05.11.1954
Neðri deild: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

78. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Borið hefur verið fram, eins og kunnugt er, af hendi ríkisstjórnarinnar frv. til l. um Fiskveiðasjóð Íslands. Það gæti út af fyrir sig verið nokkurt tilefni til fyrir þann mann, sem hefur verið sýndur sá trúnaður að fara með yfirstjórn sjávarútvegsmála hér á landi, að gera nokkra grein fyrir í sambandi við flutning þessa máls, hvílíkur burðarás sjávarútvegurinn er í atvinnulífi þjóðarinnar. Jafnframt gæti einnig verið fróðlegt að víkja nokkuð að því, hversu mjög hafa aukizt vonir manna um arðvænlega afkomu þessa þýðingarmikla atvinnurekstrar vegna þeirrar friðunarráðstöfunar, sem ríkisstjórnin kom í framkvæmd hinn 15. maí 1952. Ég mun hins vegar ekki að þessu sinni víkja að þessum þýðingarmiklu hliðum málsins, vegna þess að mér er alveg ljóst, að hv. alþm. þekkja mjög mikið til þessa máls. Menn vita almennt, að sjávarútvegurinn er hyrningarsteinninn undir atvinnulífi þjóðarinnar, og menn vita líka, að bátaútvegurinn er, a.m.k. í vissum skilningi, þýðingarmesti þáttur í þeim atvinnurekstri. Enn fremur veit ég það, að reyndin er nú búin að kveða upp svo skýran dóm um ágæti þessara umgetnu friðunarráðstafana, að ekki aðeins allir hv. þm. gera sér ljósa grein fyrir, hversu nauðsynlegar þær voru, heldur og þjóðin í heild. Mun þó væntanlega framtíðin skera enn betur úr um ágæti þessara ráðstafana heldur en enn er í ljós komið.

Þegar núverandi ríkisstj. var mynduð, þá kom mjög til tals innan stjórnarflokkanna að taka ákvæði um eflingu fiskveiðasjóðsins upp sem beinan lið í stjórnarsamningunum. Fyrir því var áhugi í báðum stjórnarflokkunum. Ástæðan til þess, að samt sem áður var ekki hnigið að því ráði, var sumpart sú, að ef hefðu verið tekin upp ákvæði varðandi fiskveiðasjóðinn og eflingu hans, þá hefði þótt eðlilegt, að jafnframt væri gerður sáttmáli um nokkurn styrk til framdráttar landbúnaðinum a.m.k., og jafnframt voru menn á einu máli um það, að stjórnarsamningurinn fjallaði um svo stórvægilegar framkvæmdir og svo fjárfrekar, ef svo mætti að orði kveða, að nokkuð mikið þótti í fang færzt að fara lengra inn á braut ákveðinna fyrirheita og loforða í þessum efnum en gert var. Nægir þar aðeins að minna á tvö atriði af fleirum, annars vegar á rafvæðingu landsins og hins vegar á fyrirheitið um að freista þess að setja löggjöf á kjörtímabilinu um varanlega úrlausn húsnæðisvandræðanna í þéttbýlinn. Menn hafa nú þegar heyrt allmikið um rafvæðinguna, og eins og upplýst hefur verið hér nýlega í hv. d., þá er nú stj. að vinna að því að klæða hina hugmyndina holdi og vonast til, að það megi lánast að leggja fyrir frv. í þeim efnum þegar á þessu þingi, þó að auðvitað stjórnarsáttmálinn bindi stj. ekki við það út af fyrir sig.

