05.05.1955
Neðri deild: 84. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

199. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það hefur verið föst venja nú undanfarin ár að greiða sömu vísitöluuppbót á laun opinberra starfsmanna og greidd er almennt á laun samkvæmt kjarasamningum. Síðast voru sett ákvæði um þetta efni eftir kjarasamninga þá, er gerðir voru í desember 1952, og þá í lög sett, að haga skyldi vísitöluuppbót til opinberra starfsmanna á sama hátt og til annarra. Við þá kjarasamninga, sem gerðir voru nú fyrir skemmstu, hefur vísitölureglunum verið breytt þannig, að sú skerðing, sem var á vísitöluuppbótinni, var felld niður.

Samtök opinberra starfsmanna hafa farið fram á það við ríkisstj., að hún beitti sér fyrir því, að tekin yrði upp sama regla um greiðslu vísitöluuppbótar til opinberra starfsmanna og ofan á varð við samningana, og vísar í því sambandi til þess, að svo hafi ætíð verið undanfarið.

Ríkisstj. hefur tekið þessa málaleitun frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja til íhugunar, og hefur orðið ofan á að gera þá till. um þetta mál, sem felst í frv., sem nú er til 1. umr. Þar er gert ráð fyrir að breyta vísitöluuppbótinni frá 1. júlí. Þykir ekki ástæða til þess að gera það fyrr, þó að það hafi áður verið venja að breyta vísítöluuppbót til opinberra starfsmanna strax til samræmis við aðrar uppbætur.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að full vísitöluuppbót verði greidd á þau laun opinberra starfsmanna, sem svara til launa í VII. launaflokki, þ.e.a.s., það eru þau laun, sem eru sem allra næst því hæsta kaupgjaldi, sem um var samið í kjarasamningunum. Á hinn bóginn skuli borga 23% á það, sem fram yfir er. Þess skal þó getið um leið, að þó að stjórnin leggi ekki til núna, að vísitöluskerðingin sé afnumin að fullu, eins og gert var í kjarasamningunum, þá mun stj. gera það að sinni till. í því launalagafrv., sem lagt verður fyrir í haust, að vísitöluuppbætur verði greiddar eftir alveg sömu reglum til opinberra starfsmanna og annarra, sem sé, að skerðingin verði þá afnumin að fullu. M.ö.o., ríkisstj. hefur hugsað sér að verða í haust við kröfu BSRB um vísitöluuppbótarmálið, en í þetta sinn er till. um nokkra skerðingu, sem ég hef nú gert grein fyrir.

Þá er þess að geta, að vísitöluskerðingin náði ekki til þeirra lægst launuðu. Ef ekkert annað væri gert nú en það eitt að afnema vísitöluskerðinguna, mundu laun þeirra lægst launuðu ekkert breytast fyrr en nýju launalögin koma. Nú hafa samtök opinberra starfsmanna ekki farið fram á það, að grunnlaun opinberra starfsmanna yrðu hækkuð, þar sem þeim er ljóst, að ný launalög eru í undirbúningi. En við athugun á þessu máli öllu þótti sanngjarnt að setja inn í þetta frv. ákvæði um, að uppbót til opinberra starfsmanna samkvæmt þessum lögum skuli aldrei vera minna en 5% af launum. Þetta þýðir, að ef skerðingin, sem verður afnumin með þessu frv., nemur ekki 5%, þá verði fyllt upp, þannig að hlutaðeigandi fái 5% hækkun á launum sínum frá 1. júlí. Þetta er gert með tilliti til þeirra lægst launuðu og með tilliti til þess, að launalagabreytingar munu ekki eiga sér stað fyrr en um áramót. Hér er því um nokkra fyrir fram lagfæringu að ræða hjá þeim lægst launuðu. — Ég hygg, að þetta ætti að duga til þess að skýra málið til viðbótar því, sem segir í grg.

Ég vil leyfa mér að óska þess, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umr. Ég fer fram á það við hv. fjhn., að hún taki þetta mál fyrir annaðhvort í dag eða þá í fyrramálið, þannig að það gæti orðið til 2. umr. á morgun. Eins og menn vita, þá eru þingslit áætluð á miðvikudag, en mál þetta þarf að fá afgreiðslu, og þess vegna þyrfti helzt að vera hægt að afgreiða það hér frá þessari hv. d. á morgun, og það finnst mér satt að segja að ætti að geta tekizt. Málið er í sjálfu sér afar einfalt og menn vafalaust fljótir að átta sig á því, hvort þeir vilja á þetta fallast eða leggja annað til.