12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í D-deild Alþingistíðinda. (3245)

169. mál, stækkun þinghúslóðarinnar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af ummælum hv. þm. Borgf. og hv. 7. þm. Reykv. vildi ég aðeins hafa sagt hér nokkur orð í sambandi við þetta mál.

Það var á þinginu 1943, þann 13. febrúar, sem samþykkt voru lög um heimild til ríkisstj. til þess að láta reisa hús eða kaupa hús fyrir þingmannabústað og verja nægilegu fé úr ríkissjóði til þess. Ég hygg, að þessi lög hafi verið samþykkt hér af miklum meiri hluta hv. alþm., sem þá áttu sæti hér á Alþ. Og það virðist sjálfsagt gert af því, að þeir hafa litið á þetta mál allt öðrum augum en hv. þm. Borgf. lítur á það nú, þar sem hann sagði, að það væri ekkert aðkallandi mál að fara út í slíkan kostnað sem því væri samfara. Síðan eru liðin 11 ár, og mér er kunnugt um, að svo að segja á hverju þingi hefur þessu verið hreyft á einn eða annan veg ýmist í sambandi við umræður hér á Alþ. eða við hæstv. ríkisstj., að hrinda þessu máli í framkvæmd, þó að það hafi ekki enn verið gert. Og það er m. a. vegna þess, að tekið er upp í lögin um þingfararkaup alþm., lífeyrissjóð o. fl., í 2. gr., að reisa skuli þingmannabústað svo fljótt sem því verður við komið, og skal undirbúningur, svo sem staðarval, uppdráttur o. s. frv., hafinn nú þegar og honum lokið á árinu 1954. Og meiri hl. hv. alþm. stendur að þessari samþykkt. Það er því ekkert um að villast, að það er talin þörf á þessum framkvæmdum. Það stendur einnig hér í sömu grein, 2. gr. l., að kostnaður við byggingu greiðist úr ríkissjóði. Og það er ein ástæða fyrir því og aðeins ein, að ekkert er tekið upp í fjárlög á þessu ári, að forsetar þingsins gátu ekki vitað, hve mikill þessi kostnaður er. Hann fer m. a. mjög eftir því, hvaða staður verður valinn. Ég hygg, að þessi lagafyrirmæli hér í 2. gr. hafi eins mikinn rétt eins og hver önnur lög, sem fyrirskipa á Íslandi, að það skuli gera ákveðnar framkvæmdir. Það er ekki einu sinni sagt hér. að þetta skuli gert eftir því, sem fé sé veitt til þess á fjárlögum á hverjum tíma, heldur er þetta bein fyrirskipun Alþ., að það skuli reisa þann bústað, sem hér um ræðir. Þess vegna kemur það ákaflega einkennilega fyrir sjónir, þegar menn rísa nú upp og segja, að það sé nú engin þörf á að hefja þessar framkvæmdir.

Mér þykir rétt í sambandi við þetta að upplýsa, að forsetar þingsins töldu sér skylt, eftir að þessi lög höfðu verið samþykkt, að skrifa hæstv. ríkisstj. og óska staðfestingar á því, að hún léti á þessu ári gera þær framkvæmdir, sem 2. gr. l. fyrirskipar, og af því hefur svo hæstv. ríkisstj. látið ganga hér lista til hv. alþm. um það, hverjir mundu óska sér að taka bústað í slíkum bústað, ef hann yrði reistur eða keyptur. Og ég hygg, að mikill meiri hl. hv. utanbæjarþm. hafi verið því fylgjandi eða óskað þess, að þeir fengju tækifæri til þess að búa í slíkum bústað, þegar honum væri komið upp. Ég geri því ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. fari hér að lögum, láti undirbúa þetta mál á þessu ári og hafi þessar till. til, þegar þing kemur saman næst, alveg eins og lögin mæla fyrir um. Og í beinu áframhaldi af því er svo þáltill. hv. flm. til orðin.

