31.03.1955
Efri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ræða hv. þm. N-M. gæfi vissulega tilefni til ýmissa hugleiðinga og athugasemda. En mér finnst nú varla, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, gefi tilefni til þess að ræða um það í alvöru, hvort tímabært sé eða nauðsyn til að setja almennar reglur eða löggjöf um það, hvernig landsfólkið skuli skiptast niður í hinar mismunandi atvinnugreinar. Það mál, sem hér um ræðir, er svo lítill þáttur í því miklu stærra málí, sem hv. ræðumaður drap á, að það gefur varla tilefni til að fara út í almennar umræður um það. En lokaorð hans í ræðu sinni áðan, að það væri þýðingarlítið að leyfa mönnum að taka próf, sem gæfi rétt til bifreiðaaksturs, leigubifreiðaaksturs, ef svo ætti að banna þeim að stunda þessa atvinnu, virtust vera byggð á misskilningi. Ég hygg, að það sé réttur skilningur minn, að þetta frv. sé eingöngu bundið við það að stunda akstur með eigin bifreið, þ.e.a.s., að bifreiðarstjórinn leggi sér sjálfur til atvinnutækið, því að það hefur engin áhrif á starfsemi þeirra bifreiðarstjóra, hygg ég, sem starfa t.d. við stöð eins og bifreiðastöð Steindórs, þar sem þeir eru að vinna fyrir ákveðið kaup, en bifreiðarnar eru gerðar út af eiganda stöðvarinnar. Þeir halda að sjálfsögðu sínum réttindum til þess að stunda leigubifreiðaakstur í þjónustu annarra manna, þó að þetta frv. hér verði að lögum.

Það, sem hér er um að ræða, er því aðeins að setja vissar takmarkanir fyrir því, að menn geti stundað bifreiðaakstur á eigin bifreiðum, þ.e.a.s. með eigin útgerð, umfram það, sem til er ætlazt í lögunum.

Ég skal fullkomlega játa, að það er nokkuð til í því, sem hv. þm. hélt hér fram, að það er að ýmsu leyti varhugavert að setja slíkar takmarkanir sem þessar, vegna þess að það getur farið svo, að sá hópur manna, sem stundar þessa atvinnu, hafi tilhneigingu til þess að loka að sér og skapa þannig óeðlilega sterka aðstöðu til að taka of háa greiðslu fyrir sina þjónustu. Hins vegar virðist mér, að brtt. hv. n. dragi úr þessari hættu.

Fyrsta brtt. er þess efnis, að þegar ríkisstj. setur reglur um fjölda bifreiða, þá eigi ekki einasta að fá tillögu frá hlutaðeigandi stéttarfélögum, heldur einnig meðmæli bæjarstjórnarinnar. Þ.e.a.s., það eru þrír aðilar, sem koma til, áður en þessi takmörk eru ákveðin. Í fyrsta lagi koma tillögur frá þeim, sem atvinnuna stunda, í öðru lagi sé leitað umsagnar bæjarstjórnar í hlutaðeigandi sveitarfélagi, og loks er á valdi ráðherra að meta það, hvort þessi takmörkun sé eðlileg.

Ég tel, að þessi breyting frá hv. samgmn. sé til bóta og að miklu minni ástæða sé til að óttast, að þessi takmörkun valdi erfiðleikum og vandræðum, ef sú till. verður samþykkt.

Það er ekkert óeðlilegt, að stéttarfélagið sjálft geri sínar tillögur um, hvað það álítur um, hvað eðlilegt sé að margir stundi þessa starfsemi. Síðan er það hlutverk hlutaðeigandi bæjarstjórnar, sem á sjálfsagt að þekkja bezt til í bænum, að segja sitt álit, og loks er svo samgmrh. að ákveða þá endanlegu niðurstöðu. Ég held, að það sé núna þannig frá þessu gengið, að það sé a.m.k. engan veginn meiri hætta en nú er og jafnvel öllu minni á því, að þessi takmörkun verði misnotuð. Þessi brtt. er því að minni hyggju til bóta.

Um b-liðinn hef ég ekkert að segja. Það er nánast orðalag. Það hefur að sjálfsögðu verið skilið svo, að gert væri ráð fyrir því, enda mun það almennt vera svo, að bifreiðarstjórarnir eru meðlimir í sínu stéttarfélagi, svo að það er víst engin breyting frá því, sem nú er.

