11.02.1955
Neðri deild: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Emil Jónsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til umræðu í samgmn. þessarar hv. d., mun hafa verið á það minnzt, að ástæða gæti verið til að láta þessi lög ná til fleiri staða en Reykjavíkur einnar. Málið var þó flutt í því formi, sem fram er komið, og var ég sem einn nm. því þá samþykkur. Hins vegar hafa mér nú borizt frá bifreiðarstjórafélaginu í Hafnarfirði tilmæli um það, að a.m.k. þeim stað verði bætt inn í lögin, og vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, mega lesa það bréf upp. Það er svo hljóðandi:

„Við undirritaðir, stjórn Bifreiðarstjórafélagsins Neista í Hafnarfirði, förum þess á leit, að frv. því til laga um leigubifreiðar í kaupstöðum, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, verði breytt þannig, að það nái einnig til Hafnarfjarðar, þar sem allar ástæður eru þar hinar sömu fyrir hendi og í Reykjavík til að setja hámarkstölu á leigubifreiðar í bænum.“

Um rökin fyrir þessu máli almennt þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Frsm. málsins, sem flutti framsöguræðu um það í gær, gerði það ýtarlega fyrir nefndarinnar hönd. Ég vildi aðeins leyfa mér að leggja til, að sú heimild, sem í lögunum er gert ráð fyrir að veita, verði færð nokkuð út, þannig að hún rúmi a.m.k. þennan stað, Hafnarfjörð, til viðbótar við Reykjavík, þar sem ástæðurnar eru alveg hinar sömu fyrir þessari lagasetningu.

Út af fyrir sig gæti ég vel hugsað mér, að heimildin yrði gerð enn víðari, þannig að hún næði til kaupstaðanna allra eða flestra, en mun þó ekki á þessu stigi málsins gera um það till., en vildi leyfa mér að bera fram skriflega till. um, að Hafnarfirði yrði bætt í frv.

Ég vil því leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. forseta, að leitað verði afbrigða fyrir þessari skriflegu brtt. minni, sem er svo hljóðandi, að á eftir orðinu „Reykjavík“ komi: og í Hafnarfirði.