Þegar síðasta Alþ. kom saman og nokkuð fór að liða á það, kom í ljós, að þrátt fyrir þessa ákvörðun stjórnarflokkanna, þegar stjórnarsáttmálinn var gerður, var svo ríkur áhugi fyrir þessu máli í báðum stjórnarflokkunum, sjálfsagt líka hjá öðrum á þingi, að ýmsar raddir heyrðust um, að það yrði tæplega hjá því komizt þá þegar á því þingi að gera einhverjar ráðstafanir til eflingar sjávarútveginum og þá fyrst og fremst til þess að efla fiskveiðasjóðinn. Það varð þó að ráði og samkomulagi á milli stjórnarflokkanna að hafast ekki að á því þingi. Ég vil þó segja frá því, að atvmrn. lét undirbúa frumdrög að frv. um eflingu fiskveiðasjóðsins, sem hefði verið auðið að leggja fyrir síðasta þing, ef það hefði þótt tímabært. En úr því varð ekki af þeim ástæðum, sem ég hef greint, en hins vegar komu fram í lok síðasta þings tvær þáltill., önnur frá hv. fjvn. og hin frá hv. sjútvn., sem báðar hnigu að því að fela stj. að undirbúa löggjöf og leggja fyrir næsta þing, þ.e.a.s. það þing, sem nú er saman komið, um eflingu fiskveiðasjóðsins.

Samkv. þessum till. skipaði ég svo nefnd fjögurra þar til hæfra manna til að athuga þetta mál og gera um það tillögur til mín, sem svo yrðu eftir athugun lagðar fyrir Alþ. með þeim breytingum, sem mér mundi þykja nauðsynlegt á þeim að gera. Í þessa n. völdust, eins og ég segi, hinir hæfustu menn, skrifstofustjórarnir í atvmrn. og fjmrn., þeir Gunnlaugur Briem og Sigtryggur Klemenzson, fiskimálastjórinn Davíð Ólafsson, og framkvæmdastjóri fiskveiðasjóðsins, Elías Halldórsson. Við þessa menn ræddi ég um frumdrög slíks frv. og þær hugmyndir, sem vel gætu til greina komið, en n. hefur síðan lagt í það nokkurt verk að semja það frv., sem nú er hér lagt fram með þeim smávægilegu breytingum, sem á því hafa verið gerðar eftir mínum ráðum og ábendingum.

Þetta frv. felur í rauninni meira í sér en menn munu kannske reka augun í við fyrsta yfirlestur. Ég tel, að höfuðatriði frv. séu fjögur og þar af megi kannske segja, að í greinum sjálfs frv. sé, aðeins eitt skjalfest. Ég tel, að þessi fjögur meginatriði séu í fyrsta lagi heimild til að hækka lántökur fiskveiðasjóðs með ríkisábyrgð úr 4 milljónum upp í 50 milljónir. Í öðru lagi, að þrátt fyrir ákvæði 4. gr. frv. um tilgang sjóðsins, þar sem segir í b-lið, að tilgangurinn sé að lána til vinnslustöðva fyrir sjávarafurðir svo og annarra mannvirkja, sem bæta aðstöðu til útgerðar og hagnýtingar sjávarafla, hefur n., sem um þetta fjallaði, í samráði við mig rætt við Framkvæmdabankann um það, hvort hann sæi sér ekki fært að verulegu leyti að takast á hendur þær skyldur, sem þarna eru lagðar á herðar sjóðnum. Niðurstaðan af þeim viðræðum hefur orðið sú, að Framkvæmdabankinn hefur, án þess að geta gert um það endanlegar skuldbindingar, lýst því yfir, að hann muni, eftir því sem aðstæður hans leyfa, hafa áhuga á og vilja ljá máls á að veita lán til stærri iðjuvera og þess, sem fjárfrekast er í sambandi við vinnslu sjávarafurðanna.

Það verður að vísu að viðurkenna, að fiskveiðasjóður hefur fram að þessu lítið getað sinnt þessu sérstaka og ákaflega mikilvæga hlutverki. Meiningin var þó, að þegar hann yrði efldur, þá yrði hann að sinna því í miklu ríkari mæli en áður hefur verið. En þegar farið var að athuga um fjáröflunarmöguleika sjóðsins annars vegar og þær skyldur, sem á hans herðar yrðu lagðar varðandi eflingu og viðhald bátaflotans, hins vegar, og svo jafnframt, ef hann ætti að verulegu leyti að sinna hinum síauknu þörfum fyrir iðnaðarfyrirtæki, kom skjótlega í ljós, að fjáröflunin yrði að vera miklu róttækari en þetta frv. fer fram á og heldur en aðstæður virðast leyfa í bili, ef frv. á að verða annað en pappírsgagn. Það er auðvitað tilgangur allra, sem að því standa, að reyna að sjá um, að hér verði um framkvæmd að ræða, en ekki aðeins orð innantóm. Af þessum ástæðum, eins og ég segi, hefur nefndin, sem um þetta fjallaði með mér, rætt um þetta við Framkvæmdabankann og fengið þessi loforð, sem ég tel mikils virði og annað aðalatriði málsins.

