14.03.1955
Neðri deild: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

172. mál, landshöfn í Rifi

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. það á þskj. 452, sem hér er tekið til umr., er flutt af sjútvn. þessarar hv. d. Með frv. fylgir grg. frá n. ásamt bréfi vitamálastjóra, þar sem skýrt er frá framkvæmdum við hafnargerðina í Rifi frá árinu 1951 og fram til þessa tíma. Einnig upplýsir vitamálastjóri, hvaða framkvæmdir sé nauðsynlegt að ráðast í á næstu árum, til þess að höfnin og önnur aðkallandi mannvirki í sambandi við hana komi að notum. Að öðru leyti vitna ég í grg. n. með frv. og í bréf vitamálastjóra, sem hvort tveggja sannar nauðsyn þess, að heimild hæstv. ríkisstj. til lántöku vegna hafnarframkvæmda í Rifi verði hækkuð úr 3 millj. kr. í 12 millj. kr., eins og frv. kveður á um.

Eins og tekið er fram í grg. með frv., er mikil nauðsyn að hraða hafnargerðinni, þar sem þegar er bundið allmikið fé í þeim mannvirkjum, sem þegar er búið að framkvæma í Rifi, og það fé er arðlaust, þar til höfnin verður tekin til afnota og eðlileg tekjuöflun myndast með hafnargjöldum og öðrum afnotum, sem höfnin lætur útgerðinni í té.

Þar sem frv. er flutt af nefnd, vil ég biðja hæstv. forseta að vísa því til 2. umr. að lokinni þessari umr.