15.02.1955
Neðri deild: 48. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

111. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Með þessu frv., sem flutt er af báðum hv. þm. Skagf., er lagt til, að Lónkotsmöl í Skagafirði verði tekin upp í l. um hafnargerðir og lendingarbætur sem staður, þar sem hægt sé að byggja styrkhæf hafnarmannvirki. Þessi staður, Lónkotsmöl, liggur í Fellshreppi í Skagafirði austanverðum, nokkurn veginn beint austur af Málmey, og hefur þaðan verið stundað útræði um langt skeið, að því er segir í grg. frv. Aðstaðan þarna til útgerðar er aftur mjög erfið, hár malarkambur, engin mannvirki, ekkert afdrep fyrir báta og engin bryggja til að lenda við. Það er því ekki óeðlilegt, að til þess hafi verið hugsað að gera þarna einhverjar lendingarbætur.

Áætlun um litla bryggju á þessum stað var gerð fyrir 10 árum, og virðist vera hægt að gera hana með tiltölulega litlum kostnaði, en ekkert hefur þó orðið úr framkvæmdum, sennilega m.a. vegna þess, að staðurinn var ekki á hafnarlögum.

Samgmn. þessarar d. hefur haft málið til meðferðar og leggur einróma til, að frv. verði samþykkt. Það er svipað háttað með þennan stað eins og fjöldamarga aðra, sem gert er ráð fyrir að byggja smálendingarbætur á, og engin ástæða til þess að hafa þennan stað ekki með, þar sem aðrir líkir eða tilsvarandi eru teknir upp í lögin.

Ég get getið þess einnig, að síðan vitavarðarbústaðurinn í Málmey brann, hefur Málmeyjarvitans verið gætt úr landi, og er þá einmitt lent á þessum stað, í Lónkotsmöl, og gæti svo farið, að smálendingarbætur, sem þar yrðu gerðar, gætu einnig orðið til að tryggja öryggi við rekstur vitans.

N. leggur sem sagt eindregið til, að frv. verði samþykkt.