25.11.1954
Efri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

66. mál, dýralæknar

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Samkv. gildandi lögum um dýralækna er landinu skipt í níu dýralæknaumdæmi. Eins og að líkum lætur, eru umdæmi þessi stór og viðáttumikil, og hefur komið í ljós, einkum á síðari árum, að ókleift er einum dýralækni að anna þeirri þjónustu, sem af honum er krafizt í hinum stærstu þeirra og þar sem búfé er flest. Með ári hverju vex aðsókn til dýralækna. Kemur þar margt til, bættar samgöngur, aukning búfjár, aukið heilbrigðiseftirlit, bæði hvað viðkemur framleiðslu sölumjólkur og kjöts. Hvert einasta fjós á mjólkursölusvæðum og hverja kú ber dýralækni að skoða í umdæmi sínu, einu sinni á ári að minnsta kosti. Hvern kjötskrokk ber að skoða og stimpla strax að lokinni slátrun. Allt þetta ber dýralæknum að annast í umdæmum sínum auk sinna venjulegu læknisstarfa, en það eykst stöðugt, að þeirra sé vitjað, þegar skepnur verða veikar eða verða fyrir slysum, eftir því sem bændur kynnast því betur, að náist fljótt í lækninn, tekst oft að bjarga gripum, sem annars væru dauðadæmdir, en hver gripur er bóndanum mikils virði, ekki sízt kýr í þeim héruðum, þar sem nautgriparækt og kynbætur á mjólkurkúm eru lengst komin, enda er reynslan sú, að einmitt í þeim héruðum er aðsókn til dýralækna mest og fer sívaxandi.

Ég skal þá snúa mér að einstökum atriðum frv. þess, sem hér liggur fyrir. Það er, eins og segir í grg., sem því fylgir, fram komið vegna þess, að reynslan hefur sýnt, að dýralæknisumdæmin eru of fá, og er frv. ætlað að bæta úr því. Samkv. 1. gr. skal umdæmunum fjölgað nm tvö, úr níu í ellefu, með því að Varmahlíðarumdæmi verði gert að tveimur umdæmum, sem verði Húnaþingsumdæmi, og nær það yfir Húnavatnssýslur báðar, og Skagafjarðarumdæmi, er nái yfir Skagafjarðarsýslu, Sauðárkrók og Siglufjörð. Akureyrarumdæminu verði einnig skipt í tvennt og verði Eyjafjarðarumdæmi, sem nái yfir Ólafsfjörð, Akureyri, Eyjafjarðarsýslu alla, Svalbarðsstrandarhrepp og Grýtubakkahrepp í Suður-Þingeyjarsýslu, og Þingeyjarþingsumdæmi, sem nái yfir Suður-Þingeyjarsýslu austan Vaðlaheiðar, Húsavík og Norður-Þingeyjarsýslu. Til þess að gefa nokkra hugmynd um gripafjölda skal þess getið, að í þessum níu umdæmum eru mjólkandi kýr sem hér segir: Í Húnaþingsumdæmi 2300, í Skagafjarðarumdæmi 2600, í Eyjafjarðarumdæmi 5300, í Þingeyjarþingsumdæmi 2300. Eyjafjarðarumdæmi verður eftir þessu langgripaflest eftir þessa fyrirhuguðu skiptingu.

Þetta er sú skipting, sem frv. leggur til að gerð verði á gildandi l. um dýralækna. Við 1. umr. frv. þessa drap fyrri flm., hv. 1. þm. N-M. (PZ), á það, að athugandi væri, hvort ekki væri rétt að skipta Selfossumdæmi, sem nær nú yfir Árnessýslu alla og Vestmannaeyjar, í tvö umdæmi. Var það atriði einnig tekið til meðferðar í landbn., sem hefur rætt þetta frv. á tveim fundum sínum. Nm. voru sammála um, að frv. stefndi í rétta átt og nauðsynlegt væri að fjölga dýralæknum í landinu, eins og farið væri fram á í frv. Einnig voru nm. sammála um, að full ástæða væri til að skipta Selfossumdæmi í tvennt. Á svæði því, sem umdæmið nær yfir, eru nú um 7000 mjólkandi kýr. Eingöngu er um framleiðslu sölumjólkur að ræða, svo að skylt er dýralækni, eins og ég drap á í upphafi, að skoða hverja kú og hvert fjós minnst einu sinni á ári af heilbrigðisástæðum. Má þetta vera ærið starf, enda hefur komið í ljós, að það er ofætlun einum manni, auk alls annars, sem tilheyrir hans embætti. — Þótt nm. væru sammála um afgreiðslu málsins, þótti rétt að senda yfirdýralækni landsins og Dýralæknafélagi Íslands frv. til umsagnar. Einnig var leitað umsagnar þeirra um skiptingu Selfossumdæmis í tvö. Svör hafa nú borizt frá báðum þessum aðilum, og mæla þeir eindregið með því, að frv. verði samþykkt. Þá mæla þeir og með því, að Selfossumdæmi verði skipt. Í svari sínu segir yfirdýralæknirinn, Sigurður E. Hlíðar, eftir að hann hefur lýst brtt. þeim, er í frv. felast, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessar brtt. tel ég mjög nauðsynlegar og aðkallandi. Reynslan hefur sýnt, að Akureyrarumdæmið er ofvaxið einum manni, þótt röskur sé. Sama hlýtur útkoman að verða að því er snertir Varmahlíðarumdæmið, þar sem um jafnvíðáttumiklar og frjósamar sveitir er að ræða. Nú er það svo, að ekki eru dýralæknar til í öll þessi embætti, en vonir standa til, að bráðlega muni úr rætast, því að gera má ráð fyrir, að á næstu árum bætist 3–5 íslenzkir dýralæknar í hinn fámenna dýralæknahóp vorn, en alls eru 8 stúdentar við dýralæknanám á erlendum dýralæknaháskólum.“

