02.04.1954
Neðri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

194. mál, raforkulög

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég mun nú ekki lengja þessar umræður, enda tel ég ekki mikla ástæðu til þess. Ég vil taka það fram út af fsp. hv. 2. þm. Reykv. (EOl), að það mundi nú geta tognað úr þessum umr., ef ætti að fara að tala um 10 ára áætlanir í sjávarútvegi, landbúnaði, iðnaði og ég veit ekki hvað og hvað meira, sem hv. þm. taldi hér upp. Ég skoða þetta nú ekki sem beina alvöru hv. þm. auðvitað, þó að hann kastaði þessu fram, heldur er það nú hans venjulega málæði, sem þar kemur í ljós, að rugla öllu saman. Ég hef nú alltaf litið svo á, að raforkan skapaði einmitt undirstöðu undir fjölbreyttara atvinnulíf auk þeirra þæginda, sem hún veitir á heimilum, og margvíslegrar þjónustu. Þannig er það vitanlega eins með þær virkjanir, sem hér er verið með í undirbúningi.

Hv. þm. var að gera eitthvað lítið úr búvísindum ríkisstj. — heyrðist mér á hv. þm. — í sambandi við þetta og fleira, sem ríkisstj. hefði með höndum. En einhvern veginn er það nú svo, að hv. þm. hefur rekið sig á það, að Alþ. trúi heldur lítið á hans búvísindi, þó að þeim sé nú lýst hér bæði í tíma og ótíma, og þess vegna tek ég það ekki neitt nærri mér, þó að hann nefni hluti eins og þessa. En það kemur náttúrlega ekki til mála, að ég fari að ræða hér einhverjar sérstakar áætlanir fyrir atvinnuvegina í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, — ég vil taka það mjög skýrt fram. En það, sem kom mér til þess að standa upp, voru atriði, sem hv. 2. þm. Reykv. nefndi og snerta þetta mál alveg beint og er því ástæða til þess að nefna.

Hann spurði, hv. þm., hvaða orkuver fyrirhugað væri að byrja á að reisa. Þetta er eðlileg og rétt spurning í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir. Ég hefði mjög gjarnan viljað geta skýrt frá þessu, um leið og ég flutti þetta frv., en því miður get ég það ekki fyllilega og það af þeirri ástæðu, að það liggja enn ekki fyrir þær upplýsingar og áætlanir frá raforkumálaskrifstofunni, að unnt sé fyrir ríkisstj. að taka fulla ákvörðun um það, á hverju verður byrjað. Ég get þó sagt það, að það er ákveðið, að á tveim orkuverum verði byrjað og það á þessu ári, eftir því sem mögulegt er, annað austanlands og hitt vestanlands, en meira get ég ekki sagt varðandi þetta nú, og það er af þeim ástæðum, sem ég skýrði frá.

Raforkumálaskrifstofan telur, að fullnægjandi upplýsingar um þetta, eins og hægt er að láta þær í té nú, liggi fyrir seint í þessum mánuði. Mundi þá fyrir aprílmánaðarlok vera hægt að taka fullnaðarákvörðun um þetta.

Hv. 2. þm. Reykv. hafði allstór orð um það, hve miklar vitleysur væru gerðar og mundu sjálfsagt verða gerðar um staðsetningu raforkuvera í sambandi við þetta „plan“. Ég vil ekki setja mig á eins háan hest og hann gerir, að hann telur sig hafa algerlega vit á því og fræðilega þekkingu að geta sagt um, hvað sé hið eina rétta í þessu efni. Ég er ekki að spila mig það stóran mann í þessum hlutum, að ég þori að segja það. Hitt veit ég og er mjög ljóst, að það er vandi að taka ákvarðanir í þessu efni og það er ekki alltaf eins einfalt og hv. 2. þm. Reykv. lét í veðri vaka að velja aðeins alltaf stærstu virkjunina. Ég tel það vafamál, að stóra virkjunin sé ávallt sjálfsagðari en minni virkjunin. Það er svo margt fleira, sem kemur til greina í þessu sambandi. Þetta er mikið vandamál, það skal ég fúslega viðurkenna, og ábyggilega verður reynt að ákveða þessa hluti eftir þeirri skynsemi, sem tæknilegir ráðunautar ríkisstj. hafa yfir að ráða og ríkisstj. sjálf treystir sér til að gera.

Það var sérstaklega þetta, sem ég vildi nefna. Hv. þm. sagði, að ég hefði talað mikið um sveitabýlin og nauðsyn þeirra fyrir raforku. Það er rétt. Ég talaði töluvert um það, en ég talaði í sjálfu sér ekkert meira um það atriði heldur en um nauðsyn þéttbýlisins, þ.e.a.s. þorpa, kauptúna, fyrir það sama. Ég lýsti þörfum beggja. Sá er þó munurinn, að flestöll eða sennilega öll þorp svo að segja hafa einhverja raforku nú, meðan s/5 sveitabæjanna hafa enga raforku og helmingurinn af hinum, þessum i~, sem má segja að hafi raforku, hafa hana svo ófullkomna, að vafamál er, hvort það hafi verið nokkurn tíma rétt að leggja út í slíkar framkvæmdir, eins og var með vindrafstöðvar og annað slíkt, sem kostar mikla peninga, en gefur sáralítið í aðra hönd.

Ég vildi aðeins taka þetta fram, því að mér er alveg ljóst, að þessi mál þarf að leysa algerlega jöfnum höndum fyrir sveitir og þéttbyggðari staði og þar á milli á ekki að vera um neina togstreltu að ræða að mínum dómi, og ég ætlaði a.m.k. alls ekki að vekja það upp að neinu leyti hér.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þetta. Ég tel mig hafa svarað því af fyrirspurnum hv. 2. þm. Reykv., sem snertir þetta mál beint, en hitt leiði ég algerlega hjá mér, að fara að ræða hér almennt um atvinnulíf og ýmsar greinar þess og einhverjar áætlanir um hvern þátt atvinnulífsins.