Þriðja atriðið, sem ég tel mikilvægt, er ekki heldur í sjálfu frv., en er aðeins ábending, sem ég hef leyft mér að bera fram, og hún er um það, hvort auðið þætti, þegar þar að kemur, að láta eitthvað af þeim tekjuafgangi, sem yrði á ríkisrekstrinum 1954, renna til fiskveiðasjóðs sem óafturkræft framlag. Það skal skýrt tekið fram af minni hendi, að þó að ég hafi leyft mér að gera þessa bendingu, þá felst í því engin skuldbinding af hendi míns flokks til þess að fylgja till. um þetta, því að það er beint samkomulag innan ríkisstjórnarinnar, að hvorki einstakir ráðherrar né þingmenn stjórnarflokkanna séu á þessu stigi málsins að bera fram till. um ráðstöfun á tekjuafganginum, heldur verði honum ráðstafað í samráði við Alþingi, eftir að ríkisstj. hefur haft tækifæri til að gera um það sínar till., og málið er ekki komið á það stig enn þá.

Loks er fjórða atriðið, sem er ekki heldur skráð í sjálfu frv., en ég tel einnig þýðingarmikið og kannske ekki þýðingarminnst, nema þýðingarmest væri, og það er sú hugmynd, hvort ekki væri rétt að láta stofnlánadeild sjávarútvegsins, sem nú er í Landsbankanum, renna inn í fiskveiðasjóð með einum hætti eða öðrum. Það hefur, eins og menn vita, verið svo um þessi stofnlán, sem hófust samkv. till. nýsköpunarstjórnarinnar á árinu 1946, minnir mig, með 100 millj. kr. framlagi frá Landsbankanum, að jafnóðum og þau lán, sem þá voru veitt til eflingar útveginum, hafa verið greidd, afborganir og vextir, hefur bankinn dregið inn það fé, þannig að af þeim 100 millj., sem í öndverðu voru lánaðar út, standa nú eftir aðeins 70 millj., og bankinn mun hafa í hyggju, ef Alþingi gerir ekki um það sérstök fyrirmæli, að halda áfram að draga inn þessi lán. Hins vegar stendur eftir sem áður þörfin fyrir endurnýjun þess flota, sem byggður var fyrir þessi lán í öndverðu. Það er náttúrlega engin fyrirhyggja af löggjafanum að láta það til langframa viðgangast, .að lánin séu felld inn í annan rekstur landsmanna, því að skipin eldast og rýrna í verði, og augljóst er, að endurnýja verður flotann. Endurnýjunarþörfin talar kannske lægri rómi nú í bili, en þá því hærri seinna, vegna þess að skipin voru öll byggð nokkurn veginn samtímis eða á mjög stuttu árabili. Það er það, sem hv. Alþingi verður að hafa hugfast, að hinn íslenzki nýi floti er allur byggður á örfáum árum. Hann verður þess vegna allur úreitur á örfáum árum, og endurnýjunarþörfin er þess vegna annars eðlis varðandi þennan flota, togaraflotann, nýsköpunarflotann, heldur en mætti segja, að eðli málsins samkv. ætti að vera um fiskiskipaflota þjóðar, sem að svo verulegu leyti lifir á fiskveiðum. Hið venjulega er, að árlega séu byggð nokkurn veginn jafnmörg skip og þá verða ónothæf, svo og svo mörg á hverju ári. Það óvenjulega er, að allur togaraflotinn okkar er byggður á örfáum árum og verður þess vegna allur úreltur á örfáum árum. Það er þetta, sem verður að hafa hugfast, þegar Alþingi fer að fjalla um þetta mál.

