14.02.1955
Neðri deild: 47. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Frsm, (Sigurður Bjarnason):

Það eru aðeins örfá orð, herra forseti. Ég vil ítreka ósk mína til hv. 2. þm. Reykv. um að taka þessa brtt. aftur til 3. umr. Umr. hefur einu sinni verið frestað vegna brtt., sem fram hafa komið, og eðlileg málsmeðferð virðist vera, þegar þessi brtt. nú kemur fram svo að segja fyrirvaralaust, að þá fái sú nefnd, sem málið flytur og um það hefur fjallað, tóm til þess að athuga hana.

Ég skal ekki fara að ræða brtt. efnislega. Það er alveg rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að í henni er ítrekaður — í fyrri hluta hennar a.m.k. — sá skilningur, sem kom fram af hálfu n. síðast þegar málið var rætt hér. En í seinni brtt. kemur hins vegar fram nýtt atriði, sem mjög æskilegt er að n. fái tækifæri til þess að athuga, Ég vil aðeins í því sambandi benda á það, að í lögunum, eins og þau eru nú, er gert ráð fyrir því, að samgmrn. setji með reglugerð nánari ákvæði um slíka takmörkun. Það er ekki gerð nein brtt. um það með þessu frv. að breyta þessu ákvæði; það stendur áfram í lögunum. Í brtt. hv. 2. þm. Reykv. er hins vegar gert ráð fyrir, að sett verði reglugerð af viðkomandi bifreiðarstjórafélagi. Þetta er algerloga nýtt atriði, sem ég teldi mjög æskilegt að n. fengi tækifæri til þess að athuga, og ég vænti, að góð samvinna geti tekizt við hv. flm. um það, að henni gefist tóm til þess. Að öðru leyti mundi ég f.h. nefndarinnar ekki geta mælt með því, að till. þessi, eins og hún nú liggur fyrir, yrði samþykkt við þessa umr., og mundi þá verða að mæla gegn því, að hún næði fram, ef haldið yrði fast við það, að hún kæmi til atkvæða nú.