23.03.1954
Efri deild: 66. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

167. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma til að ræða þetta mál öllu meira en komið er. Það voru aðeins örfá orð út af því, sem hv. þm. Barð. sagði.

Það er í fyrsta lagi það, sem hann minntist á kakaódeigið og það erindi, sem komið hafði til fjhn. út af því. Þá vil ég upplýsa það, að þessi eina verksmiðja, sem vill una frv. eins og það er, hefur á árinu sem leið flutt inn 151/2 tonn af hráefni í þessa vöru af 16.6 tonna heildarinnflutningi, þannig að í þessu efni er enginn samanburður á því, hvað þessi eina verksmiðja hefur þarna margfaldra hagsmuna að gæta á við allar hinar, þegar litið er á tollgreiðslu af hráefninu.

Hv. þm. fór svo að minnast á ástæðurnar til þess, að svona hefði verið gengið frá, og sagðist ekki vilja ætla, að það væri af pólitískum ástæðum, enda skil ég varla, hvernig það ætti að vera sérstaklega. Milliþn. er a.m.k. úr þrem flokkum, og hvað súkkulaðiverksmiðjuna snertir er það að segja, að ég veit ekki til, að forstjóri hennar sé framsóknarmaður; þó kann það að vera, ég þekki það ekki. Ég veit, að það er gjaldkeri við það fyrirtæki framsóknarmaður, en í ýmsum fyrirtækjum eru menn af ýmiss konar flokkum. En hvað dósaverksmiðjuna snertir, þá munu þar vera aðalmenn tveir bræður, sem alls ekki ern sammála í pólitík. Ég held, að annar bróðirinn standi hv. þm. Barð. alveg eins nærri og framsóknarmönnum. Ég held því, að þetta komi ekki neitt til greina, að hér sé flokkað í tollflokka eftir póltískri afstöðu þeirra manna, sem hlut eiga að máli. Fyrir utan, að það væri auðvitað ranglátt, þá held ég, að það væri óskaplega heimskulegt, vegna þess að eigendur fyrirtækja skipta stöðugt, og það getur verið sjálfstæðismaður í dag og framsóknarmaður á morgun og alveg öfugt. (Gripið fram í.) Ojæja, þessum lögum hefur nú ekki verið breytt í neinum höfuðatriðum í 15 ár, en breytingar á mannahaldi í fyrirtækjum og svo breytingar á forstöðumönnum þeirra eru oft örari. Ég held við getum alveg sleppt þeirri hlið málsins.