07.12.1953
Efri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

11. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Í framsöguræðu minni um frv. til stimpillaga ræddi ég óbeinlínis nokkuð um þetta mál, því að. ekki varð hjá því komizt að minnast á bæði málin samtímis. Ég get því sleppt öllum almennum hugleiðingum um frv. í heild sinni. Aðeins vil ég geta þess, að einn af nm., hv. 4. þm. Reykv., ber enga ábyrgð á afgreiðslu þessa máls og hefur ekki undirskrifað nál., enda var hann fjarverandi, þegar málið var afgreitt, og einnig hins, að þær brtt., sem n. ber fram, eru aðeins það, sem við fjórir nm., sem undir nál. skrifum, urðum sammála um að bera fram, en n. mun taka málið á ný til athugunar og áskilur sér rétt til að koma fram með frekari brtt. við 3. umr. Einnig hafa nm. yfirleitt rétt til þess að bera þá fram brtt., en hafa ekki bundið sig við að afgreiða málið á þann hátt, sem hér er í bráðina lagt til, þó að n. eða sá hluti hennar, sem afgreiddi málið, sé sammála um það, bæði um þetta mál og það, sem var á dagskrá hér næst áður, að það sé bót að því að fá heildarlöggjöf um þessi efni í stað þeirra framlenginga, sem áttu sér stað ár eftir ár áður fyrr eða til þessa tíma, og líka hitt, að það gangi í rétta stefnu að hækka föstu gjöldin fyrir ýmsar framkvæmdir yfirvaldanna, leyfisgjöld og annað slíkt, en að lækka prósentugjöldin.

Það eru aðeins tvær brtt., sem n. ber fram að þessu sinni á þskj. 259. Sú fyrri er við 2. gr. Hún er um það, að af málum; þar sem fjárhæðin nemur ekki 1000 kr., greiðist hálf réttargjöld. Áður var það svo, að af málum, sem ekki námu 100 kr., að mig minnir, heldur en 200, voru greidd hálf réttargjöld, og virðist n. rétt, að svipað ákvæði sé enn í lögum, og mundu þá 1000 kr. nú vera svipað og l00 kr. voru fyrr. — 2. brtt. er við 26. gr. Það er um veðbókarvottorð. Eftir frv. eiga þau að kosta 25 kr., en n. þykir það of hátt. Þó að þetta sé nú að vísu fast gjald og sé réttmætt, að það hækki, þá virðist n. það of mikil hækkun og leggur til, að þetta sé fært niður í 15 kr.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta mál og vísa til þess, sem ég sagði í framsöguræðu minni um frv. til laga um stimpilgjald.