10.02.1955
Neðri deild: 43. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samgmn. hefur flutt það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 278, um breyt. á l. nr. 23 16. febr. 1953, um leigubifreiðar í kaupstöðum.

Frv. er flutt samkvæmt ósk stjórnar bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils, og fylgir bréf formanns félagsins grg. frv. sem fylgiskjal. Efni málsins er það, að lagt er til, að fyrrgreindum lögum verði breytt þannig, að samgmrn. verði heimilað að heimila, að fengnum till. hlutaðeigandi stéttarfélaga, takmörkun fjölda leigubifreiða í Rvík, hvort heldur eru fólks- eða vörubifreiðar, annað hvort eða hvort tveggja. Áður hafði bæjarstjórn Rvíkur verið veitt heimild til þess að takmarka samkvæmt till. hlutaðeigandi stéttarfélaga bifreiðarstjóra tölu vöruflutningabifreiða.

Rök þessarar breytingar, sem hér er farið fram á, koma fram í því bréfi, sem ég minntist á. Það er fyrst og fremst lagt til, að þessi takmörkun verði heimiluð hér í Reykjavík. Á það er bent af hálfu samtaka bifreiðarstjóra, að mjög mikið aðstreymi sé í stétt bifreiðarstjóra og atvinna af þeim sökum minnkandi. Þeir benda jafnframt á það, að í öðrum löndum hafi verið sett löggjöf, þar sem heimild sé veitt til þess að gera svipaða takmörkun og farið er fram á með því frv., sem hér liggur fyrir. Enn fremur hefur verið á það bent, að í því felist nokkur hætta, að fjöldi manna flykkist inn í þessa stétt, á sama tíma sem framleiðsluatvinnuvegi þjóðarinnar skorti mannafla verulega. Það sé ekki heldur þannig, að þeir, sem nú koma inn í bifreiðarstjórastéttina, tryggi sér þar með lífvænlega afkomu. Þegar á allt þetta sé litið, telja samtök bifreiðarstjóra í Rvík, að nauðsynlegt sé að fá þá heimild, sem um getur í 1. gr. þessa frv.

Samgmn. hefur, áður en hún flutti þetta frv., kynnt sér rök þau, sem fram hafa komið í málinu, og eftir atvikum talið eðlilegt að verða við ósk bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils um að leggja þetta frv. fram. Ég vil f.h. nefndarinnar aðeins segja það, að hún hefur talið, að ástæða væri til þess að flytja málið. Þær raddir hafa að vísu heyrzt innan n., og munu sjálfsagt heyrast hér innan hv. þd., að það sé alltaf nokkuð varhugavert að fara út á þá braut að takmarka inngöngu í ákveðnar atvinnustéttir og skerða þannig frelsi einstaklinganna til þess að velja sér atvinnu. Í þessu felast alltaf nokkur rök, en fram hjá hinu ber þó ekki að ganga, að á ýmsum sviðum hefur þetta verið gert, og meðal frændþjóða okkar hefur verið talið nauðsynlegt og eðlilegt, að nokkrar takmarkanir yrðu settar á fjölda þeirra manna, sem gerðu sér bifreiðaakstur að atvinnu. Ég hygg, að það sé ekki nauðsynlegt að fara fleiri orðum um þetta mál. Það er skýrt og einfalt, og ég vænti þess, að það fái góðar undirtektir hér í hv. þingdeild.

Vil ég svo leyfa mér að óska þess, að málínu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.