06.11.1953
Efri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

17. mál, Háskóli Íslands

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til 1. umr., þá lét ég þess getið, að síðast þegar hér hefði verið rætt nm fjölgun prófessora í háskólanum, þá hefði þessi hv. d. tekið alleindregna afstöðu, að vísu ekki varðandi lagadeild háskólans, heldur læknadeild, og mæltist ég til þess þá við hv. n., sem þetta mál fengi til meðferðar, að hún athugaði þessa sögu málsins. Nú er málið fram komið við 2. umr., eins og hér segir, og hef ég tekið eftir því, að hv. frsm. sagði, að háskólarektor hefði gefið n. mjög mikilsverðar upplýsingar varðandi skipun prófessoranna, en mér fannst vanta á, að þær upplýsingar væru látnar ná til þessarar hv. d. Nú talaði hér næstur á undan mér hv. 4. þm. Reykv. og taldi, að einmitt í læknadeildinni væri ekki síður þörf á nokkrum breytingum heldur en í lagadeild. Ég skal engan dóm á það leggja og vil ekki á neinn hátt leggja stein í götu fyrir þetta frv. og mun greiða því atkv. til 3. umr., en ég vil láta í ljós þá skoðun, að mér þætti það gott og mikils um vert, ef till. eins og hv. 4. þm. Reykv. boðaði kæmu hér fram, annaðhvort í sambandi við þetta frv. eða sjálfstæðar. Vitaskuld er líka tími til að koma með brtt. við þetta frv. við 3. umr. og engin ástæða til að tefja framgang þess nú eins og er.

Ég skal lauslega geta þess, að þau einu afskipti, sem ég hef haft af prófessoraskipunum eða frv. þar að lútandi varðandi þá mikilvægu stofnun, sem hér er um að ræða, er það, að á þinginu 1951 flutti ég hér brtt. við svipað frv., sem að vísu snerist þá eingöngu um fjölgun læknaprófessora, um að sá læknir, sem hefur röntgen- og geislalækningakennslu á hendi, yrði skipaður prófessor. Þá horfði nú málið þannig við, að það mundi hafa einhvern kostnað í för með sér, en nú horfir málið öðruvísi við að því leyti til að það mundi ekki auka neitt á útgjöld ríkissjóðs frá því, sem er, en vera eingöngu til þess, að þessari grein læknavísindanna yrði gert jafnhátt undir höfði og öðrum greinum þeirra vísinda er gert í dag, þar sem prófessor er í lyfjalækningafræði og prófessor í handlækningum. Það mundi þess vegna vera miklu aðgengilegra að gera röntgen- og geislalækningafræðinni jafnt undir höfði núna heldur en það var á þeim tíma, svo að læknir sá, sem hefur þessa kennslu á hendi, fengi og hans fræðigrein sömu aðstöðu hvað þetta snertir við háskólann eins og aðrar nauðsynlegar fræðigreinar í heilsubótarkennslu landsmanna. Ég skal ekki orðlengja um þetta, en vildi aðeins nota tækifærið til að benda á þessa staðreynd, að þótt sú breyt. væri á gerð nú, að prófessorat væri stofnað, eða héti svo, þá kostaði það ekkert meira fyrir ríkissjóðinn heldur en það, sem hann geldur í dag samkv. þeim beztu upplýsingum, sem ég hef fengið í þessu máli.

Eins og ég sagði áður, þá er það ekki mín meining að spilla fyrir framgangi þessa máls, og mikil lagavísindi eru vissulega til í landinu og sjálfsagt ekki vanþörf á, að þau séu vel lærð og kennslan sé vel af hendi leyst. Ég mun þess vegna fyrst um sinn fylgja þessu máli til 3. umr., en tel ekki örgrannt um, eftir því sem orð hafa fallið hér, að einhver breyting kunni á að verða, annaðhvort í sambandi við þetta mál ellegar þá með nýjum till. Ég tel það ekki mitt mál að taka upp nýjar till. í þessu máli, öðruvísi en ef það væri brtt., því að það er miklu frekar þeirra manna mál, sem hafa yfirstjórn heilbrigðismálanna í landinu, að sjá því farborða, að fræðigreinum sé ekki mismunað hvað þetta snertir, fræðigreinum, sem talið er nauðsynlegt að iðka til að halda við heilbrigði landsmanna. Það væri náttúrlega eðlilegast, að slíkar till. kæmu fram frá þeim ráðh., sem hefur með læknamálin í heild sinni að gera.