03.05.1955
Neðri deild: 83. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

150. mál, kostnaður við skóla

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Við afgreiðslu þessa máls í hv. menntmn. varð n. sammála um þær breytingar, sem hv. frsm., þm. A-Sk. (PÞ), hefur nú flutt, og stendur öll n. að þeim.

Ein var sú till., sem ég freistaði að fá samþykki fyrir í n., en hv. samnm. mínir töldu sig ekki geta fallizt á. Það er sú till., sem ég nú ásamt hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) og hv. 1. landsk. þm. (GÞG) flyt á þskj. 703. Þessi litla till. varðar það atriði frv., að í 2. gr. þess er gert ráð fyrir, að ef einhvers staðar séu hafnar skólabyggingar, án þess að áður hafi verið veitt fé til þeirra frá Alþ., þá skuli slíkar framkvæmdir ekki koma til greina við úthlutun fjár til skólabygginga af hálfu Alþ.

Nú er því svo háttað, að á undanförnum árum hafa verið nokkuð örar skólabyggingar í landinu, og ríkissjóði ber að greiða þær að vissum hluta. Ríkissjóður hefur ekki haft við að inna af hendi þessar greiðslur, og skuldir hafa myndazt. Af þessum ástæðum verða það skiljanleg rök, að ríkið verði með einhverjum hætti að hafa hönd í bagga um það, hversu mikið er ráðizt í af skólaframkvæmdum á hverjum tíma, þannig að ríkissjóður verði útgjaldaskyldur þeirra vegna. Í frv. eru settar við þessu margháttaðar skorður aðrar en þær, sem ég legg til að numdar verði burt úr frv. Í fyrsta lagi er það gert að skilyrði fyrir ríkisframlagi til skólabygginga, að menntmrn. hafi samþykkt skólastaðinn. Í öðru lagi, að skólalóðin sé eign skólahverfisins eða að afnotaréttur hennar sé tryggður með óuppsegjanlegum samningi. Í þriðja lagi er það gert að skilyrði, að fullnaðarteikning mannvirkjanna og nákvæm kostnaðaráætlun hafi hlotið samþykki menntmrn. og húsameistara ríkisins.

Allt þetta tel ég eðlilegt.

En auk þess er í frv. það ákvæði, að Alþ. skuli hverju sinni ákveða, til hvaða skólaframkvæmda eða skólastofnkostnaðar framlög séu veitt. Ég álít, að það sé alveg óþarfi að hafa það líka í frv., sem segir í 3. mgr. 2. gr.: „og er ekki heimilt að hefja framkvæmdir, fyrr en fyrsta fjárveiting er fyrir hendi“.

Ég vil benda á það, að gangur þessara mála er yfirleitt sá, að héraðsstjórnirnar hafa að sjálfsögðu alveg á sama hátt og þeir, sem fara með ríkisvaldið, áhuga fyrir því að eyða ekki meira fé til þessara hluta en nauðsyn krefur, en stundum knýr nauðsyn á af svo miklum þunga, að ekki verður undan skorazt að hefja framkvæmdir. Ég vil nefna það dæmi, að nú að undanförnu hefur íbúum í Vestmannaeyjum verið smám saman að fjölga. Af þessum ástæðum hefur barnaskólahúsið þar á undangengnu tímabili verið að verða meira og meira ófullnægjandi til þeirrar starfsemi, sem þar verður og á að fara fram samkvæmt lögum. Nú var svo komið í byrjun þessa árs, að bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti að hefja undirbúning að viðbótarbyggingu við þetta barnaskólahús. Bæjarstjórnin gekk frá sinni fjárhagsáætlun, að ég ætla frekar síðari hlutann í janúarmánuði en fyrri hlutann í febrúarmánuði, og tók þar upp á fjárhagsáætlun 150 þús. kr. fjárveitingu til þess að standa straum af undirbúningi og byrjunarframkvæmdum við viðbótarbyggingu við barnaskólahúsíð. Auðvitað verður bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum að láta gera uppdrátt að húsinu. Hún verður að láta samþykkja hann hjá fræðslumálastjórninni. Hún verður að tryggja það, að lóðarsamningurinn undir húsið sé óuppsegjanlegur, hún verður að fullnægja öllum þeim þrem skilyrðum, sem ég hef hér talið upp, og auk þess á hún ekki von á neinu framlagi til þessarar byggingar, fyrr en Alþ. samþykkir. En ef frv. er samþ. í því formi, sem það nú er í, þá er viðkomandi bæjarstjórn algerlega bannað að láta grafa fyrir húsinu á þessu sumri, þó að hún vilji gera það á sinn kostnað. Ef þessi orð, sem ég legg til að felld verði út úr gr., væru burt úr henni numin, þá gæti hvert það bæjarfélag, sem í hlut ætti, byrjað á framkvæmdinni, en það skuldbindur ríkið á engan hátt til neinnar greiðslu til þeirrar byggingar, fyrr en Alþ. samþykkir.