Ég hef þess vegna leyft mér að gera þessa ábendingu til hv. nefndar. Ég hafði ekki séð ástæðu til að ræða þetta mál við stjórn Landsbankans enn þá, líka af því, að ég vildi nú sjá, hvernig tækist um þær fjáraflanir, sem nú er um að ræða til bátaútvegsins, áður en sókn væri hafin í þessu máli. Ég verð einnig að viðurkenna, að hér er um tvö mál að ræða, þótt skyld séu.

Ég endurtek þess vegna, að ég tel, að höfuðatriði þessa frv. séu í rauninni fjögur, þar sem aðeins eitt er skráð í sjálft frv., þ.e.a.s. hin stóraukna lántökuheimild, en hin þrjú liggja falin í þeim ábendingum, sem nefndin, sem hefur samið frv., og ráðuneytið hafa gefið í sambandi við flutning málsins og grg.

Ég geri ráð fyrir, að allir hv. þdm. muni viðurkenna, að sjávarútvegurinn á þær síðferðislegu kröfur á hendur Alþingi, sem felast í þessu frv., og þó að meira væri. Það er nauðalítið, sem hið opinbera hefur gert til að efla þennan meginatvinnurekstur landsmanna. Ég skal aðeins til fróðleiks minna á það, að fiskveiðasjóðurinn er stofnaður með lögum nr. 52 1905 og hann er settur á laggirnar 1906. Ríkissjóður lagði þá fram 100 þús. kr. Auk þess var árlegt framlag ríkissjóðs, sem var greitt allt til ársins 1931, 6 þús. kr. á ári, eða alls 150 þús. kr. Þá var ríkissjóði með lögum frá 1930 gert að greiða fiskveiðasjóðnum 1 millj. kr., og sú greiðsla var innt af hendi á árunum 1939–41. Loks hefur sjóðurinn fengið af sektarfé fyrir landhelgisbrot á árunum 1907–39 alls 137 þús. kr.

Ríkissjóður hefur þannig lagt fiskveiðasjóði af þeim 76 millj., sem fiskveiðasjóður nú á, aðeins 1288 þús. kr., og er þar með talið það sektarfé, sem ég áðan gat um. Allt fé fiskveiðasjóðs hafa að öðru leyti sjávarútvegsmenn sjálfir greitt með útflutningsgjöldum af afurðum sínum. Það er þess vegna sízt ofmælt, þó að staðhæft sé, að ríkið hefur ekki verið stórtækt í þessum efnum. Það hefur verið mikið sinnuleysi um það að leggja eitthvert fé af mörkum frá því opinbera þessum þýðingarmikla atvinnuvegi til framdráttar, og er fyllilega tími til kominn, að einhver tilraun sé gerð til þess að bæta úr því. Í sjálfri grg. er sýnt fram á, hversu rík þörf sjóðsins er fyrir aukið lánsfé, — rík og vaxandi.

Í áætlunum um tekjuöflun sjóðsins og hugleiðingum um það, hvernig tekjurnar fái risið undir útgjaldaþörfinni, er ekki tekið tillit til annars en þess, sem Fiskifélag Íslands hefur talið að mundi nægja sem eðlilegt viðhald á bátaflotanum með einhverri smávægilegri aukningu. En það er langt frá því, að tekjurnar séu miðaðar við þá þörf, sem er fyrir hendi í dag vegna síaukinnar eftirspurnar ettir lánum og vaxandi óska landsmanna eftir að kaupa báta í trausti þess, að þeir fái nú betur risið undir kostnaði við reksturinn vegna aukinnar friðunar á fiskimiðunum. En þó að miðað sé við aðeins þessa lágmarksþörf, þá er samt, eins og skýrslur á bls. 5 í grg. bera með sér, nauðsynlegt, að fiskveiðasjóður fái annaðhvort sem lán eða sem óafturkræft framlag eða hvort tveggja rúmar 50 millj. á næstu fimm árum. En fái hann það fé, þá er einnig hægt að auka útlán sjóðsins úr 60 millj., sem þau voru 30. sept. s.l., upp í 181 millj. í árslok 1959. M.ö.o., á fimm árum ætti að vera hægt að auka útlánin um 121 millj., þ.e.a.s. þrefalda þau frá því, sem þau voru 30. sept. Ég veit, að menn hafa veitt því athygli, að í þessum útreikningum er ekki gert ráð fyrir, að sjóðurinn láni neitt verulega til iðnfyrirtækja útvegsins. Hins vegar er gert ráð fyrir, að endurnýjun bátaflotans muni kosta 17 millj. á ári og að til vélakaupa eða nýrra véla þurfi auk þess 7 millj., en til verbúða og fiskhúsa muni þurfa 4 millj. Þetta er með hliðsjón af því, sem ég áður gat um, að vonir standa til, að hægt verði að leggja vissan hluta þeirra skyldna, sem samkv. beinum ákvæðum frv. ættu að hvíla á fiskveiðasjóði, á herðar Framkvæmdabankanum.

