31.03.1955
Efri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það hljóta allir að vera sammála um, að það sé út af fyrir sig lítt æskilegt að setja slíka takmörkun á atvinnuréttindi manna eins og gerð er í þessu lagafrv., en þó dylst mér ekki, að ríkar ástæður hafi verið færðar fram fyrir nauðsyn þess. Og et menn meta, að slík nauðsyn sé fyrir hendi, þá er það auðvitað mesti misskilningur, að það sé brot á stjórnarskránni að setja slíkar takmarkanir. Það er einmitt gert ráð fyrir því, ef nauðsyn er fyrir hendi, að þá sé heimilt að setja þær.

En ég tek undir það með hv. 4. þm. Reykv., að sérstök hætta hlýtur að skapast á því, að stöðvarleyfi séu seld. Og ég læt mjög uppi efa um það; að nokkurn tíma verði til fulls hindruð slík sala. Við þekkjum það frá öllum slíkum leyfisveitingum, að sala á leyfum á sér stað, og ég kann engin ráð til hlítar til að hindra það. Ég er því sammála, að gerð sé tilraun til þess, eftir því sem föng eru á, og ég skil brtt. n. svo, að samgmrn. eigi í reglugerð að setja þau ákvæði, sem það bezt veit til að koma í veg fyrir slíka misnotkun. Það er ekki á okkar færi í dag að segja til um, hvernig þau ákvæði eigi að vera í einstökum atriðum, en ég geri mér alveg ljóst, að hvernig sem að verður farið, þá verður mjög erfitt að komast fram hjá því, að einhver sala á réttindum kunni að eiga sér stað.

Um málið almennt skal ég ekki segja meira á þessu stigi, annað en það, að ég get ekki skilið, að það sé frekar hægt að standa á móti takmörkun á að aka leigubifreiðum til fólksflutninga heldur en á slíkum takmörkunum á leyfum til aksturs vöruflutningabifreiða. Mér skilst, að það hljóti svipaðar reglur að koma til greina um hvort tveggja, og ég sé mér ekki fært að standa á móti þessu, úr því að búið er að setja slíkar takmarkanir á um vörubifreiðarnar, enda er mönnum auðvitað mjög lítill greiði gerður með því að heimila þeim að stunda atvinnu, ef það verður til þess, að enginn hefur af því fullt framfæri og allt lendir í margháttuðu öngþveiti. Einnig ber á það að líta, að hætta á lögbrotum í sambandi við þennan atvinnurekstur hlýtur mjög að fara vaxandi eftir því, sem erfiðara er fyrir menn að hafa ofan af fyrir sér með eðlilegum hætti við að stunda hann. — Ég tel þetta sem sagt ekki meiri takmörkun en þegar hefur átt sér stað varðandi vörubifreiðarnar og hefur átt sér stað varðandi langferðaleiðir, sem lúta sérleyfum og margir voru á móti, þar á meðal ég, þegar þau ákvæði voru sett, en ég játa það, að nú virðast engir vilja leggja til, að þær takmarkanir séu niður felldar, vegna þess að það hefur komið í ljós, að sú takmörkun, sem sett var, hefur orðið til góðs. Þó að henni séu ýmsir ókostir samfara, þá hefur hún frekar orðið til góðs en ills.

Þessi mál verður að skoða hverju sinni eftir því, sem atvik standa til, en ekki hægt að segja fyrir fram, að einhver ein allsherjarregla hljóti að gilda.

Ég hefði ekki tekið til máls um þetta málefni, ef ekki hefði komið fram brtt. frá hv. n., sem ég vildi óska nánari skýringar á og get ekki með neinn móti samþykkt, nema mér sé gerð fyllri grein fyrir henni en ég hef enn heyrt. Það er b-liður í fyrri brtt. nefndarinnar.

Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar 1. gr. frv. svo nú, niðurlagið:

„Óheimilt er þó að skerða atvinnuréttindi þeirra manna, sem á lögmætan hátt stunda bifreiðaakstur, þegar lögin taka gildi.“

Í greininni, eins og hún er þarna orðuð, er mjög skýrlega tekið fram, að ekki megi skerða atvinnuréttindi, og réttindi eiga menn ekki, nema því aðeins að lög standi til. En til viðbótar er lögð á ríkari áherzla og sagt: „atvinnuréttindi þeirra manna, sem á lögmætan hátt stunda bifreiðaakstur“.

Mér virðist það alveg ljóst, að ef ætti að skerða réttindi manna, sem á lögmætan hátt stunda bifreiðaakstur, hlýtur mjög mikið að þurfa að koma til. En n. vill höggva hér skarð í og láta bæta við: „og eru fullgildir félagar í hlutaðeigandi stéttarfélagi“.

Ég tel, að þessi takmörkun sé ákaflega hæpin. Ef það er í fyrsta lagi, að mennirnir hafa atvinnuréttindi nú þegar, og til viðbótar, að þeir stunda atvinnuna nú þegar á lögmætan hátt, hvaða ástæða er til að krefjast nokkurs umfram það? Ég sé ekki, að löggjafinn geti út af fyrir sig gengið lengra en að krefjast þess tvenns, að maðurinn hafi atvinnuréttindi og hafi stundað atvinnuna á lögmætan hátt. Að gera frekari kröfur þarna finnst mér vægast sagt ákaflega hæpið. Ef mennirnir hafa fram að þessu haft þessi atvinnuréttindi og stundað aksturinn á lögmætan hátt án þess að vera í stéttarfélaginu, þá sé ég ekki, af hverju á að svipta þá þeim rétti héðan í frá. Ef stéttarfélagið hefur ekki haft aðstöðu til þess að takmarka þeirra störf fram að þessu, þá finnst mér ekki standast að gera það að þessu sinni. Og ég vil vekja athygli á því, að það er einungis miðað við þá, sem nú stunda atvinnuna á lögmætan hátt, þannig að það er ekkert miðað við framtíðina, heldur einungis miðað við þá, sem nú eru í þessu starfi.

Ég verð að segja, að ef ég fæ ekki frekari skýringar á því, af hverju þetta ákvæði er tekið inn, sem n. gerir nú brtt. um, þá finnst mér það með öllu óviðeigandi. Og mitt erindi hingað var að óska eftir skýringum frá hv. n. á þessu ákvæði, sem mér kemur mjög spánskt fyrir sjónir.