18.02.1955
Neðri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er enginn vafi á því, að ef þetta frv. verður að lögum, þá eru það mikilsverðar hagsbætur fyrir hina tiltölulega fámennu stétt bílstjóra í kaupstöðum landsins. En það verður á kostnað annarra vinnandi stétta í landinu. Það er og augljóst mál, að sérréttindi þau, sem þetta frv. færir bifreiðarstjórum, koma til með að brjóta í bága við ákvæði vinnulöggjafarinnar um, að verkalýðsfélög, þar með stéttarfélög bílstjóra, skuli standa opin öllum starfandi mönnum í viðkomandi grein. Þegar það hefur komið fyrir, að verkalýðsfélög hafa neitað að taka menn inn í félagsskapinn, þá eru til þess dæmi, að þeir hafa kært það og fengið sig dæmda inn í viðkomandi félag. Þegar þeir eru komnir inn í félagið, þá duga engar hömlur, þá hafa þeir forgangsrétt að vinnu hjá atvinnurekendum, sem hafa samið við viðkomandi félag.

Hv. frsm. samgmn., hv. þm. N-Ísf., sagði, að ekki hefðu verið færð nein rök fyrir því, að slíkur árekstur yrði. En það er alveg augljóst mál. Það vita allir þingmenn, að þetta ákvæði er í vinnulöggjöfinni, að verkalýðsfélögin skuli standa opin. Og það hefur verið dæmt ólögmætt, ógilt, þegar þau hafa ætlað að synja manni inngöngu, sem var starfandi í viðkomandi starfsgrein. Það er ekki tekið fram í þessum lögum, að ætlazt sé til, að nein ákvæði vinnulöggjafarinnar breytist með þessari lagasetningu.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þau vandkvæði, sem ég tel á því, ef frjálsræði vinnumarkaðarins verður takmarkað fyrir einstakar stéttir á þann hátt, sem þetta frv. fer fram á. En það er alvarlegt mál. Það er stórt mál. Og það gæti hver stéttin komið á fætur annarri til þess að verja sig á sama hátt með lagasetningu, og væri varla hægt að neita stéttunum um það hverri á fætur annarri, eftir því sem þær bæðu um það. Allar stéttirnar teldu sér það mikilsvert að geta þannig tryggt sig gegn atvinnuleysi með því að takmarka tölu þeirra manna, sem fengju aðgang að stéttinni. Ef það væri slíkur ógnaraðgangur að því að verða bóndi í sveit, þá ætti sem sé að lögfesta, hve margir bændur mættu vera í hverri sveit á Íslandi. Og það vil ég benda á hér, að ef það er höfuðnauðsyn fyrir þessa stétt að takmarka aðganginn að stéttinni með löggjöf, þá eru fleiri stéttir, sem væri ástæða til þess að takmarka með löggjöf. Þá vil ég segja, að það væri ástæða til að setja lög um það, hversu margir heildsalar ættu að vera í Reykjavík, og það væri ekki fjarri mér að koma fram með frv. um það, hversu margir kaupmenn skyldu vera í Reykjavík, hversu margar tóbaks- og sælgætissjoppur skyldu vera í Reykjavík, og fara þá að hafa heldur betur tök á því, hvert mannaflið í þjóðfélaginu leitar og hvar það skuli vera, hve margir skuli vera þarna og hérna. Ég er ekki alveg viss um það, að þm. Sjálfstfl. yrðu eins snarpir í þeirri sennu að berjast fyrir þeim takmörkunum að því er snertir þessar stéttir. En fordæmið hefðu þeir gefið, og í óþægilega mótsögn kæmust þeir við sjálfa sig, ef við ættum ekki að takmarka tölu heildsala í Reykjavík og kaupmanna, eftir að þeir hefðu barizt svo snarplega fyrir þessu frv. Auk þess er það, að þessi stétt á aðra leið en lögvernd. Hún á þá leið að semja við atvinnurekendur um tölu í stéttinni og framfylgja þeim samningum, og þá hafa þeir alveg án lagasetningar taumhald á þessu. Og það er færari leið, þó að hún sé ekki agnúalaus, heldur en að binda þetta með lögum.