Mér þykir rétt að vekja athygli hv. n. á því, að í útreikningunum, sem ég gat um á bls. 5, eru útgjaldamegin ekki tilgreindir neinir vextir af væntanlegu lánsfé. Það er gert af ásettu ráði. Mönnum er ekki ljóst, hvað lánsféð þarf að vera mikið; það fer að sjálfsögðu eftir því, hvað framlagið af hendi hins opinbera gæti orðið mikið, bæði af tekjuafgangi í ár og eftir öðrum leiðum. Auk þess er það svo, eins og menn munu hafa tekið eftir, að tekjurnar af útflutningsgjaldinu eru áætlaðar 7 millj. öll árin, hvert árið um sig, en það er auðvitað ástæða til að halda, að þær fari hækkandi, og eru kannske líka varlega áætlaðar, miðað við árið í ár. Það hefur þess vegna ekki þótt ástæða til að taka upp gjaldamegin á þessu stigi málsins vextina, sem skera ekki heldur úr um afkomuhorfurnar, þegar þetta tvennt er athugað.

Að öðru leyti vil ég aðeins minna á þær aðalbreytingar, sem eru að forminu til í frv., fyrir utan lántökuheimildina. Ákveðið er að auka hámark lána út á hvern bát úr 750 þús. upp í 1250 þús. og enn fremur, að nú megi lána út á 200 smálesta skip, en áður var hámarkið 150 smálestir. Jafnframt er ákveðið, að hækka megi lán út á fasteignir úr 500 þús. í 600 þús. Þá er enn fremur gert ráð fyrir, að lánað verði meira út á þau skip, sem byggð eru innanlands, þ.e.a.s. út á þau megi lána 3/4 hluta kostnaðarverðs, en ekki nema 2/3 hluta kostnaðarverðs út á þau skip, sem keypt eru erlendis frá. Þetta er gert í því skyni að reyna að ýta undir það, að menn byggi að öðru jöfnu fremur innanlands en utanlands. Það er gert til þess að bæta aðstöðu íslenzku byggingarstöðvanna í samkeppni við hinar erlendu. Það hefur komið fram beinn vilji hér á Alþingi, m.a. í annarri þeirri þáltill., sem ég gat um í öndverðu máli mínu, fyrir því, að slíkar tilraunir séu gerðar, og þær eru líka alveg réttmætar. Það er ekki aðeins tillitið til sjálfra þeirra manna, sem eiga þessar stöðvar, eða þeirra, sem þar hafa sína atvinnu, — þetta er auðvitað þýðingarmikill liður í íslenzkum iðnaði, — það er einnig og engu síður hagsmunamál sjálfs útvegsins, að byggingarstöðvarnar hafi nóg við að fást. Íslenzkur útvegur getur ekki komizt af án þess, að hér á landi séu viðgerðarstöðvar, hvað sem líður byggingarstöðvum, en þessar viðgerðarstöðvar geta ekki þrifizt, ef þær hafa ekki möguleika til að byggja báta, samtímis því sem þær stunda viðgerðirnar. Viðgerðirnar yrðu óhóflega dýrar, ef rekstur þessara stöðva ætti eingöngu að byggjast á viðgerðunum og ekki að neinu leyti á þeirri stöðugu vinnu, sem þeir, sem þarna hafa atvinnu, gætu haft við byggingu skipa, a.m.k. þá sem ígripavinnu, eða þá viðgerðirnar sem ígripavinnu eftir því hvernig menn vilja orða það. En það gefur auga leið um það, að ekki er hægt að reka byggingarstöð eða slíka viðgerðarstöð eingöngu byggða á því, að í dag — skulum við segja — strandar bátur, sem þarf að gera við, eða er settur upp annar bátur, sem þarfnast viðgerðar. Svo líða kannske mánuðir án þess, að nokkuð slíkt komi fyrir, og hvað á þá að gera við þá menn, sem þarna hafa haft atvinnu? Ef eigandi stöðvarinnar á að greiða þeim kaup, án þess að þeir hafist að, þá verður auðvitað útvegurinn að borga allan kostnað, og með því verða óhóflega dýrar allar viðgerðir. Þetta er þess vegna sameiginlegt hagsmunamál iðnaðarins og útvegsins og sjálfsagt að efla möguleika hinna íslenzku stöðva eins og auðið er til þess að stunda bátabyggingar.

