18.02.1955
Neðri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Fram. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Mér skildist, að hv. 3. landsk. léti að því liggja, að frv. eins og þetta kynni að brjóta í bága við vinnulöggjöfina. Ég hef engin rök heyrt fyrir því, að svo sé. Alþingi hlýtur að vera heimilt að setja löggjöf á þessu sviði um takmarkanir á rétti manna til atvinnu, eins og það hefur heimild til þess að setja með almennum lögum ýmsar almennar takmarkanir á athafnir borgaranna í landinu. Ég held, að það sé alveg fráleitt, að þó að sett sé löggjöf um það að hindra aðstreymi í eina einstaka stétt, þá geti það talizt brot á vinnulöggjöfinni. Ég veit ekki betur en þegar séu í lögum takmarkanir á rétti manna t.d. til þess að að velja sér atvinnu í einstökum iðngreinum. Ekki hefur það verið talið brot á vinnulöggjöfinni. Ég skal ekki fara út í það að ræða þetta nánar. Ég held, að þetta eigi ekki við rök að styðjast og hv. þdm. séu gersamlega óhætt að afgreiða þetta litla mál til þess að koma til móts við hagsmuni fjölmennrar stéttar, sem er að verða allt of fjölmenn.

Varðandi það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það væri mjög óákveðinn hlutur, hverjir stundi leigubifreiðaakstur á lögmætan hátt, vildi ég aðeins segja það, að það er ekkert óákveðinn hlutur t.d. hér í Reykjavík. Það eru skýr lagaákvæði um það, heimildarákvæði, sem þegar hafa verið notuð. Að fengnum tillögum hlutaðeigandi stéttarfélaga getur bæjarstjórn ákveðið, að allar leigubifreiðar í kaupstaðnum, hvort heldur eru fólks-, vöru- eða sendiferðabifreiðar, skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð, sem fengið hefur viðurkenningu bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn Rvíkur hefur hagnýtt þessa heimild samkvæmt till. hlutaðeigandi stéttarfélaga.

Það er þess vegna ekkert óákveðinn hlutur, hverjir stundi bifreiðaakstur á lögmætan hátt hér í Rvík. Það er ekki heldur óákveðinn hlutur utan Rvíkur, þar sem þessi heimild hefur ekki verið notuð.

brtt., sem samgmn. hefur flutt hér, er þess vegna mjög skýr og glögg um þetta atriði og kveður alveg nægilega greinilega á um það, að fyrir Alþingi vakir ekki með lagasetningu um þetta efni að reka menn út úr þeirri atvinnu, sem þeir þegar hafa valið sér, þ.e.a.s. leigubifreiðaakstri, einungis að hafa hemil á aðstreymi inn í þessa stétt, sem er að verða allt of fjölmenn, — svo fjölmenn, að stórkostleg hætta er af fyrir það fólk, sem þegar er í stéttinni.

Það er rétt, sem bv. þm. V-Húnv. sagði, að hér eru komnar fram tvær skriflegar brtt., sem æskilegt væri að menn gætu athugað nánar. Ég gæti þess vegna hugsað mér mjög vel, að umr. yrði nú lokið um málið og atkvgr. síðan frestað, þannig að hv. þm. gætu haft þessar brtt. fyrir sér prentaðar. Hins vegar er þetta mál ekki það stórt, að menn hafi ekki alveg greint kjarna þess. Það er þess vegna, held ég, alveg óþarfi að fresta umr., en hins vegar tel ég ekki ósanngjarnt að koma þar til móts við óskir hv. þm. V-Húnv., að atkvgr. um málið yrði frestað, þannig að brtt. lægju prentaðar fyrir, þegar til atkvgr. kemur.