Nú vil ég í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að það, að rýmt verði í burtu Kirkjustræti 12, eins og gert er hér ráð fyrir, er engin sönnun fyrir því, að hvorki fáist að byggja þar eða að unnt sé að byggja þar yfirleitt. Ég hygg, að ef ætti að byggja þar, hvort heldur væri þingmannabústað eða byggingu við alþingishúsið, þá mundu viðkomandi skipulagsyfirvöld ekki leyfa það, vegna þess að sannleikurinn er sá, að það er útilokað að byggja á þeirri lóð, ef ekki á að eyðileggja gersamlega svipinn á alþingishúsinu. Þá verður vitanlega að fara með hina nýju byggingu einmitt þangað, sem listamannaskálinn stendur, þ. e. a. s. lengra til baka, til þess að alþingishúsið geti enn þá staðið sjálfstætt, en því ekki kúldað niður á milli annarra húsa, sem mundu taka allan svip af alþingishúsinu.

Um ummæli hv. 7. þm. Reykv., að hann telur, að það komi ekki til mála, að listamannaskálinn verði fluttur, svo lengi sem hann geti staðið, verð ég að segja, að mig undrar slík yfirlýsing. Hús þetta hefði aldrei átt að leyfa að byggja á lóðinni. Það er útrunninn fyrir löngu sá tími, sem því var leyft að standa. Nú er það algerlega á valdi hæstv. forseta þingsins, hve lengi þessi listamannaskáli fær að standa. Og ég teldi það mjög miður fara, ef þeir hæstv. forsetar, sem verða hér á næsta þingi, gera ekki alveg sérstakar ráðstafanir til þess, að húsið verði flutt þegar í burtu. Það er búið að standa hér of lengi. Það hefur ekki verið neinum til sóma. Og eins og hv. flm. sagði hér áðan, hefur hvað eftir annað orðið að senda úr Ed. út í þennan skála til þess að stöðva þau læti, sem þar eru, á meðan þingfundir eru haldnir. Það er því raunverulega hrein og bein ósvinna, að það skuli ekki fyrir löngu vera búið að flytja það hús í burtu.

Mér skilst nú, að það sé nokkurn veginn sama, hvort till. á þskj. 578 er samþykkt eða ekki. Hún ítrekar að vísu ekkert að flytja í burtu templarahúsið. Það liggja fyrir því fullar heimildir, eins og hv. flm. sagði, að sá tími er útrunninn, sem þessu húsi hefur verið leyft að standa á lóðinni, svo að sú till., sem hér um ræðir, fyrirbyggir ekkert, að viðkomandi aðilar geri þá kröfu, að húsið verði flutt í burtu, þó að samþykkt verði. Það verður þá að breyta þeirri till., ef á að fyrirbyggja það út af fyrir sig. Ég sé ekki, að það sé nein ástæða til þess að samþykkja till. af þeim ástæðum.

Hitt er alveg víst, eins og ég tók fram og ég hef sýnt fram á hér, að það eru kröfur meiri hl. alþm. um það að byggja bústað fyrir þm. Það er eðlilegast, að það verði byggt hér á þessari lóð í sambandi við þessa byggingu hér. því að eins og hv. flm. þáltill. tók fram, þá eru hér engin vinnuskilyrði, sem ekki er von. Það eru allt önnur verkefni, sem eru rædd hér og þarf að taka ákvarðanir um, heldur en var fyrir aldamót. Og það er eiginlega alveg furða, hversu hefur verið hægt að nota þetta hús svo lengi án þess að stækka það og sýnir, hversu miklu meiri stórhugur hefur þá verið hér ríkjandi í þessu landi heldur en nú, þegar kofar eins og templarahúsið og listamannaskálinn mega ómögulega víkja fyrir nauðsyn Alþ. til að byggja svo yfir sig, að þingmenn geti gegnt sæmilega sínum störfum í salarkynnum þess.