03.03.1955
Efri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

104. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Andrés Eyjólfsson):

Herra forseti. Frv. það um breyt. á l. um eyðingu refa og minka, sem nú er til umr., er komið frá hv. Nd. Í þeirri mynd, sem það er nú, fjallar það eingöngu um að hækka verðlaun þau, sem veitt eru samkv. núgildandi l. fyrir unnin hlaupadýr, refi og minka, úr 60 kr. á dýr í 180 kr. fyrir refi og 90 kr. fyrir minka, Hefur landbn. fyrir sitt leyti fallizt á að leggja til, að frv. verði að þessu leyti samþ. óbreytt.

N. hefur rætt þetta mál á nokkrum fundum og eins og sjá má á nál. leitað sér ýmissa upplýsinga um framkvæmd l. um eyðingu refa og minka. Leitaði hún til atvmrn., sem hafði ekki önnur gögn um framkvæmd l. en heildarkostnað hvers árs. Ég tek hér skýrslu fyrir árið 1953, og er hún prentuð sem fskj. með nál. Sýnir hún kostnað hverrar sýslu það ár og heildarkostnað landsins alls. Eins og skýrslan ber með sér, er kostnaður í hinum einstöku sýslum mjög mismunandi. Hæstur er hann í Norður-Múlasýslu, eða kr. 91612.58, en heildarkostnaður alls landsins vegna refa- og minkaveiða er það ár kr. 836692.73.

Þá leitaði n. einnig til allra sýslumanna um framkvæmd og árangur refa- og minkaveiðanna og kostnað við þær, sundurliðað fyrir hverja tegund. Flestir sýslumenn hafa sent svör, en við athugun þeirra kom í ljós, að þá skorti gögn til þess að gefa sundurliðaðar skýrslur, svo sem n. óskaði eftir og greint er frá í nál.

Til þess þó að gefa nokkra hugmynd um niðurstöðuna skal ég nefna nokkrar sýslur, sem tölur hafa borizt frá um unnin dýr, fjölda refa og minka, árið 1953. Um heildarkostnað vil ég vísa til fylgiskjals þess frá atvmrn., sem prentað er með nál.

Ég nefni þá fyrst Skagafjarðarsýslu, en þaðan hafa borizt greinilegastar skýrslur, enda hefur sýslumaðurinn þar látið prenta eyðublöð, sem eru svo útfyllt í hreppunum, samhliða því sem reikningar yfir kostnað við vinnsluna eru gerðir. Á árinu 1953 er útkoman þessi: Unnin gren 23, unnin grendýr 33, unnin hlaupadýr 12, yrðlingar á grenjum 85 og minkar 55.

Um Norður-Múlasýslu segir sýslumaður, með leyfi hæstv. forseta:

„Alls virðast hafa veiðzt á árinu 76 refir fullorðnir og 172 yrðlingar.“

Í Barðastrandarsýslu verður talan þessi: 18 gren, 22 grendýr, 45 yrðlingar og 118 hlaupadýr. Í Ísafjarðarsýslu er tala grenja talin 23 og grendýr 60. Við þá tölu vil ég gera þá aths., að sjáanlega eru þarna taldir með yrðlingar, sem hafa unnizt á grenjum, enda setur sýslumaðurinn spurningarmerki við þessa tölu. Hlaupadýr, sem unnin hafa verið, eru 171. Í Eyjafjarðarsýslu eru 8 gren, 15 grendýr, yrðlingar 24, hlaupadýr 8. Í Suður-Múlasýslu 17 gren, 21 grendýr, 44 yrðlingar og 1 hlaupadýr. Í Austur-Skaftafellssýslu 30 refir og 95 yrðlingar.

Ekki hefur n. borizt nema ein skýrsla, er sýni þróun þessara mála frá ári til árs. Er hún úr Skagafjarðarsýslu og sýnir heildarkostnað við refa- og minkavinnslu árin 1950–53, að báðum meðtöldum, eða eftir að l. frá 1949 tóku gildi. 1950 var heildarkostnaðurinn kr. 28038.59. Þar af var kostnaðurinn vegna vinnslu minka 180 kr. Árið 1951 er heildarkostnaðurinn kr. 36536.42, þar af vinnsla minka kr. 1170,00. Árið 1952 er heildarkostnaður kr. 45823.68, þar af kostnaður við minka kr. 2500.00. Og 1953 er heildarkostnaðurinn kr. 49922.18, þar af kostnaður við vinnslu minka kr. 3300.00.

Þetta er aðeins einstakt dæmi, tekið sem sýnishorn, sem hefur vitanlega aðeins gildi fyrir þessa einu sýslu. Þessi dæmi frá nokkrum sýslum eru talin upp til þess að sýna, hversu mikið verkefni refa- og minkavinnslan er um allt land, sem aftur á móti sannar það, hve áríðandi er að halda þessum morðvörgum í skefjum með öllum þeim ráðum, sem tiltæk eru.

Eins og öllum er kunnugt, hefur refurinn verið morðvargur í sauðahjörð landsmanna frá fyrstu tíð. Hefur jafnan verið reynt að útrýma melrökkum með öllum þeim tækjum, sem hver kynslóð hefur haft yfir að ráða. Ekki eru mér kunnug opinber fyrirmæli um eyðingu refa á fyrri öldum, en 1890 eru þó sett lög um heimild fyrir sýslunefndir til að setja reglugerðir um eyðingu refa, sem amtsráð skal staðfesta. Eru l. þessi byggð á tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi frá 1872. Lögum þessum er svo lítils háttar breytt með l. nr. 36 frá 1893, eða nánari skilgreining á löndum þeim, sem sveitarsjóðir skulu kosta vinnslu á, en það er í heimalöndum, í almenningum og á afréttum þeim, sem sveitarfélögin eiga.

