22.11.1954
Neðri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

104. mál, eyðing refa og minka

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. er að breyta 8. gr. l. frá 1949 um eyðingu refa og minka á þá leið, að verðlaun fyrir að vinna hlaupadýr verði hækkuð upp í 300 kr. og sömuleiðis verði verðlaun fyrir að vinna minka hækkuð upp í 150 kr.

Það mun nú fyrir nokkru vera orðin nokkuð almenn skoðun víða í sveitum, að þær upphæðir, sem greiða ber samkv. lögum fyrir að vinna hlaupadýr, séu orðnar óeðlilega lágar. Það eru að því leyti breyttir tímar frá því, sem var um skeið, að refaskinn eru orðin mjög verðlítil, þannig að þeir, sem skjóta refi, munu hafa lítið upp úr því annað en þau verðlaun, sem veitt eru fyrir að vinna dýrin. Hins vegar er það kunnara en frá þurfi að segja, að það er mikil nauðsyn og hefur verið að útrýma refum hér á landi, og eru til þess gerðar skipulagðar ráðstafanir af hálfu hins opinbera, svo sem kunnugt er.

Grenjavinnslukostnaður er nú orðinn mjög hár, og í ályktun búnaðarþings, sem prentuð er sem fskj. með þessu frv., er áætlað, að hann sé nú 700–800 kr. á hvert unnið dýr.

Á Alþ. 1951 var borið fram frv., þar sem farið var fram á nokkra hækkun á þeim upphæðum, sem greiddar eru fyrir að vinna dýr. Hv. landbn. þessarar d. bar það frv. fram. Ég ætla, að það hafi þá verið samþ. í þessari hv. d., en dagað uppi í hv. Ed. Síðan hefur það gerzt í þessu máli, að það hefur verið til meðferðar á búnaðarþingi nú á öndverðu þessu ári, og búnaðarþing gerði ályktun í málinu þess efnis að skora á Alþ. að breyta l. í þá átt að hækka verðlaun fyrir hlaupadýr og þá jafnframt fyrir minka.

Við flm. höfum í þessu frv. haldið okkur við þá till., sem búnaðarþing gerði, að því er varðar upphæð verðlauna.

Ég vil leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.