30.03.1954
Efri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

184. mál, fasteignaskattur

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það er raunar nokkuð langt síðan sveitarfélögin fóru að kvarta um það, að tekjuöflun þeirra væri ekki miðuð við æskilega stofna. Ég ætla, að það hafi verið 1951, sem bæjarstjórafundur sendi Alþ. óskir sínar um úrbætur og lét fylgja óskunum till. frá sér í frumvarpsformi um það að veita sveitarfélögunum hlutdeild í söluskatti. Alþ. féllst ekki á þetta, en samþ. hins vegar þáltill. um að skipa n. til að endurskoða skattamál og um leið að endurskoða verkaskiptinguna milli sveitarfélaganna annars vegar og ríkisins hins vegar og tekjuskiptinguna milli þessara aðila. Nú hefur þessi n. skilað allvíðtækum till. til ríkisstj. um tekju- og eignarskatt, og þær till. hafa verið lagðar fyrir Alþ. Þær fela alls ekki í sér neinar úrbætur fyrir sveitarfélögin, þvert á móti er í þeim till. nokkuð gengið á þá stofna, sem sveitarfélögin hafa haft til tekna. Þar á ég við það, að afnuminn er stríðsgróðaskattur hjá persónulegum skattgreiðendum, en sveitarfélögin hafa haft 45% í tekjur af þeim skatti, þar sem hann hefur fallizt til. Enn fremur er lækkaður stríðsgróðaskattur af greiðslum félaga um 20%, og minnkar hlutur sveitarfélaganna í sama hlutfalli. Þetta var skattamálanefndinni ljóst, þó að ekki ynnist tími til þess að gera till. um tekjuöflun sveitarfélaganna, og að tilhlutun nm. er frv. það lagt fram af ríkisstj., sem nú er hér til umr. og er nm það að láta fasteignaskatt þann, sem ríkissjóður hefur tekið allt síðan 1922, renna til sveitarfélaganna. Þetta er ekki mikil úrbót. Það má segja, að með því sé aðeins sýndur litur, því að allur þessi skattur er áætlaður á fjárl. 700 þús. kr. Það er sýnt, að ekki getur mikið komið í hlut hvers sveitarfélags, en þó nokkrar upphæðir í hlut sumra sveitarfélaga.

Eins og frv. er lagt fyrir, þá er gengið út frá því, að sveitarfélögin fái þessar tekjur fyrirhafnarlaust, þ.e., að innheimtumenn ríkisins innheimti skattinn eins og áður og honum verði skilað í einni upphæð til hvers sveitarfélags. Þeir, sem frv. sömdu, álitu, að þetta væri réttmætt, að skatturinn kæmi í hlut sveitarfélaganna eða að honum yrði ávisað til sveitarfélaganna, án þess að þau þyrftu að leggja fram vinnu hans vegna, og hins vegar mundi vera útgjaldalaust fyrir ríkið að innheimta hann eins og áður. En eftir að frv. kom fram, og um það bil sem verið var að taka það til athugunar í fjhn., þá gáfu sig fram stjórnendur félags héraðsdómara og óskuðu eindregið eftir því, að af lögreglustjórunum og þeim, sem innheimt hafa þennan skatt, yrði létt innheimtunni og sveitarfélögunum gert skylt að innheimta sinn skatt. Þetta rökstuddu stjórnendurnir með því, að þegar þessi skattur rynni ekki lengur í ríkissjóðinn, þá væri hann allörðugur í bókhaldi fyrir þá og ekki sízt vegna þess, að nú væri verið að taka upp nýtt form og hentugra á innheimtu skatta og vélabókhald það, sem hagstofan hefur yfir að ráða, mundi leggja innheimtumönnum í hendur innheimtuskrár í manntalsbók, sem væri hægt að binda saman og mynda úr manntalsbók, og þá yrði þessi skattur utanveltu eða félli ekki inn í formið og mundi því valda kostnaði og fyrirhöfn, sem ástæðulaust væri að hafa, úr því að hann væri ekki lengur tekjur ríkisins. Eftir að hafa athugað þetta féllst fjhn. á sjónarmið héraðsdómaranna, en hins vegar taldi n. rétt að þeim væri gert að skyldu að láta sveitarfélögunum í té í fyrsta sinn skrá yfir þennan skatt, svo að þannig fengju innheimtumenn sveitarfélaganna í hendur grundvöll til innheimtunnar. Þá eru aðalómök spöruð, vegna þess að hjá sömu aðilum þurfa flest sveitarfélögin a.m.k. að innheimta þann heimildarskatt, sem þau hafa rétt til að taka og nota sér að taka hjá þessum sömu aðilum.

