19.10.1954
Neðri deild: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

37. mál, framfærslulög

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv. þetta er um breytingu á framfærslulögunum og er flutt af mér ásamt fimm öðrum hv. dm.

Þess eru allmörg dæmi, að menn vanrækja framfærsluskyldu sína gagnvart maka, börnum og foreldrum vegna óreglu og hirðuleysis um meðferð fjármuna. Oftast nær stafar þetta af drykkjuskaparóreglu, þó að önnur atriði eða ástæður geti þar einnig legið til. Þegar svo ber við, að menn, sem hafa sæmilega eða lífvænlega atvinnu, vanrækja þannig skyldur sínar, þá eru að sjálfsögðu ýmsir möguleikar fyrir fjölskyldumeðlimina, sem fyrir þessu verða, til að afla sér framfæris á annan veg, og þá auðvitað fyrst og fremst með því að leita til sveitarstjórna eða framfærslunefnda. Eiginkonan t.d. í þessum tilfellum getur snúið sér til sveitarstjórnanna og fengið framfærslustyrk. Ef framfærslustyrkur hefur þannig verið veittur, þá hefur sveitarstjórnin heimild til þess samkv. 44. gr. framfærslulaganna að afla sér úrskurðar valdsmanns um, að vinnuveitandi styrkþega skuli greiða henni kaup hans, ef hann vanrækir að framfæra með því þá, sem hann hefur á framfæri sínu. En þetta ákvæði framfærslulaganna á því aðeins við, að þegar hafi verið leitað til framfærslunefndar eða sveitarstjórnar og styrkur verið veittur, m.ö.o., að maðurinn sé orðinn styrkþegi.

Uppi hafa verið óskir um það, sem m.a. komu fram á síðasta landsþingi Kvenfélagasambands Íslands, að þeir heimilis- eða fjölskyldumeðlimir, sem verða fyrir slíkri vanrækslu heimilisföður, eigi að geta fengið útborgaðan í slíkum tilfellum frá vinnuveitanda nokkurn hluta af launum mannsins án þess að þurfa fyrst að segja sig til sveitar og fá úrskurð framfærsluyfirvalda um veitingu sveitarstyrks eða framfærslustyrks.

Þessi mál eru ákaflega viðkvæm oft og tíðum, og reynslan hefur sýnt, að mörgum eiginkonum, sem fyrir þessu verða, þykir mjög sárt að þurfa að snúa sér til sveitarstjórnanna og biðja um framfærslustyrk fyrir sig og heimilið.

Það er af þessum ástæðum, sem ég nú hef rakið, að þetta mál var tekið upp á 10. landsþingi Kvenfélagasambands Íslands, sem haldið var í september s.l. Þingið samþ. að kjósa mþn., sem geri athugun á því, á hvern hátt helzt megi koma til hjálpar heimilum, sem svo stendur á um, að heimilisfaðirinn hefur að meira eða minna leyti brugðizt framfærsluskyldu sinni, t.d. vegna drykkjuskapar. Kemur þá m.a. til álita, hvort ekki sé unnt að fá því til vegar komið, að lögtekið verði ákvæði þess efnis, að atvinnurekendum sé heimilt eða eftir atvíkum skylt að halda eftir ákveðnum hluta af kaupi slíkra manna vegna heimila þeirra. Þessi till. var samþykkt og n. þriggja kvenna kosin til að undirbúa málið. Frv., samhljóða því, sem hér er flutt, var svo samið að tilhlutan þessarar nefndar. Fulltrúar Bandalags kvenna í Reykjavík hafa rætt frv. og fallizt á það. Hinir 6 flm. hafa svo orðið ásáttir um að flytja málið hér inn í þingið.

Aðalefni þess er sem sagt þetta, að ef maður með óreglu og hirðuleysi um meðferð fjármuna veldur hættu á því, að þeir, sem honum er skylt að framfæra, verði að leita aðstoðar um framfærslu eða líði nauð, þá skuli sveitarstjórn eða lögreglustjóri, sem til er leitað, leggja fyrir vinnuveitanda að halda eftir tilteknum hluta af kaupi. Gangur málsins yrði þá sá, að eiginkonan, í flestum tilfellum, eða aðrir þeir aðilar, sem þannig eru vanræktir, — það geta einnig verið börn eða foreldrar, sem maðurinn vanrækir framfærsluskyldu sína gagnvart, — geta þá snúið sér til annars hvors þessara aðila, sveitarstjórnar eða lögreglustjóra, ef heldur er kosið, og fengið þar úrskurð um það, að vinnuveitandinn skuli halda eftir hluta af kaupinu. Svo er ætlazt til, að þessi aðili, sveitarstjórn eða lögreglustjóri, ákveði, hver skuli taka við kaupinu. Mundi það að sjálfsögðu í flestum tilfellum vera eiginkonan, en ef sérstakar ástæður mæltu með því, að annar tæki við kaupinu, sem auðvitað á að renna til framfærslu heimilisins, þá er heimilt að ákveða það.

Það er hér gert ráð fyrir, að halda megi eftir allt að 3/4 hlutum kaupsins, þó að frádregnum opinberum gjöldum.

Ég vænti þess, að hv. dm. fallist á, að hér sé um mannúðarmál að ræða og réttarbót fyrir þau heimili, sem fyrir slíku óláni verða. Það er með þessu gerð nokkur tilraun til að rétta hlut þeirra heimila, sem helzt eiga um sárt að binda vegna vanrækslu heimilisföður á skyldum sínum við þau.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn., og vænti þess, að málíð fái góða afgreiðslu og góðan byr gegnum þingið.