06.11.1953
Efri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

17. mál, Háskóli Íslands

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Út af tveim síðustu ræðum, sem fluttar hafa verið hér um þetta mál, vil ég aðeins benda á, að menntmn. hefur ekki tekið neina afstöðu um annað en það frv., sem til hennar var vísað, og mælir hún með því, eins og sést á nál. á þskj. 147. Mér hefur fundizt þess kenna í þessum tveimur síðustu ræðum, að jafnvel sá skilningur ríkti, að menntmn. deildarinnar hefði að vísu mælt með þessu atriði, sem frv. fjallar um, en þar með lýst sig andvíga öðrum breytingum. Það kom nú að vísu skýrt fram hjá hv. frsm. n., að sá skilningur er ekki hinn rétti, en af því að þessar ræður voru fluttar, eftir að hv. frsm. talaði hér, þá finn ég ástæðu til þess að benda á það, að n. hefur alls enga afstöðu tekið sem slík til þeirra atriða, sem hér hefur verið talað um síðan, heldur aðeins til frv., sem fyrir liggur. Þess vegna, þó að hv. 4. þm. Reykv. hafi einn skrifað undir nál. með fyrirvara, þá ber vitanlega að skilja það svo, þar sem ekkert er farið út í önnur atriði í nál. og engin till. hefur legið fyrir um önnur atriði, að auðvitað eru nm. alveg óbundnir um till., sem fram kynnu að koma um fleiri atriði varðandi Háskóla Íslands.

Ég fann ástæðu til að taka það skýrt fram út af þeim ummælum, sem fallið hafa, að það er síður en svo, að menntmn. hafi á nokkurn hátt fyrir fram lýst sig andvíga till., sem fram kynnu að koma. Hún á eftir að taka afstöðu til þess.