Þá segir yfirdýralæknirinn um skiptingu Selfossumdæmis m.a.:

„Skepnufjöldi í Árnessýslu er mikill, einkum hvað nautgripi snertir, og má gera ráð fyrir því, að hann vaxi með ári hverju, þar sem öll skilyrði liggja opin fyrir. Ég mæli sem sagt hið bezta með þessum breytingum og vil leyfa mér að hvetja hið háa Alþingi til að samþykkja þær nú á yfirstandandi þingi.“

Þetta eru ummæli yfirdýralæknis, sem hann tók fram í svari sínu til nefndarinnar.

Páli A. Pálsson dýralæknir, formaður Dýralæknafélags Íslands, segir í svari sínu m.a.: „Stjórn Dýralæknafélags Íslands telur eðlilegt og fulla ástæðu til að skipta Árnessýslu í tvö dýralæknisumdæmi.“ Og þá lýsir hann því, hvernig hann áliti að skiptingin yrði réttust, ef breytingin næði fram að ganga, og leggur þar til ákveðnar tillögur. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að Jón Pálsson dýralæknir á Selfossi á sæti í stjórn Dýralæknafélagsins og hefur að sjálfsögðu fylgzt með þessum breytingum, sem þarna eru ráðgerðar. Þeir leggja sem sagt til alveg ákveðið, hvernig héraðinu skuli skipt, og eins ákveða þeir, að hinn nýi dýralæknir, sem fær þá efri hluta sýslunnar fyrir umdæmi, sitji í Laugarási. Benda þeir á það réttilega, að þegar brúin kemur á Hvítá hjá Iðu, þá er hann mjög vel settur þar, þó að hans umdæmi sé sitt hvorum megin við Hvítá, eins og læknishéraðið er nú, og er erfitt á meðan brúin er ekki komin, en það stendur væntanlega til bóta.

Samkv. 2. gr. frv. er lagt til, að síðasta mgr. 2. gr. l. falli niður. Þessi mgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrst um sinn, meðan skortur er á dýralæknum, svo að einhver af umdæmunum, er um ræðir í 2.–9. tölulið 1. gr., eru dýralæknislaus af þeim sökum, gegnir yfirdýralæknir Gullbringu- og Kjósarsýsluumdæmi með embætti sínu án sérstakra launa úr ríkissjóði.“

Þetta er í hinum núgildandi lögum, en lagt er til í frv., að þessi mgr. falli niður, þar sem fyrirmæli hennar eru óþörf, þar sem nú hefur verið skipaður dýralæknir í Gullbringu- og Kjósarsýsluumdæmi, og er því sjálfsagt að fella þessa mgr. laganna niður.

Landbn. leggur sem sagt einróma til, að frv. á þskj. 85 verði samþ. með breytingu þeirri, sem prentuð er með nál. á þskj. 195. Ef frv. og þessi brtt. n. verða samþ., þá verða dýralæknaumdæmin 12 í stað 9 núna, m.ö.o. fjölgar um þrjú. Þessi breyt., sem n. leggur til, er þannig:

„Við 1. gr. Í stað 11. tölul. komi tveir tölul., er orðist svo:

a) Selfossumdæmi: Villingaholtshreppur, Gaulverjabæjarhreppur, Stokkseyrarhreppur, Eyrarbakkahreppur, Sandvíkurhreppur, Selfosshreppur, Hraungerðishreppur, Ölfushreppur, Selvogshreppur, Hveragerðishreppur og Vestmannaeyjar.

b) Laugarásumdæmi: Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Skeiðahreppur, Biskupstungnahreppur, Grímsneshreppur, Laugardalshreppur, Þingvallahreppur og Grafningshreppur.“

Þess skal getið til samanburðar við gripafjöldann, sem ég minntist á áðan, í hinum nýju umdæmum, að um 3000 mjólkandi kýr munu verða í efra umdæminu, Laugarásumdæmi, en í Selfossumdæmi um 4000.

Ég hef svo þessi orð ekki fleiri, en endurtek það, að n. mælir eindregið með því, að frv. verði samþ. ásamt brtt.