31.03.1955
Neðri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

78. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Ég fæ ekki skilið gagnrýni hv. 5. landsk. (EmJ) í sambandi við lánveitingar, sem sjóðurinn á að hafa heimild til að láta í té samkv. 4. gr., að þar sé ekki um töluverða rýmkun á starfssviði sjóðsins að ræða. Hann vildi draga í efa, að verksvið fiskveiðasjóðs yrði meira og viðtækara, ef frv. það til l., sem hér liggur fyrir um fiskveiðasjóð, verður lögfest. Þetta er ekki rétt, því að í b-lið 4. gr. stendur, að fiskveiðasjóður eigi að lána til vinnslustöðva fyrir sjávarafurðir svo og annarra mannvirkja, sem bæta aðstöðu til útgerðar og hagnýtingar sjávarafla. Ég sé ekki annað en að með þessu ákvæði megi fiskveiðasjóður lána til þeirra framkvæmda, sem hefur verið óskað eftir á undanförnum þingum og um hafa verið lagðar fram breytingar á l. um fiskveiðasjóð, bæði í sambandi við verbúðir og fiskhús og aðrar framkvæmdir í sambandi við sjávarútveginn. Í öðru lagi er ekki nema eðillegt, að létt sé á fiskveiðasjóði, þar sem önnur stofnun er nú fyrir hendi, sem á að gegna því hlutverki að lána til fiskvinnslustöðva og annarra slíkra framkvæmda, en stofnun þessi er Framkvæmdabankinn. Ég tel það mjög vel farið, að Framkvæmdabankinn skuli þegar hafa veitt loforð um nokkur lán til fiskvinnslustöðva og heitir aðstoð í því efni í framtíðinni, eftir því sem ástæður leyfa. Ég held því, að með þessu frv., ef að l. verður, megi sjávarútvegurinn vænta meiri hjálpar í sambandi við ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir, sem hann þarf með.

Þá vildi hv. ræðumaður draga í efa, að með þessu frv. væri gengið lengra, heldur skemmra en í l. frá 1943 í sambandi við lánveitingar til skipa, annars vegar þeirra, sem smíðuð eru innanlands, og aftur skipa, sem eru keypt erlendis frá. Í frv. er ákveðið, að skip, sem smíðuð eru innanlands, eiga að fá 75% af kostnaðar- eða virðingarverði, en skip, sem eru keypt erlendis frá, aðeins 67%, svo að hér er um töluverðan mismun að ræða og ætti að veita innlendu skipasmíðastöðvunum nokkra hjálp í samkeppni við erlendar skipasmiðastöðvar.

Hv. þm. gat þess réttilega, að í löggjöfinni, sem nú er í gildi, er kveðið á um, að af 75% láni megi veita 25% úr lána- og styrktarsjóði, sem fiskveiðasjóður hefur undir höndum, og þar er um lán að ræða, sem er vaxtalaust í 10 ár og afborgunarlaust í 5 ár. Ég viðurkenni, að þetta er ákaflega mikill styrkur fyrir útgerðina. En ég bjóst við, að hv. þm. væri um það kunnugt, að erlend skip, sem hafa verið keypt til landsins, hafa notið alveg sömu hlunninda, þannig að í framkvæmdinni hafa hin erlendu skip, sem hingað hafa verið keypt, fengið nákvæmlega sömu lánsmöguleika og þau innlendu, eða í báðum tilfellum 75%. Hér er því um töluverða bót að ræða fyrir inniendar skipasmíðastöðvar, þar sem eigendur skipa, sem byggð eru erlendis, sitja við óhagstæðari kjör um lán úr sjóðnum en skip, sem smíðuð eru hérlendis.

Hv. þm. ræddi einnig um, að það væri lítið gert ráð fyrir því í frv., hvernig ætti að útvega það fé, sem nauðsynlegt er, til þess að fiskveiðasjóður geti aðstaðið við þær lánveitingar, sem mþn. bendir á að séu nauðsynlegar á næstu 5 árum. Eins og ég hef áður getið um, hefur ríkissjóður þegar lagt fram 8 millj. kr. af tekjuafgangi ársins 1954. Auk þess ræðir hæstv. sjútvmrh. um það í aths. með frv., að mjög komi til álita, hvort ekki sé rétt að festa það fé, sem er í stofnlánadeild sjávarútvegsins og mun nema um 70–80 millj. kr., sem áframhaldandi stofnfé eða rekstrarfé fyrir sjávarútveginn. Ég treysti því, að á þessu þingi verði borin fram till. til þál. eða áskorun til ríkisstj. um að vinna að því, að þetta megi takast.

Í öðru lagi er ákveðið í frv., í 3. gr. þess, að heimila ríkissjóði að ábyrgjast lán fyrir sjóðinn, allt að 50 millj. kr., sem fiskveiðasjóði er leyft að taka, þegar sjútvmrh. telur þörf fyrir það. Ég er þeirrar skoðunar, að ef við á annað borð getum fengið lán erlendis frá alþjóðabankanum eða öðrum hliðstæðum stofnunum, þá höfum við fyrst og fremst ástæðu til að treysta því, að það sé þó auðveldast að ná lánum, sem eiga að notast í sambandi við nauðsynlega framleiðslu aðalatvinnuvega þjóðarinnar. Ég treysti því, að þessi upphæð eða hluti af henni fáist til handa fiskveiðasjóði á þessu ári. Ég hef fulla ástæðu til að vænta þess, að hæstv. ríkisstj. takist að ná nauðsynlegu láni, þannig að fiskveiðasjóður geti innt af hendi það hlutverk, sem honum er ætlað með frv. því, sem hér er til umræðu, ef það verður lögfest.

Ég held, að ég hafi svarað þeim fyrirspurnum, sem hv. þm. beindi til mín, eftir því sem ég veit bezt og réttast.