14.10.1953
Sameinað þing: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í D-deild Alþingistíðinda. (3111)

31. mál, dráttarbraut á Ísafirði

Flm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta nauðsynjamál umfram það, sem í grg. segir. — Það hefur um langan tíma háð mjög útgerðinni á Ísafirði og þeim iðnaði, sem hún þarf sérstaklega að styðjast við, eins og vélsmiðjur og skipasmíðastöðvar, að ekki er til þar nægilega stór dráttarbraut til þess að geta tekið skipin á land, sem nú eru þar gerð út. Gamla dráttarbrautin, sem þar er nú, var byggð 1921 fyrir allt að 30 tonna skip og var á sínum tíma ágæt, en er nú löngu orðin allt of lítil og allsendis ófullnægjandi, enda er svo grunnt framan við hana, að sæta verður stórstreymi til að koma stærstu bátunum, sem hún getur tekið, upp í vagninn. Dráttarbrautin var, að ég hygg, upphaflega byggð án opinberrar aðstoðar, og eigendur hennar hafa síðan tvívegis stækkað hana algerlega af eigin rammleik, og sýnir það bezt skilninginn og nauðsynina, sem verið hefur á því að hafa dráttarbrautina nógu stóra. Fyrst var hún stækkuð upp í það að taka 60–70 tonna skip, þegar bátarnir stækkuðu frá því, sem tíðkaðist þar, þegar hún var byggð fyrst, en síðan hefur hún verið stækkuð svo, að nú getur hún tekið 100 tonna báta. Sá annmarki er þó á því, að 100 tonna bátar komast því aðeins upp í brautina, að svo stórstreymt sé, að unnt sé að fleyta þeim inn á vagninn. Þar, sem þessi braut stendur, er ekki heppilegt til frekari stækkunar, en umsóknir um leyfi eða aðra fyrirgreiðslu til þess að byggja nýja og stærri braut hafa enn ekki borið neinn árangur. Ég þarf ekki að lýsa því fyrir þeim, sem útgerðarmálum eru kunnugir, hvað þetta er bagalegt fyrir útgerð skipa og báta vestanlands. Það hefur þráfaldlega komið fyrir, að þurft hefur að draga skip frá Ísafirði alla leið til Reykjavíkur til þess að gera þar við skemmdir, sem auðgert hefði verið að lagfæra vestra, ef til hefði verið nægilega stór dráttarbraut. Stundum hefur á hinn bóginn verið bjargazt við það að fá kafara til að framkvæma aðgerð til bráðabirgða eða fullnaðaraðgerð, ef það hefur verið hægt með þeim hætti, en annars þá aðgerð til bráðabirgða, svo að skipin gætu komizt sjálfkrafa í dráttarbraut. Stundum hefur líka orðið að notast við það að leggja skipunum á land eða í fjöru, en það er ákaflega erfitt vestra vegna þess, hvað munur flóðs og fjöru er lítill, og þegar bjargazt hefur verið við þetta, þá hefur stundum þurft að bíða langan tíma eftir því, að nægilega stórstreymt væri til þess. að nokkur von væri um, að hægt væri að framkvæma þær aðgerðir, sem þurft hefur að gera á skipunum. Við höfum eðlilega fundið þetta bezt, Ísfirðingar, um heimaskipin. En þó gegnir auðvitað sama máli um þann mikla fjölda bæði innlendra og erlendra skipa, sem veiðar stundar úti fyrir Vestfjörðum mikinn hluta ársins. Fyrir öll þessi skip er það aðkallandi nauðsyn að fá úr þessu bætt. Fyrir þau öll hlýzt alltaf annað slagið stórfelldur aukakostnaður og tafir af þessum annmarka. Það er auðskilið hvað miklu seinlegra er og dýrara að vinna verkið; sem vinna þarf við skipið, á kafi í sjó, og maðurinn, sem verkið vinnur, þarf að vera auk þess í þungum kafarabúningi og vinna við lélega birtu og einn, hjálparlítill eða hjálparlaus, niðri í sjónum a. m. k. Og auk þess hlýzt af þessu stórfelldur aukakostnaður, sem af töfinni leiðir. En ef hin leiðin er valin, að taka skipin í fjöru, þá hlýzt af því stórfelldur aukakostnaður við að undirbúa fjöruna og auk þess létta skipin sem kostur er, sérstaklega þann enda þeirra, sem sérstaklega þarf að fá á þurrt, ef ekki þarf að fá allt skipið á þurrt, og auk þess, eins og ég gat um áðan, jafnaðarlega að bíða þess, að nægjanlega stórstreymt verði; til þess að nokkur von sé um, að hægt sé að ljúka verkinu um fjöru. Jafnvel þótt skipin séu nú ekki verr farin en það, að áhættulaust sé að sigla þeim til Reykjavíkur, þá tefur siglingin ein þau alltaf a. m. k. tvo daga frá veiðum, og þar á ofan hafa svo oftlega hlotizt stórtafir af því, að eftir að skipin voru nú komin til Reykjavíkur eða þangað, sem dráttarbraut var nægilega stór, sem gat tekið þau upp, þá hafa þau þurft að bíða, stundum ekki svo að dögum skiptir, heldur jafnvel eina eða fleiri vikur, vegna þess að þá hefur ekki verið rúm í dráttarbrautunum, þegar þau hafa þangað komið.

