03.05.1955
Neðri deild: 83. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

78. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta þess getið hér, að forstjóri fiskveiðasjóðs hefur sent n. till. til breytinga, sem engar hafa verið teknar til greina, og eins sé ég, að n. hefur orðið sammála um að flytja till. um að lækka vexti af öðrum lánum en til fiskiskipa um 1/2% — niður í 51/2 %. Það hefur greinilega komið fram hvað eftir annað hér, að fé sjóðsins er mjög lítið og allt of takmarkað eins og er. Það var gerð grein fyrir því af frsm. n., að n. hefði viljað fá miklu hærra árlegt ríkisframlag en hún leggur þó til, en ekki treyst sér til að fara hærra. En till. hníga nú allar samt sem áður, bæði að hætta að taka forvexti af lánum, eins og verið hefur, og eins að lækka vextina, heldur að því að draga úr getu sjóðsins. Ég hef látíð þetta liggja á milli hluta þannig, að ég hef ekki viljað taka upp þessar brtt., sem lagðar voru fram af forstjóra sjóðsins. Og um þetta atriði vildi ég ekki segja annað en að láta þess getið, að þetta er held ég að vissu leyti nokkuð vafasamt, því að mín skoðun er sú, að þeir, sem sækja eftir lánum úr fiskveiðasjóði til annarra hluta en til fiskiskipa, mundu ekki setja það fyrir sig að greiða 1/2% hærra, ef meira lánsfé væri á milli handa, og miðað við aðrar ráðstafanir, sem hér hafa verið gerðar í vaxtamálum á þinginu, kemur mér slík brtt. eins og þessi alveg á óvart.