11.02.1955
Neðri deild: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er vegna fsp., sem beint hefur verið til samgmn., sem ég vildi aðeins segja nokkur orð.

Hv. þm. Borgf. spurðist fyrir um það, hvort fyrir n. hefðu legið óskir frá fleiri kaupstöðum en Reykjavík um slíka heimild sem í frv. þessu felst. Ég vil svara þessari fsp. þannig, að þegar n. tók ákvörðun um það að flytja þetta frv., þá lágu slíkar óskir ekki fyrir. Það er fyrst og fremst Bifreiðarstjórafélagið Hreyfill hér í Reykjavík, sem hefur tekið þetta mál upp vegna eigin félagsmanna og aðstæðna í þessum málum hér í Reykjavík. Með því er að sjálfsögðu ekki sagt, að svipaðar aðstæður geti ekki verið fyrir hendi í öðrum kaupstöðum landsins, enda er nú svo komið, að tveir hv. þm., hv. 5. landsk. þm. (EmJ) og hv. þm. Ak. (JR), hafa borið fram brtt. um það að víkka heimildina þannig, í fyrsta lagi, að hún nái til Hafnarfjarðarkaupstaðar, og í öðru lagi, að hún verði almennt látin ná til allra kaupstaða landsins.

Út af ummælum hv. 2. þm. Reykv. vil ég taka það fram, að ég hygg fyrir hönd n. í heild, að hún hafi ekki litið svo á, að hægt yrði að nota þessa heimild til þess að fækka þeim mönnum, sem nú þegar starfa að bifreiðaakstri í Reykjavík, eins og frv. nú er úr garði gert. N. hefur ekki talið, að hægt væri að ganga svo langt að beinlínis reka menn út úr stétt, sem þeir þegar hefðu tekið upp atvinnu í. Þetta leiðir nokkurn veginn af eðli málsins, og ég vil láta þennan skilning n. koma skýrt fram, vegna þess að fsp. kom fram um hann frá hv. 2. þm. Reykv.

Annars vil ég segja það, að ég tel mjög ótrúlegt og litla ástæðu til þess að óttast, að sú heimild, sem hér er farið fram á, verði misnotuð af þeim aðila, sem hún er fengin, þ.e.a.s. samgmrh. Það er gert ráð fyrir því, að hann fylgi tillögum þeirra stéttarfélaga, sem hlut eiga að máli, og það verður að gera ráð fyrir því, að þau beiti valdi sínu af þeirri ábyrgðartilfinningu gagnvart sínum eigin stéttarbræðrum og ungum mönnum, sem vilja leggja út á braut bifreiðaaksturs, sem telja verður sjálfsagða og eðlilega. Úrslitaákvörðunin um slíka takmörkun er svo á valdi ráðherra.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þær athugasemdir, sem hér hafa komið fram, en vegna þess að hér eru komnar tvær skriflegar brtt. um töluverða breytingu á frv., hins vegar allmargir hv. þm. fjarverandi, þá teldi ég skynsamlegt, að umr. um málið yrði frestað í dag og að samgmn. gæfist tækifæri til þess að ræða hinar fram komnu brtt. og ráðgast um afgreiðslu málsins í heild.