Í sambandi við till. um nýja gr. til viðbótar langar mig til að spyrja hv. frsm. í fyrsta lagi: Með hverjum hætti hugsar n. sér að það verði tryggt, að atvinnuleyfin geti ekki orðið verzlunarvara? Ég spyr þessa að gefnu tilefni. Það er vitað, að stöðvarpláss núna ganga kaupum og sölum fyrir býsna háar upphæðir, mér er sagt 15–20 þús. kr. á þeim stöðvum, sem hafa starfað hér í nokkur ár. Nú mun vera ný stöð að byrja sína starfsemi, og er mér ekki kunnugt um, hvort hún tekur nokkur ákveðin gjöld eða hvort það er með öðrum hætti. En ég hygg, að eldri stöðvarnar hafi heimtað ákveðna greiðslu til þess að hleypa mönnum inn á stöðina.

Ég þekki þetta nokkuð, vegna þess að Tryggingastofnunin hefur nú upp á síðkastíð veitt nokkrum öryrkjum lítils háttar lán til þess að eignast bifreiðar og stunda bifreiðaakstur frá stöð. Mér er kunnugt um, að ýmsir þessara manna, hafi þeir ekki haft stöðvarpláss áður, hafa þurft að greiða milli 10 og 20 þús. kr. til þess að komast inn á stöðina. Þetta er að minni hyggju fjarri öllu lagi og skynsemi, að stöðvunum geti haldizt þetta uppi.

Hér er sagt í 2. brtt., að girt skuli fyrir það, að atvinnuleyfi geti orðið að verzlunarvöru. En hv. frsm. gerði á engan hátt grein fyrir því, á hvern hátt þetta skyldi tryggt, og mér er ekki alveg ljóst heldur, hvernig það verður gert, ef ekki verður sérstakt eftirlit sett á stöðina með þetta og fylgzt með af opinberum aðila í hvert skipti, sem stöðvarleyfi flytjast á milli manna eða ný leyfi eru gefin út.

Í öðru lagi er gert í þessari grein ráð fyrir því, að þeir, sem stundað hafa akstur leigubifreiða, skuli sitja fyrir eftir starfsaldri, þegar leyfum er ráðstafað samkv. reglugerðinni, sem gert er ráð fyrir að setja. Í sjálfu sér finnst mér þetta ekki óeðlilegt. Mér finnst alveg eðlilegt, að ef bifreiðarstjóri, sem hefur stundað leigubifreiðaakstur fyrir kaup í annars manns þjónustu, eignast sjálfur bifreið, þá gangi hann fyrir ýmsum öðrum við að fá leyfi til að starfa með sinni bifreiðastöð. En mér finnst þetta þó nokkuð þröngt, vegna þess að mér finnst, að leigubifreið takmarki þetta of mikið. Strætisvagnar t.d. mundu ekki vera kallaðir leigubifreiðar. En er það ekki fullkomlega eðlilegt, ef strætisvagnstjóri eignast sjálfur bíl og vill taka upp akstur á eigin bifreið, að hann komi í svipaðri röð og aðrir, sem hafa stjórnað leigubifreiðum áður? Og sama mætti einnig segja um þá bílstjóra, sem hafa verið bílstjórar á langferðaleiðum, á „rútubílum“ svokölluðum, sem ég er ekkert víss um að falli undir þetta ákvæði. Ég ber ekki fram brtt. um þetta. En ég held vegna þess bréfs, sem hv. frsm. drap á að borizt hefði frá félagi strætisvagnstjóra, að eðlilegt sé, að athugað verði orðalagið á þessu, hvort ekki mætti hafa þetta nokkru rýmra. Ég sé engan mun á því, hvort bifreiðarstjóri hefur stundað leigubifreiðaakstur t.d. á stöð Steindórs og fái að koma inn í röðina samkv. því eða hvort hann hefur verið strætisvagnstjóri eða bílstjóri á langleiðabifreiðum. Mér finnst, að þessir menn ættu að koma til greina allir nokkurn veginn jafnt.

Ég tel, að þær brtt., sem fluttar eru af n., séu til bóta, og með þeim ákvæðum, sem sett eru nú í 1. gr. frv., eigi ekki að þurfa að óttast, að þessi takmörkunarréttur verði nokkuð misnotaður, þar sem það er bæði hlutaðeigandi bæjarstjórn og ríkisstj., sem hafa síðasta orðið um það, hversu stranglega takmörkununum er beitt.