Fjhn. leggur til, að frv. verði samþ. að efni til með þeim breytingum, sem fylgja útgefnu áliti hennar. En þær breytingar eru eingöngu um það að verða við till. stjórnar félags héraðsdómaranna um að létta af lögreglustjórunum eða öðrum þeim innheimtumönnum, sem heimt hafa þennan skatt fyrir ríkið, innheimtunni og skylda þá til þess þó að semja innheimtuskrár á þessu ári eftir sem áður og afhenda þær sveitarstjórnunum.

Þessum breytingum fylgdi það, að það þurfti að breyta nokkrum orðum í l. að öðru leyti fram yfir það, sem frv. upphaflega gerði ráð fyrir. 4. gr. l. um fasteignaskatt frá 1941 hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef fasteign, sem metin hefur verið í einu lagi, er skipt og eigendur æskja þess, að hver hluti sé talinn sérstaklega til skattgjalds, skulu þeir bera það mál undir lögreglustjóra, sem leggur það undir úrskurð stjórnarráðsins ásamt till. sínum.“

Í samræmi við þá breytingu að öðru leyti að færa til innheimtuna þykir líka rétt að færa þetta úrskurðarvald heim í sveitarfélögin, og þess vegna er a-liður 1. till. fram kominn, að í stað orðanna „lögreglustjóra, sem leggur það undir úrskurð stjórnarráðsins ásamt till. sínum“ í niðurlagi 4. gr. l. komi: sveitarstjórn, sem leggur úrskurð á beiðnina.

5. gr. l. um fasteignaskatt hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fasteignaskatt skal greiða í því lögsagnarumdæmi, sem eignin er. Ef skattgreiðandi er þar eigi heimilisfastur, skal hann hafa þar umboðsmann, er geri skil fyrir skattinum. Ef enginn umboðsmaður er tilnefndur, telst sá umboðsmaður, sem eignina hefur til nytja, og ef fleiri eru, þá sá þeirra, er lögreglustjóri velur.“

Til samræmis er lagt til, að í stað orðanna „lögsagnarumdæmi“ og „lögreglustjóri“ í 5. gr. komi: sveitarfélagi, sveitarstjórn.

Þá er breyting á 8. gr. l. á aðra leið en gert er ráð fyrir í frv. eða svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Skatt þennan skulu sveitarstjórnir innheimta, og fellur hann í gjalddaga 1. júlí ár hvert, í fyrsta sinn 1954. Þó getur sveitarstjórn ákveðið annan gjalddaga fyrr á árinu.“

Loks er það svo 3. brtt., með leyfi hæstv. forseta, að á eftir 3. gr., sem verður 5. gr., komi svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

„Lögreglustjórar, eða hver sá embættismaður, sem innheimta hefði átt fasteignaskattinn að óbreyttum þeim l., er um hann hafa gilt, afhendi hver í sínu umdæmi eigi síðar en 1. júní 1954 gjaldkera hvers sveitarsjóðs í umdæminu skrá yfir fasteignaskattsgjaldendur í sveitarfélaginu, og sé á skránni tilgreindur skattur hvers gjaldanda fyrir árið 1954.“

Eins og ég sagði áðan, þá er ekki, þótt þetta frv. verði að l., mikil úrbót gerð fyrir sveitarfélögin, en það er þó sýndur litur og bent í þá átt, að Alþ. vilji í framtíðinni koma því þannig fyrir, að sveitarfélögin hafi álöguréttinn á fasteignir. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að þessi úrbót hljóti aðeins að standa stutt, því að ég tel allar líkur til þess, að sú n., sem er að endurskoða tekjuöflunarleiðir sveitarfélaga, tekjuöflunarlöggjöf þeirra, hljóti að stefna að því að gera hana sem einfaldasta og þá um leið að afnema það, að sveitarfélögin taki fasteignaskatt í tvennu lagi. En það á vitanlega ekki við, að Alþ. á þessu stigi, úr því að endurskoðunin stendur yfir, breyti þessum 1. frekar en hér er lagt til, að ávísa skattinum eins og hann er og láta það vera undir endurskoðun og síðari samþykkt komið, hvernig málunum verður frekar ráðstafað. Þetta er sem sé bráðabirgðaráðstöfun, sem hér er lögð til.