06.05.1955
Efri deild: 83. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

78. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og hefur verið þar lengi til meðferðar, eins og kunnugt er, en hér aðeins stutta stund.

Eftir beiðni hæstv. forseta var undinn bráður bugur að því að athuga þetta frv. hér eins og það kom frá hv. Nd. og bera það saman við hið upphaflega stjfrv.

Ég vil strax taka það fram, að í nál. á þskj. 765 hefur slæðzt inn orð, sem ekki átti þar að vera, en þó skiptir allmiklu máli. Þar stendur: „Veigamiklar breytingar hafa eigi verið gerðar í Nd. á stjfrv.“ — en á að standa: „Veigamiklar breytingar hafa verið gerðar í Nd. á stjfrv.“ Ég hef lagt drög fyrir, að nál. verði endurprentað og útbýtt á sínum tíma hér í hv. d. — Ég vildi taka þetta fram til að forða misskilningi.

En þær veigamiklu breytingar, sem átt er við, eru það, að í hv. Nd. var sett inn í 2. gr. frv., að sjóðurinn fengi sem framlag frá ríkissjóði 2 millj. kr. á ári, í fyrsta sinn á árinu 1956, og er þetta framlag ótímabundið, sem er allmikil breyting frá því, sem stjfrv. var, eða eiginlega nýmæli. Svo var og vaxtakjörunum dálítið breytt, sem einnig er þýðingarmikil breyting til hagsbóta fyrir lántakendur.

Að öðru leyti er frv., eins og það kom hingað, mjög líkt stjfrv., og má segja, að með þessu frv. er gert stórfellt átak til þess að bæta úr hvað lánveitingar snertir frá Fiskveiðasjóði Íslands frá því, sem verið hefur.

Fiskveiðasjóðurinn er, eins og vitað er, hingað til byggður upp svo að segja af útgerðinni sjálfri eða þeim, sem lánveitinganna njóta og framleiða útflutningsvöruna við sjóinn. Nú hefur aftur á móti verið gerð sú breyting, að í viðbót við þær gömlu tekjulindir, sem fljóta til fiskveiðasjóðsins, koma þessar 2 millj. kr. á ári, sem ég minntist á, og enn fremur er stórfelld lántökuheimild með ríkissjóðsábyrgð, allt að 50 millj. kr., komin inn í þetta frv., og var upphaflega til ætlazt, að það væri svo. Er því ekki að leyna, að þýðing málsins í heild sinni fyrir atvinnuveginn er mjög undir því komin, að hæstv. ríkisstj., sem að málinu hefur unnið, takist sú framhaldsvinna að útvega þessar 50 millj. kr. til sjóðsins á næstu árum. Það ætlast enginn til, geri ég ráð fyrir, að þær fáist allar í einn, en eins og hæstv. ríkisstj. hefur unnið að þessu máli hingað til, er fyllsta von til að ætla, að henni muni takast sá ásetningur að uppfylla þarfir sjóðsins að þessu leyti, eins og frv. gefur fyrirheit um, enda er sjóðnum mjög mikil þörf á auknu fé til þess að lána út. Um áramótin lágu fyrir lánsbeiðnir um 33 millj. kr. umfram það, sem þá var hægt að sinna, og sýnir það, hve þörfin er geysimikil, enda er það ekki að undra, eins og skipakostur landsmanna hefur verið aukinn núna í seinni tíð og líka uppbygging alls konar fiskvinnslustöðva og fiskiðjuvera, sem styðjast við útveginn.

Það er vitanlegt, að hæstv. ríkisstj. hefur til meðferðar að útvega sjóðnum þetta lán, sem fyrirheit er getið um í frv., og er, eins og ég sagði áður, vonandi, að vel takist, enda ríður svo að segja einna mest á því. Það er heldur ekki nein neyð fyrir fiskveiðasjóð að taka lán að einhverju leyti með hærri vöxtum heldur en hann lánar út fyrir, þegar hann hefur þá árlegu fjárveitingu fram undan, sem ég minntist á áðan, 2 millj. kr., og getur með því jafnað vaxtamismun, ef til kæmi.

Nú hefur það og borið til, eins og kom í ljós, þegar rætt var um það frv., sem hér var á undan, — þó að það komi ekki þessu frv. við, sem hér liggur fyrir, þá kemur það fiskveiðasjóði við, — að af tekjuafgangi ríkissjóðs fyrir árið 1954 er ætlazt til, að fiskveiðasjóður fái 8 millj. kr. af óafturkræfu fé, og er það óneitanlega stór stoð í starfi sjóðsins.

Það höfðu borizt til n. í hv. Ed. nokkrar brtt. frá fiskveiðasjóðsstjórninni, sem n. í Nd. vildi ekki sinna. Þær brtt. lágu líka frammi á nefndarfundi í þessari hv. d., en með því að svo áliðið er þings sem raun ber vitni um og þó að einhverju af þeim brtt. hefði mátt sinna, þá voru þær að okkar dómi ekki svo þýðingarmiklar, að við tækjum þær upp, því að með því móti hefði aðalmálinu vel getað verið stefnt í hættu eða það hefði þá tafizt afgreiðsla þess ef til vill, ef breytingar í þessari d. yrðu samþykktar.

brtt., sem kannske var þar veigamest, var sú, að sjóðurinn vildi halda áfram þeirri reglu að reikna vexti fyrir fram af lánum sínum, en hv. Nd. hafði snúizt á móti því ákvæði frv., og n. þessarar hv. d. sá ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að blanda sér inn í það mál og leggur því til, að frv. sé samþ. óbreytt. Með því er stigið svo þýðingarmikið og stórt spor undir forustu núverandi hæstv. ríkisstj. til að bæta úr lánsþörf sjávarútvegsins, að það má ekki fyrir smámuni eina hefta för þess á nokkurn hátt.