03.05.1955
Neðri deild: 83. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

150. mál, kostnaður við skóla

Fram. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft þetta frv. til athugunar nokkra hríð, og leggur n. til, að það verði samþ. með nokkrum breyt., sem prentaðar eru á þskj. 693, og vil ég leyfa mér fyrir hönd n. að fara um þær fáum orðum.

Í gildandi lögum segir svo um fræðsluhéruð: „Hver sýsla og hver kaupstaður er fræðsluhérað. Þó skal sameina tvær sýslur í eitt fræðsluhérað svo og hrepp eða hluta úr hreppifræðsluhéraði annarrar sýslu, þegar fræðslumálastjórn mælir svo fyrir og hlutaðeigandi fræðsluráð samþykkja.“

Þessi lög hafa verið í gildi nú um 10 ára skeið, og þessi skipun er þegar orðin föst um skiptingu landsins í fræðsluhéruð. Ég hef það fyrir satt, að heimildin til þess að sameina sýslur eða hluta úr sýslum í fræðsluhéruð hafi hvergi verið notuð, heldur sé skipting landsins í fræðsluhéruð eingöngu bundin við sýslur landsins og kaupstaði.

Nú er gert ráð fyrir því samkv. þessu frv., að þessi gr. standi áfram óbreytt í lögum, en 1. gr. frv. hefst samt sem áður á þeim orðum, að menntmrn. ákveði fræðsluhérað og skólahverfi o.s.frv. Það virðist mjög hæpið, að þetta geti hvort tveggja staðizt, að lög ákveði, að hver sýsla og kaupstaður sé fræðsluhérað, en leggja það jafnframt á vald menntmrn. að kveða á um þetta. En ef litið yrði nú svo á, að þau lög, sem síðar eru sett, ættu að þessu leyti að gilda og hin eldri ákvæði að víkja, þá liggur það ljóst fyrir, að með 1. gr. frv., eins og hún er orðuð, er opnuð leið til þess að raska þeirri skipan um skiptingu landsins í fræðsluhéruð, sem nú er orðin fastmótuð.

Þá er enn fremur kveðið svo á í 1. gr. frv., að þar er talað um, að menntmrn. ákveði fræðsluhérað barnafræðslu, gagnfræðastigs og húsmæðrafræðslu. M.ö.o., að það er gert ráð fyrir því að skipa landinn í fræðsluhéruð fyrir hvert skólastig. Þetta er alger nýjung í íslenzkri skólamálalöggjöf. Fræðsluhéruðin eru föst og ákveðin félagsheild, bundin við sýslur landsins og kaupstaði. Hitt er svo aftur breytilegt, hve margir skólar eru stofnaðir og reknir innan hvers fræðsluhéraðs fyrir sig.

N. hefur verið tjáð, að sú hugsun, sem liggur á bak við þetta orðalag 1. gr., sé að leggja það á vald rn., hvar skólar eru stofnaðir, og það er rétt og sjálfsagt, að menntmrn. hafi úrskurðarvald um það, en í þessu efni gildir ekki hið sama um barnafræðslu, gagnfræðastig eða húsmæðrafræðslu, vegna þess að barnafræðslustigið tekur til skólaskyldunnar, og um leið og ríkisvaldið segir við framfæranda barns: Þú skalt láta barnið þitt í skóla — þá ber ríkisvaldinn jafnframt skylda til að búa svo um hnútana, að hverjum aðila veitist tiltölulega auðvelt að stunda það nám, sem hann er skyldaður til af þjóðfélagsins hálfu. Þess vegna kveða l. svo á, að hverju fræðsluhéraði skuli skipt í skólahverfi. Ákvæði l. um þetta efni eru svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fræðslumálastjórn mælir fyrir um, hvernig fræðsluhéraði skuli skipt í skólahverfi, enda samþykki hlutaðeigandi fræðsluráð skiptinguna, og í hverju skólahverfi skal vera skólahús á hentugum stað, er fullnægi þörfum fyrir barnaskólahald í hverfinn.“ Um leið og fræðsluhéraði er skipt í skólahverfi, er það þá ákveðið, hvar barnaskóli skuli reistur. Gert er ráð fyrir því í þessu frv., að þessi ákvæði l. standi óbreytt, og þar með er það lagt á vald fræðslumálastjórnarinnar að kveða á um það, hvar barnaskólar eru reistir, en sú orðalagsbreyting, sem n. leggur til að gera á 1. gr. frv., miðar að því að halda þeirri skipan, sem nú er um skiptingu landsins í fræðsluhéruð, en leggja það aðeins á vald menntmrn., hvar skólar gagnfræðastigs eru reistir.

Víða um land hagar svo til, að það er eðlilegt, að tvö eða jafnvei fleiri fræðsluhéruð standi saman að einum gagnfræðaskóla, og er eðlilegt og sjálfsagt, að menntmrn. kveði á um það, eftir að hafa leitað umsagnar og till. þeirra aðila, sem tekið er fram í frvgr.

Í l. um húsmæðrafræðslu eru alveg sérstök ákvæði um það, hvernig vinna skal að því að stofna húsmæðraskóla. Þau ákvæði eru þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Til stofnunar húsmæðraskóla þarf :

1. Till. hlutaðeigandi fræðsluráðs eða fræðsluráða, þar sem jafnframt sé bent á skólastað.

2. Umsögn hlutaðeigandi kvenfélagasambands eða sambanda.

3. Samþykki hlutaðeigandi kaupstaðar, sýslufélags eða sýslufélaga.

4. Samþykki fræðslumálastjórnar á skólastað og uppdrætti að skólahúsi.

5. Fjárveitingu Alþ. til stofnunar skólans.“ Þessi ákvæði eru svo skýr, að samkv. þeim getur enginn vafi leikið á því, hvernig undirhúningi skal háttað um stofnun húsmæðraskóla og hver hefur úrskurðarvald um það; það er að síðustu Alþ. sjálft, sem á að veita fjárveitingu til skólans. Menntmn. telur, að þessi ákvæði eigi að standa óbreytt í l. og þau séu alveg fullnægjandi til að tryggja aðstöðu rn. í þessu efni.

2. brtt. n. er um það að bæta inn í gr. orðunum „að fengnum till. fræðslumálastjóra“. Það er lagt til, að inn í frv. bætist samsvarandi ákvæði á fleiri stöðum, og þarf það ekki skýringa við.

B-liður 2. brtt. er aðeins orðalagsbreyting, en breytir ekki efni frv. á neinn hátt.

4. brtt. kveður á um það, að sett skuli nokkru skýrari ákvæði en nú eru í l. um það, hvað nemendur þurfa að vera margir til þess, að haldið sé uppi gagnfræðaskóla.

Námsstjóri húsmæðrafræðslunnar kom á fund menntmn. og gerði þar grein fyrir þeirri skoðun sinni, að ákvæði 8. gr. um kennara við húsmæðraskóla væru of ströng. Niðurstaðan varð sú, að n. leggur til, að alls staðar sé miðað við lágmarkstölu þeirra nemenda, sem til er tekið í gr., en ekki látið hlaupa á tölum eins og nú er í frv.

6. brtt. er orðalagsbreyting, sem í engu breytir efni frv.

8. brtt. er um það, að þar sem segir, að reikningar skólanna skuli sendir menntmrn., þá leggur n. til, að samrit af reikningunum verði samtímis sent fræðslumálaskrifstofunni.

9. brtt. er aðeins leiðréttingar á ákvæðum um, hvað fellt er úr gildi, í samræmi við þær till., sem ég hef nú gert að umtalsefni.