07.10.1953
Efri deild: 4. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

17. mál, Háskóli Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef auðvitað síður en svo á móti því, að hv. menntmn. kynni sér það atriði, sem hv. þm. Vestm. drap á, en ég vil þó leggja á það ríka áherzlu, að það verði ekki til þess að hefta framgang þessa frv., vegna þess að það er eindregin skoðun mín og sannast sagt byggð á töluverðri þekkingu, þar sem ég var um allmörg ár kennari við lagadeildina, að lagadeildin hafi orðið óhæfllega aftur úr varðandi starfskrafta, svo aftur úr, að með öllu sé óviðunandi, þegar tekið er tillit til þess aukna fjölda kennslugreina, sem nú eru í deildinni, og með því fyrirkomulagi, sem nú er þar orðið á skiptingu námsins og mikilli fjölgun prófa. Ég tel, að þessar óskir lagadeildarinnar eigi tvímælalausan forgang fram yfir allar aðrar óskir, sem frá háskólanum koma. Aðrar deildir eru búnar að fá sínum óskum að mestu leyti framgengt á undanförnum árum. Lagakennararnir hafa sökum hógværðar látið liggja niðri sínar óskir, þangað til nú er svo komið, að þeim er ofætlun, miðað við sína starfsbræður, að anna þessu starfi eins og til háttar.

Ég vildi til viðbótar því, sem ég sagði áðan, drepa á, að í grg., sem fylgir frv. frá þeim, er vikið að því, að sennilega muni vera hægt að spara tvo aukakennara við deildina, sem nú starfa, ef hinn nýi prófessor kemur. Ég efast mjög um, að þetta verði hægt, miðað við það fyrirkomulag, sem búið er að taka upp, auk þess sem ég vil, að það komi hér skýrt fram, að ég tel það vera rangt frá deildarinnar sjónarmiði að miða eingöngu að því að hafa fasta kennara. Ég tel, að það geti verið mikill vinningur að því fyrir deildina og nemendur að fá menn, sem aðallega vinna að öðru, til þess að kenna sin sérfög við deildina að einhverju leyti. Það er t.d. enginn vafi á, að það er mjög hagkvæmt, að þaulæfður málfærslumaður hafi vissar æfingar með nemendunum. Núverandi kennarar deildarinnar — eins og raunar fyrrverandi kennarar — hafa yfirleitt ekki verið æfðir málfærslumenn, og það er mikill vinningur, að maður, sem hefur raunverulega æfingu í þessum störfum, skuli vinna við deildina. Og þó að hann fái einhverja litla borgun fyrir, þá skiptir það ekki máli í því sambandi, að mínu viti. Eins er það, að annar aukakennari við deildina, núverandi þjóðréttarfræðingur utanrrn., Hans G. Andersen, er af öllum Íslendingum langlærðastur í sinni grein og raunar sá eini, sem má segja að hafi fengið þá fræðslu í þeirri grein, að frambærilegt sé að hann sé kennari í henni, en hann hefur líka fengið ágæta menntun og viðurkenningu hæfustu manna við erlenda háskóla fyrir sína þekkingu. Það væri því mikill missir fyrir deildina, ef slíkur maður hætti þar kennslu. Þessu vildi ég aðeins skjóta að, ætlaði að minnast á það áðan, en gleymdi.

Aðalatriðið var þó að leggja áherzlu á það, sem ég gerði, að setja þetta mál ekki í samband við önnur úrlausnarefni háskólans. Lagadeildin er orðin á eftir, og má ekki lengur þar við una. Hitt er svo enn annað, að ég er hræddur um, að læknadeildin sjálf sé mjög ósammála um það prófessorat, sem hv. þm. Vestm. talaði um, og hún telji, að ef þar eigi að stofna nýtt prófessorat, þá eigi að gera það í annarri grein en þeirri, sem hv. þm. Vestm. hefur sérstakan áhuga fyrir, svo að það mál allt þarf mjög náinnar skoðunar.