Mér þykir einnig rétt að segja frá því, að samkv. gildandi lögum munu vextir af lánum, bæði til bátabygginga og til iðnfyrirtækja, hafa verið 4%. Í þessu frv. er ætlazt til, að vextir af bátalánunum verði 4%, en til iðnfyrirtækjanna 6%, og það er ekki óeðlilegt að gera nokkurn mun á þessu. Iðnfyrirtækin standa betur að vígi, a.m.k. elns og sakir standa, og þegar innlánsvextir í landinu eru orðnir upp undir 7%, þá er ekki óeðlilegt, að þessi fyrirtæki borgi 6% og hærra en bátarnir gera. Jafnframt þykir mér rétt að skýra frá því, að samkv. gildandi lögum var ekki ætlazt til, að lánað væri meira en 50% eða helmingur af stofnkostnaði bátanna, að viðbættri heimild til að lána vaxtalaust 25% í viðbót. Þessi vaxtalausu lán hafa verið eins og heiðursgjafir til einstakra fárra manna, sem þeirra hafa notið, og það er náttúrlega alveg ástæðulaust að halda við því ákvæði og miklu meira réttlæti, að eitt gangi þar yfir alla, og að hækka þá heldur þann hundraðshluta, sem lánað er út á hvern bát, eins og hér er gert, þar sem úr 50% er fært almenna ákvæðið upp í 66% annars vegar og 75% hins vegar.

Ég held svo ekki, að í þessu frv. séu nein ákvæði, sem ég þykist þurfa að gera frekari grein fyrir, þegar ég get vísað til hinnar ágætu og greinagóðu grg., sem hv. nefnd kunnáttumanna, sem um þetta fjallaði, hefur látið fylgja frumvarpinu.

Ég vil aðeins að lokum segja, að ég þykist viss um, að þetta frv. verður samþ. í einu formi eða öðru. Ég tek þakksamlega þeim bendingum, sem fram koma um allar frekari úrbætur í þessum efnum og auðið þykir að standa undir. Ég vil taka það fram og leggja á það áherzlu, að það nægir hins vegar ekki að samþ. þetta frv.

Aðalatriðið er, að ákvæði þess komist í framkvæmd. En ef þau komast í framkvæmd, þá er óhætt að staðhæfa, að allveruleg bót er ráðin á mikilli og brýnni þörf bátaútvegsins. Ég segi það einnig og legg áherzlu á, að bátaútvegurinn á siðferðislega kröfu á þeim skilningi af hendi Alþingis, sem frv. lýsir. Alþingi ber í orði og verki að efla aðstöðu bátaútvegsins, bæta úr hinni brýnu lánsþörf, sem lengi hefur þjakað þennan atvinnurekstur. Verði það gert, mun hver eyrir, sem þar er lagður fram, áreiðanlega skila krónu aftur.

Ég skal svo ekki um þetta hafa fleiri orð. Ég veit, að það mun mæta góðum skilningi hér í hv. deild. Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.