22.02.1955
Neðri deild: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel, að það geti verið varhugaverð stefna að takmarka atvinnufrelsi manna. Hitt mun rétt vera, að það hefur verið óþarflega og óheppilega mikil aðsókn að þeim störfum, sem hér er um að ræða, á þeim tíma sem vantar menn til ýmissa annarra starfa í þjóðfélaginu. Frv. þetta er í heimildarformi, og ég lít svo á, að þó að samgmrh. noti heimildina, ef frv. yrði samþ., þá geti hann hvenær sem er afnumið þá takmörkun, sem gerð verður. Ég tel, að það ætti að gera frekar en að færa slíkar takmarkanir út á viðara svið og einnig ef sérstakir annmarkar koma í ljós við þessar takmarkanir. Í trausti þess, að þannig verði á málinu haldið, segi ég já.