31.03.1955
Efri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. 16. febr. 1953 voru samþ. lög um leigubifreiðar í kaupstöðum. Samkv. þessum lögum var bæjarstjórn heimilt, að fengnum till. hlutaðeigandi stéttarfélaga bifreiðarstjóra, að ákveða, að allar leigubifreiðar í kaupstaðnum, hvort heldur eru fólks-, vöru- eða sendiferðabifreiðar, skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð, sem fengið hefði viðurkenningu bæjarstjórnar. Enn fremur segir í þessari gr., að bæjarstjórn sé enn fremur, að fengnum till. hlutaðeigandi stéttarfélaga og samþykki samgmrn., heimilt að takmarka fjölda vörubifreiða í Reykjavík, og er þar sagt, að samgmrn. setji reglugerð með nánari ákvæðum um þessa takmörkun. Reglugerð um þessi lög var síðan sett í desember sama ár.

Eins og ég hef tekið fram, er þarna heimild til þess að takmarka fjölda vörubifreiða í Reykjavík. Nú sneri Bifreiðarstjórafélagið Hreyfill sér til hv. samgmn. Nd. á yfirstandandi þingi og fór þess á leit við n., að hún flytti frv., sem fæli það í sér, að einnig væri heimilt að takmarka fjölda fólksbíla, m.ö.o. fjölda leigubifreiða, í Reykjavík, hvort heldur eru fólks- eða vörubílar, m.ö.o., að þarna kæmi inn viðbótarheimild, sem gripi til fólksbifreiðanna, í staðinn fyrir að hin fyrri lögin voru eingöngu um vörubifreiðar.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt af samgmn. hv. Nd. að beiðni — eins og ég tók fram — stjórnar Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils, og er bréf stjórnarinnar prentað sem fskj. með frv. og hefur inni að halda rök fyrir nauðsyn þess, að þetta verði gert að lögum.

Eins og frv. var fyrst lagt fram í hv. Nd., var farið fram á, að lögfest yrði heimild til að takmarka fjölda leigubifreiða í Reykjavík eingöngu, að fengnum till. hlutaðeigandi stéttarfélaga, en breyttist í meðförum Nd. á þann hátt, að heimildin skyldi einnig ná til Hafnarfjarðar, Akureyrar og Siglufjarðar. Viðkomandi alþm. fluttu um þetta brtt., sem voru samþ., og þannig kom frv. til þessarar hv. deildar.

Samgmn. þessarar d. hefur haft þetta mál til athugunar á nokkrum fundum og leggur til, að það verði samþ. með nokkrum breytingum, sem prentaðar eru á sérstöku þskj. Einn nm., hv. 2. þm. S–M., var ekki á fundi, þegar málið var endanlega afgreitt.

Brtt. n. eru á þskj. 527, og vil ég nú leyfa mér að fara nokkrum orðum um þær.

Fyrri brtt. er í tveimur liðum, a- og b-lið. Í a-lið segir, að fyrir orðin „hlutaðeigandi stéttarfélaga“ kemur: hlutaðeigandi stéttarfélags og meðmælum bæjarstjórnar. Og í b-lið segir, að á eftir orðunum „stunda leigubifreiðaakstur“ komi: og eru fullgildir félagar í hlutaðeigandi stéttarfélagi. 1. gr. yrði þá, ef þessar brtt. n. yrðu samþ., á þessa leið:

„Samgmrn. er enn fremur heimilt, að fengnum tillögum hlutaðeigandi stéttarfélags og meðmælum bæjarstjórnar, að takmarka fjölda leigubifreiða í Reykjavík, í Hafnarfirði, á Akureyri og á Siglufirði, hvort heldur eru fólks- eða vörubifreiðar, annað hvort eða hvort tveggja. Óheimilt er þó að skerða atvinnuréttindi þeirra manna, sem á lögmætan hátt stunda leigubifreiðaakstur og eru fullgildir félagar í hlutaðeigandi stéttarfélagi, þegar lögin taka gildi.“

Önnur brtt. n. er sú, að á eftir 1. gr. komi ný grein, sem hljóði svo:

„Á eftir 1. gr. laganna komi ný grein, svo hljóðandi:

Leyfi til leigubifreiðaaksturs samkv. lögum þessum má einungis ráðstafa eftir reglugerð, sem samgmrh. setur, að fengnum till. hlutaðeigandi stéttarfélags. — Í reglugerðinni skal ákveðið, að við ráðstöfun slíkra leyfa skuli þeir, sem áður hafa stundað akstur leigubifreiða, sitja fyrir ettir starfsaldri, nema sérstakar ástæður mæli því í gegn, enda verði fyrir það girt, að atvinnuleyfin geti orðið verzlunarvara.“

