóðirnar, sem Ísland er einn meðlimur í og er sá stærsti og merkasti vettvangur, þar sem rödd Íslands getur látið til sín heyra, og sá vettvangur, þar sem Ísland nýtur jafnréttis við stærri þjóðir. Ef við aftur á móti snúum tali okkar beint og milliliðalaust, hvort heldur væri til Moskvu, til Washington eða London, þá ber þeim hinum sömu sem á það tal mundu hlýða ekki sama skylda til að taka tillit til óska okkar kotríkis á þann veg eins og þegar við göngum fram í þeirri breiðfylkingu, sem Sameinuðu þjóðirnar mynda. Það er því að yfirlögðu ráði og með það fyrir augum, að þann veg sé okkar framkoma mest metin og virðulegust, að við, sem myndum meiri hl. á utanrmn., höfum farið fram á það, að Alþingi legði fyrir ríkisstjórn Íslands að skora á Sameinuðu þjóðirnar að taka þetta málefni upp, og ég geri eins vel ráð fyrir því. að af meðlimum Sameinuðu þjóðanna verði Ísland ekki hinn eini meðlimur, sem ber slíkar óskir á borð á því stóra þjóðþingi.

Ég skal svo ekki um þetta hafa fleiri orð. Ég vonast til þess, að málið geti nú fengið sína afgreiðslu, eins og við höfum allir viljað stuðla að, að það fengi. Það getur verið bitamunur, en ekki byrðar með orðalag á till. hv. 4. þm. Reykv. og hv. meiri hl. utanrmn., en við stefnum allir að því marki að láta frá þessum véum heyrast þá rödd, sem miði til góðs í þessu efni, og öruggasti vegurinn, vissasti vegurinn, beinasti vegurinn og sá, er til mestrar farsældar mundi leiða fyrir allt mannkyn, er það, að þjóðirnar gætu bundizt föstum og öruggum heitum um allsherjarafvopnun.