11.02.1955
Neðri deild: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Mál þetta mun vera flutt samkv. beiðni Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils hér í bænum, og í grg. eru tilgreindar tvenns konar ástæður fyrir flutningi málsins, í fyrsta lagi sú, að það sé allt of mikið aðstreymi í bifreiðarstjórastéttina hér í bænum, og í öðru lagi, að atvinna bilstjóra hér í Rvík hafi minnkað, Um þessi tvö atriði skal ég ekki dæma, ég hef ekki kunnugleika til þess. En eitt veit ég, og það er það, að atvinna bifreiðarstjóra úti á landi hefur minnkað, og ég held, að ef gerður er samanburður á atvinnu leigubílstjóra hér í Rvík og t.d. á Akureyri, þá mundi koma í ljós, að það væri um algerlega tvenns konar kjör að ræða.

Vinna bílstjóra úti á landi hefur farið minnkandi vegna ýmissa atvinnuörðugleika og einnig vegna þess, að fólksstraumurinn hefur í vaxandi mæli leitað hingað suður til Faxaflóans. Ef viðurkenna á það sjónarmið, sem kemur fram í þessu frv., að nauðsyn sé til þess að takmarka aðstreymi í þessa stétt, þá sé ég ekki nokkra ástæðu til annars en að láta það sjónarmið einnig ná til annarra bæjarfélaga hér á landi, og ég leyfi mér að fullyrða, að það er einmitt meiri þörf á því, að heimild frumvarpsins næði til bæjarfélaga utan Rvíkur. Ég hef því leyft mér að flytja skriflega brtt. í þessu máli, þar sem segir, að fyrir orðin „í Reykjavík“ í 1. gr. komi: í kaupstöðum, þannig að nái frv. fram að ganga með þessari brtt., þá nái lögin til allra bæjarfélaganna hér á landi. Þessi brtt. er skrifleg, og ég vil leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.