Þetta má nú et til vill segja að hefði mátt setja í reglugerð, og Nd. sá ekki ástæðu til þess að taka upp neitt í þessa átt, en n. féllst á það undir meðferð:málsins, að réttara væri, að það kæmi fram í lögunum, hvað fyrir henni vekti, ef þessi lög yrðu samþykkt. Það er m.ö.o. ákveðið í þessari seinni gr., að leyfi til leigubifreiðaakstursins samkv. lögum þessum megi einungis ráðstafa eftir reglugerð, sem sett verður. Þá segir einnig, að í reglugerðinni skuli ákveðið, eins og ég tók fram áðan, „að við ráðstöfun slíkra leyfa skuli þeir, sem áður hafa stundað akstur leigubifreiða, sitja fyrir eftir starfsaldri, nema sérstakar ástæður mæli því í gegn, enda verði fyrir það girt, að atvinnuleyfin geti orðið verzlunarvara.“

Nú segir í 1. gr., að óheimilt sé að skerða atvinnuréttindi þeirra manna, sem á lögmætan hátt stunda leigubifreiðaakstur, þegar lögin taka gildi. En með þessu seinna ákvæði er ákveðið, hverjir fá leyfi til leigubifreiðaaksturs, eftir að reglugerð hefur verið sett í fyrsta sinn, þ.e.a.s. allir, sem stunda þennan atvinnurekstur á lögmætan hátt, þegar lögin taka gildi. Ákvæðið í annarri till. n. á þess vegna aðallega við þau leyfi, sem af einhverjum ástæðum losna, eftir að lögin hafa tekið gildi, og er sagt, að þeir, sem áður hafa stundað leigubifreiðaakstur, sitji fyrir eftir starfsaldri, nema sérstakar ástæður mæli því í gegn. Það, sem vakti fyrir n. að víkja frá fastri reglu um starfsaldurinn, var það, að svo gæti staðið á í einstaka tilfellum, að maður væri ekki fær um eða illa fær um að stunda aðra atvinnu en bifreiðaakstur, og væri þá sanngjarnt, að eldri umsækjendur yrðu látnir víkja fyrir slíkum manni, þó að yngri væri sem bifreiðarstjóri. Það er m.ö.o. ætlazt til þess, að þetta verði skýrt tekið fram í væntanlegri reglugerð, sem um þetta yrði sett.

Ég hef þá farið nokkrum orðum um frv. sjálft og brtt., sem samgmn. leggur til að verði samþ., og eins og ég tók fram áðan, leggur n. til, að frv. verði samþ. með þessum breytingum, en einn nm., hv. 2. þm. S-M., var ekki á nefndarfundi, þegar málið var endanlega tekið til afgreiðslu.

Það hefur komið fram, að nokkuð eru skiptar skoðanir um þetta mál, og er það í sjálfu sér ef til vill ekki óeðlilegt. Það, sem fram hefur komið opinberlega af mótmælum um þetta mál, er frá starfandi bifreiðarstjórum á bifreiðastöð Steindórs, en mótmæli þau hafa legið frammi á lestrarsal nú um nokkurn tíma. Þá barst í gær, eftir að n. hafði gengið frá nál. og gengið frá málinu. að öllu leyti frá sinni hendi, bréf frá bifreiðarstjórum í strætisvagnastjóradeild Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils, og mótmæla þeir eindregið, að frv. þetta nái samþykki, og skora á hv. Ed. Alþ,, eins og segir í formála bréfsins, að fella málið.

Mér þykir rétt aðeins að minnast á þetta., vegna þess að þetta bréf hefur ekki legið frammi á lestrarsal. Það er sent til samgmn. beint, kemur í mínar hendur í gær, og ég hef ekki haft. möguleika til þess að kalla nefndina saman til þess að kynna henni þessi nýju mótmæli„ sem þarna koma fram. En það, sem segir í formála fyrir þessu bréfi, finnst mér vera nokkuð á misskilningi byggt, þannig að þeir hafi ekki verið búnir að kynna sér nákvæmlega þetta mál eins og það nú liggur fyrir, þar sem þeir segja, að ef frv. þetta yrði samþ., geri þeir ráð fyrir, að þá yrðu bifreiðarstjórar strætisvagnastjóradeildar Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils sviptir. rétti til þess að mega stunda leigubifreiðaakstur, en í brtt. n., eins og ég hef þegar tekið fram, er það skýrt tekið fram, að enginn, sem stundar þennan atvinnurekstur á lögmætan hátt, þegar lögin taka gildi, skuli sviptur þeim rétti. Ummæli þessara manna um þetta atriði virðast því ekki á rökum reist.

Að öðru leyti vil ég ekki fara mikið út í þetta mál á þessu stigi. Það gefst ef til vill tækifæri til þess síðar að athuga það, en ég vildi sem sagt aðeins minnast á þetta bréf, þar sem það er svona undir komið eins og ég hef lýst og seint fram komið. Ég vil endurtaka það, að samgmn. leggur til, að þetta frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem hún hefur gert á því og ég hef nú skýrt.