Þá vil ég að lokum fara nokkrum orðum um það, hvernig hagar til um aðstöðu til skipaviðgerða á Ísafirði. Þar er nú til ný og mjög myndarleg vélsmiðja í ágætum húsakynnum og með mikinn og nýjan vélakost og hefur að því leyti sérlega góða aðstöðu til þess að framkvæma hvers konar vélavinnu. Auk þess eru þar þrjár aðrar vélsmiðjur minni. Hvað skipasmíði áhrærir erum við líka vel settir. Skipasmíðastöðvar eru tvær á Ísafirði og hafa báðar á sér ágætisorð fyrir góða og vandaða vinnu, bæði um viðgerðir og nýsmíði. Við skipasmíðar koma raunar til miklu fleiri iðngreinar en þessar tvær, sem ég nú hef nefnt. Við skipasmíðar og viðgerðir þarf rafvirkja. útvarpsvirkja, rörlagningarmenn, málara, svo að eitthvað sé upp talið. Í þessum iðngreinum höfum við líka ágætum iðnaðarmönnum á að skipa vestra, og ef aðstæður hefðu verið betri, þá hefðum við raunar enn fleiri en við höfum núna, vegna þess að sumir þessara ágætu iðnaðarmanna, sem við höfum haft, hafa vegna aðstöðumunarins neyðzt til að flytja sig þangað, sem aðstaðan hefur verið betri. Það hefur enn fremur stuðlað að því að minnka atvinnu þessara iðnaðarmanna á Ísafirði, að útgerðarmenn hafa oftlega neyðzt til þess að senda skip sín þangað, sem þau gætu farið í dráttarbraut, ekki vegna þess, að ekki væru nægir iðnaðarmenn og næg skilyrði að öðru leyti til þess að gera við þau á Ísafirði, og jafnvel það, sem ekki þurfti nú að fara með skipin í dráttarbraut til, hafa þeir þurft að láta gera líka þar, sem dráttarbrautin var, til þess að geta notað þann biðtíma, sem þeir vissu að mundi verða á því, að skipin kæmust í dráttarbraut. En ef þeir hefðu látið gera það vestra, þá hefði biðtíminn ekki notazt þannig, vegna þess að dráttarbrautirnar hafa vitanlega ekki tekið gildan biðtímann, fyrr en skipin væru komin á staðinn og gætu farið í brautina.

Í grg. er drepið á það, að aðrir landshlutar hafi fengið fyrirgreiðslu í þessu efni, sem hliðstæð sé við það, sem hér er farið fram á. Skal þá fyrst telja, að í Reykjavík mun aðstoð þeirri, sem veitt hefur verið, hafa verið komið fyrir á svipaðan hátt og hér er lagt til og byggðar þær dráttarbrautir, sem nú eru hér til, með þeim hætti. Hér í Reykjavík er aðstaðan bezt, þó að enn þurfi að bæta hana, og helzt svo, að við getum tekið öll okkar skip á þurrt til viðgerðar, þegar þess þarf með. Á Norðurlandi var fyrir fáum árum byggð allstór dráttarbraut á Akureyri, og í Neskaupstað var fyrir fáum árum byggð dráttarbraut með aðstoð ríkisvaldsins. Þessar dráttarbrautir bættu þá úr brýnustu þörfinni, sem þar var. Það kann að vera, að enn sé úrbóta þörf annars staðar. Skipin hafa undanfarin ár farið sístækkandi, og þá er eðlilegt, að smiðirnir, sem við þau eiga að gera, og iðnaðarmennirnir vilji fá stækkaðar dráttarbrautirnar. En það þykir jafnan skylt, ef ekki er hægt að liðsinna öllum í einu, að láta þá þann ganga fyrir, sem lengst hefur beðið og þar sem brýnust er þörfin, en það tel ég að sé á Vestfjörðum. Og þörfin er ekki aðeins fyrir þá, sem þar búa, heldur felst í þessu mikið öryggi fyrir öll þau skip, sem veiðar stunda þar úti fyrir.

Það kann einhver að segja, að ekki þurfi sérstakar ráðstafanir til fjáröflunar til dráttarbrauta, þær megi byggja eftir hafnarlögum með styrk og ríkisábyrgð eins og þar er ákveðið, og það er að vísu rétt, það sem það nær. En ástæður hafnarsjóðs á Ísafirði eru ekki þannig, að í svip sé líklegt, að hann sé aflögufær, og er frekar von um, að iðnaðarmenn og útgerðarmenn þeir, sem mestan áhuga hafa á dráttarbrautinni, geti hrundið málinu í framkvæmd eins fljótt og þarf.

Um skilyrði til byggingar dráttarbrautar á Ísafirði hefur farið fram allýtarleg athugun: Höfnin þar er einhver hin bezta á landinu, lífhöfn í öllum áttum, þegar inn er komið. Og slippstæðið er ákjósanlegt og hentugt inni í sjálfri höfninni og nærri skipasmíðastöð og stærstu vélsmiðjunni. Landrými getur einnig orðið þar nægjanlegt, þegar fram í sækir. —Mun ég að sjálfsögðu skýra þetta mál allt nánar og rækilegar fyrir n., sem fær það til meðferðar, og leggja fram bráðabirgðaáætlun og lýsingu á staðháttum.