Enn er l. breytt 1919. Gera þau l. enn ráð fyrir reglugerðum sýslunefnda, sem nú skulu staðfestast af stjórnarráðinu. Þó er eitt nýmæli í þeim l., sem ekki hefur verið tekið upp við endursamningu l. síðan. Í 3. gr. l. eru fyrirmæli um það, að skýrslur um eyðingu refa og útlagðan kostnað við hana skuli gerðar af framkvæmdarstjórn refaeyðingarsvæða, hvers um sig, eftir fyrirmynd, er stjórnarráðið semur og sendir sýslumanni eða bæjarfógeta fyrir lok hvers árs. Átti að senda skýrslur þessar sýslunefnd eða bæjarstjórn, sem leiðrétta átti þær, ef ástæða var til. Síðan skyldu þær sendar til stjórnarráðsins, sem birta átti þær sem aðrar skýrslur um landshagi á Íslandi.

Árið 1933 var svo l. enn breytt, og eru það fyrstu heildarlög um eyðingu refa fyrir landið allt, reglugerðir einstakra sýslna ekki lengur fyrirskipaðar, leyfðar um einstök atriði, en bannaðar, ef þær koma í bága við l. Lög þessi, nr. 108 1933, um refaveiðar og loðdýrarækt, marka ekki nýja stefnu um vinnslu refa. Þau eru einkum einkennd af refaeldinu, sem þá átti sitt blómaskeið, og hinu háa verði, sem þá var á yrðlingum.

Loks eru svo núgildandi lög, nr. 56 1949. Merkasta nýmæli þeirra var, að nú er kostnaði við refa- og minkavinnslu skipt á milli ríkis, sýslufélags og hreppsfélaga, enda var svo komið, einkum eftir að óhappið um innflutning og lausagang minkanna átti sér stað, að fátækum og fámennum, en landstórum hreppum var orðið ofviða að halda vargdýrum þessum svo í skefjum sem þjóðarnauðsyn krefst.

Enn er á ferðinni breyt. á þessum l. Eins og frv. er nú, er stefnt að því að hvetja menn til að vinna dýr þessi á öllum tímum árs með auknum verðlaunum fyrir unnin hlaupadýr. Eins og ég gat um áður, mælir n. með því, að ákvæði frv. um hækkun verðlauna verði samþ. óbreytt. Það hefði verið fróðlegt og æskilegt, ef hægt hefði verið að gera sér grein fyrir því, hver meðalkostnaður væri við að vinna dýr á grenjum. En því miður eru engar þær skýrslur, sem n. hefur undir höndum, svo gerðar, að leyfilegt sé að koma með svo mikið sem ágizkunartölur. Þó benda líkur til, að kostnaður við vinnslu grendýra verði sízt lægri en verðlaun þau, er frv. ákveður fyrir refi, eða 180 kr. á dýr. Á þeirri skoðun meðal annars byggir n. meðmæli sín um, að verðlaunaákvæði frv. verði samþ. óbreytt. En eins og nál. greinir frá, er n. sammála um að leggja til, að fleiri breyt. verði gerðar á l. Eru þær í fjórum liðum. Skal ég aðeins minnast á þær, en vísa að öðru leyti til nál.

1. og 4. brtt. n. lúta að því að fyrirbyggja, að lönd verði út undan við vinnslu, þar sem svo hagar til, að hreppar fara í eyði, eins og nú eru dæmi til, eða í löndum, sem kaupstaðir eiga, en um skyldu þeirra til að annast vinnslu í löndum sínum er ekkert fram tekið í núgildandi l. Það er aðeins talað um sýslumenn, sýslunefndir og hreppsnefndir, en bæjarfógetar og bæjarstjórnir ekki nefndar.

Afrit af bréfi sýslumanns Skagafjarðarsýslu til bæjarfógetans á Siglufirði og Ólafsfirði, sem fylgdi skýrslu sýslumanns til n., staðfestir réttmæti og nauðsyn 4. brtt.

2. brtt., sem n. ber fram, er um það, að eitra skuli árlega fyrir refi og minka. Læt ég að mestu nægja að vísa til nál. um nauðsyn þess að eitra rækilega. Því skal þó bætt við, að Sigurður Sigurðsson, bæjarfógeti og sýslumaður á Sauðárkróki, segir í skýrslu sinni orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Hins vegar hygg ég, að haldkvæmasta ráðið til útrýmingar refum sé að eitra fyrir þá.“ Þetta segir bæjarfógeti. Ég get um leið sagt, að áratuga reynsla mín staðfestir þetta álit sýslumannsins.

Þá er aðeins ógetið einnar brtt. n., sem er hin 3. í röðinni, en hún mælir svo fyrir, að gera skuli skýrslur um eyðingu refa og minka, er sýni árangur og kostnað við hverja tegund um sig. Eins og ég gat um áður, þá voru fyrirmæli um slíka skýrslugerð í l. frá 1919. N. lítur svo á, að slík nákvæm skýrslugerð geti í framtíðinni gefið bendingar um, hverjar séu hinar hagkvæmustu vinnsluaðferðir, og lagt grundvöll fyrir betri árangri í stríðinu við þessi skaðlegu vargdýr.

Að svo mæltu leyfi ég mér fyrir hönd n. að óska þess, að hv. d. samþykki till. hennar og afgr. frv. til 3. umr. að þessari umr. lokinni.