06.11.1953
Efri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

17. mál, Háskóli Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. frsm. hefur nú gert grein fyrir fyrirvara mínum. Hann er þess efnis, eins og nál. ber með sér, að ég tel, að nauðsynlegt sé, um leið og þessi breyting er gerð á lögunum, að athuga einnig nauðsynina á fjölgun kennara í læknadeild háskólans. Ég tel enn fremur, að jafnframt sé nauðsynlegt að athuga kennaraskipun í heild og verkaskiptingu við háskólann. Ég vil ekki mæla því í gegn, að full nauðsyn sé á þeirri aukningu við lagadeildina, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar held ég nú, að hún sé ekki það aðkallandi, að hún gæti ekki beðið eftir því, að fram færi athugun á fjölgun við aðrar deildir og þá sérstaklega læknadeildina. Ákjósanlegast tel ég það væri, að skipun kennara og verkaskipting þeirra við háskólann í heild yrði tekin til athugunar sem fyrst. Ég mun þó greiða þessu frv. atkv. nú við þessa umr. og sjá, hvort nokkuð bólar á till. um það efni, sem hér hefur verið drepið á, en vil ekki leyna því, að sé þetta frv. samþ. eins og það nú er, þá tel ég alveg sjálfsagt, að einnig verði fjölgað í læknadeildinni. Ég ber þó ekki fram tillögu um það að svo stöddu, tel rétt að bíða þess, hvort till. berast frá háskólanum eða hæstv. ríkisstj. um það efni.