Ég sé enga ástæðu til þess, að skólaframkvæmdir séu svo torveldaðar sem gert er ráð fyrir í frv.

Ég bendi á það, að bæjarstjórnir gera yfirleitt sínar fjárhagsáætlanir í byrjun árs. Ríkið gengur frá sínum fjárlögum síðast á ári. Þarna myndast eins árs tímabil, sem óhjákvæmilega heftir allar framkvæmdir og kemur í veg fyrir það, að nokkurt bæjarfélag geti hafizt handa um skólabyggingu, hversu sem á kann að liggja.

Ég vil enn fremur benda á það, að það getur raunar ýmislegt fleira komið fyrir en það, að einn bær stækki hægt og sígandi og þurfi viðbót við sitt skólahúsnæði. Það er deginum ljósara, að skólahús geta fokið. Þau geta brunnið. Það geta orðið margvíslegar ástæður til þess, að skólahúsbyggingu þurfi að hefja, áður en Alþ. hefur samþ. nokkra fjárveitingu til þess, og frá mínu sjónarmiði getur það ekki skoðazt annað en hreint óráð að ganga svo frá l. um þetta mál, að þær byggingarframkvæmdir, sem viðkomandi hérað hefur lagt fé til og byrjað á, áður en Alþ. veitir fé til þess, séu útilokaðar frá því að geta notið styrks samkv. þessum lögum, en þetta er strangt fram tekið í lagafrv., og segir í síðustu mgr. 2. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Ef hafnar eru framkvæmdir, án þess að framantöldum skilyrðum sé fullnægt, er stofnkostnaður ríkissjóði óviðkomandi.“ Mér skilst, að þá sé hann ríkissjóði óviðkomandi í bráð og lengd.

Ég tel sjálfsagt að hafa þau skilyrði, sem skynsamleg eru, til þess að reisa skorður við því, að hlaupið sé út í fen um skólahúsbyggingar. Það er að sjálfsögðu hægt að hefja skólahúsbyggingar, sem ekki eru reistar af fullri nauðsyn og ekki er vit í því að framkvæma, en frá því álít ég að sé nægilega tryggilega gengið í frv., að ríkissjóður beri ekki kostnað af slíkum skólabyggingum, þótt út sé strikað það, sem við þremenningarnir í till. á þskj. 703 höfum lagt til.

Ég vil svo að lokum taka það fram, að þetta atriði var borið undir fjárhagseftirlitsmann skólanna, þegar hann mætti á fundi hjá hv. menntmn., borið undir Aðalstein Eiríksson, og lét hann í ljós þá skoðun, að ekki væri óeðlilegt að strika yfir þau orð í frv., sem ég hef nú lagt til að verði felld niður.

Ég hygg, að þegar hv. alþm. athuga málið nánar, og ég vil sérstaklega skora á menn að skoða þetta hver út frá sjónarmiðum sins héraðs og þar sem hann bezt til þekkir og gera það síðan upp við sig, hvort hann vill með því að láta þetta einkennilega atriði standa eftir í frv. ef til vill verða þess valdandi, að skólamálin í hans héraði dragist úr hömlu fram yfir það, sem hófi getur talizt gegna, og ef menn íhuga þetta rökrænt og láta ekki endilega þær fjárhæðir, sem safnazt hafa sem skuld hjá ríkissjóði vegna skólabygginga, trufla sig frá rökréttri hugsun, þá trúi ég vart öðru en að brtt. um að fella niður orðin: „og er ekki heimilt að hefja framkvæmdir, fyrr en fyrsta fjárveiting er fyrir hendi“ — verði felld niður úr þessu frv.