04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

115. mál, möskvastærð fiskineta

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Í d. hefur nú verið útbýtt frv. ríkisstj. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að láta öðlast gildi ákvæðin í alþjóðasamningi frá 5. apríl 1946, um möskvastærð fiskinetja og lágmarksstærðir fisktegunda, ásamt ákvæðum viðbætis við samninginn frá 2. apríl 1953.

Eins og þm. mun kunnugt, var Ísland aðill að möskvastærðasamningnum frá 23. marz 1937, og voru sett um það lög á Alþingi, nr. 77 frá 21. des. 1937. Samningur þessi kom þó aldrei til framkvæmda, þar sem hann var aldrei fullgiltur af nægilega mörgum samningsaðilum. Samningsaðilum var þó ljós nauðsyn þess, að samningurinn kæmi til framkvæmda, en vegna heimsstyrjaldarinnar 1939–45 féll málið niður um sinn.

Að aflokinni styrjöldinni, eða í ársbyrjun 1946, var boðað til ofveiðiráðstefnu í London, og var ríkisstj. Íslands boðið að taka þátt í þessari ráðstefnu. Ákveðið var að taka boðinu. Hinn 5. apríl 1946 var undirritaður í London alþjóðasamningur um möskvastærð fiskinetja og lágmarksstærðir fisktegunda. Ísland undirritaði samninginn með fyrirvara. Þátttaka Íslands í samningi þessum byggðist auðvitað á því, að nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda fiskimið úthafsins verði eigi gerðar með öðrum hætti en samningi þeirra ríkja, sem hlut eiga að máli, og Íslendingar hafa flestum, ef ekki öllum þjóðum meiri áhuga á því, að fiskimiðin séu ekki eyðilögð með rányrkju. Samningur þessi gengur lengra í friðunarráðstöfunum en samningurinn 1937, því að lágmarksmöskvastærð er nú 110 mm, en var 105 eftir gamla samningnum. Í samræmi við þetta hefur lágmarksstærðum fiska, er veiða má á Íslandsmíðum, verið breytt samkv. samningnum.

Aðalatriðið frá sjónarmiði Íslendinga í þessum efnum er þó það, að fiskimiðin við strendur landsins séu vernduð, og er Íslendingum bæði rétt og skylt að sjá um verndun þeirra. Ríkisstj. telur, að hverju ríki sé rétt að ákveða takmörk fiskveiðalögsögunnar innan .sanngjarnra fjarlægða frá ströndum, þar sem tekið sé tillit til landfræðilegra og efnahagslegra aðstæðna.

Í samningnum, 3. gr., er tekið fram, að engin ákvæði samningsins hafi áhrif á skoðanir aðilanna varðandi víðáttu landhelginnar, en vafasamt þótti, hvort hið sama gilti um fiskveiðalögsögu utan hinnar eiginlegu landhelgi. Við afhendingu fullgildingarskjals Íslands í ágúst 1951 var það berum orðum tekið fram af Íslands hálfu, að þátttöku Íslands í samningnum mætti ekki skýra þannig, að hún hefði nokkur áhrif á framkvæmd landgrunnsfyrirætlananna, þ.e.a.s., að engu væri afsalað í sambandi við það. Þátttaka Íslands í alþjóðasamningnum um verndun fiskimiða hlýtur því að byggjast á þeirri forsendu, að Íslendingar afsali sér engu í sambandi við einhliða ráðstafanir á eigin fiskimiðum.

Ég vil ekki fjölyrða frekar um frv. þetta að sinni, en vísa í grg., er fylgir frv., og óska, að frv. verði vísað til sjútvn.