31.03.1955
Efri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Fram. (Sigurður Ó. ólafsson):

Herra forseti. Það hefur nú komið, sem eðlilegt er, ýmislegt fram í þeim umr., sem hér hafa orðið um þetta frv., og skal ég nú með örfáum orðum víkja að þeim fyrirspurnum, sem hafa komið til nefndarinnar viðvíkjandi málinu.

Það er þá fyrst það, sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. Hann bað um skýringu á því, hvernig stæði á brtt. n., þar sem því er bætt við í 1. gr., að þeir, sem þessi réttindi eigi að öðlast, skuli auk þess að stunda þessa atvinnu á lögmætan hátt vera fullgildir félagar í hlutaðeigandi stéttarfélagi.

Um þetta er það að segja, að þegar n. var að ræða þetta atriði, þá var það föst hugmynd hennar og ætlun, að enginn þessara manna, sem þannig væri ástatt um, þegar lögin taka gildi, að þeir stunduðu leigubifreiðaakstur á lögmætan hátt, þ.e.a.s., að þeir væru á bifreiðastöð, sem væri viðurkennd af bæjarstjórninni, missti neins í við samþykkt laganna hvað réttindi snertir. Nú getur það vel verið, að allir þeir, sem stunda á þessum tíma atvinnu þessa á lögmætan hátt, séu lögmætir félagar í hlutaðeigandi stéttarfélögum, og þá verður afleiðing af því sú, að þetta. gæti verið óþarfaviðbót. Ég skal ekki segja um það. En n. féllst á að setja þetta inn til þess að fyrirbyggja það, að menn, sem þannig stæði á um, að þeir væru ekki taldir stunda atvinnureksturinn á þennan hátt, sem þarna er talað um, en væru þó bifreiðarstjórar og félagar í stéttarfélaginu, misstu neins í við þetta. En n. hefur ekki rannsakað þetta, hvort allir menn, sem þetta mundi snerta, eru fullgildir félagar í stéttarfélagi, og ef það væri, þá mætti segja, að þessa ákvæðis væri ekki þörf.

Það er nú ýmislegt fleira, sem ég hefði viljað koma inn á viðvíkjandi þessu. Mér finnst þetta vera tekið nokkuð stíft, þar sem talað er um stjórnarskrárbrot í sambandi við þetta og ýmislegt annað. Frá mínu sjónarmiði er þetta þannig, að þetta sé miklu fremur skipulagsatriði heldur en takmörkun. Nú eru hér í Reykjavík um 500 leigubifreiðar, sem stunda þessa atvinnu, fyrir utan allar bifreiðar aðrar, og það, sem vakir fyrir þessum mönnum, sem hafa beitt sér fyrir þessu máli, er það, að þetta sé a.m.k. nóg fyrir þann mannfjölda sem nú er í bænum. Ef þetta væri sem sagt skipulagt á þennan hátt, að þessi fjöldi bifreiða héldi sér við sama fólksfjölda, en yrði svo aukinn, ef fólki fjölgaði eða eitthvað breyttist, þannig að nauðsyn væri á, að bifreiðarnar yrðu fleiri, þá er vitanlega alltaf opin leið að gera það. Það eru ekki bifreiðarstjórarnir sjálfir, sem eiga þarna fullan rétt og geta ráðið þessum málum, heldur er, eins og margoft er búið að benda á, þarna um að ræða till. stéttarfélagsins, meðmæli bæjarstjórnar og síðan ráðuneytið, sem á að ákveða um þetta. Það er því ekki hægt að segja, að það séu bifreiðarstjórarnir einir, sem þarna eigi hlut að máli og ráði þessu. Þetta er þess vegna frá mínu sjónarmiði miklu frekar skipulagsatriði en hættuleg takmörkun á athafnafrelsi manna, og að leggja þetta að líku við bændur og þeirra starf og annað slíkt, eins og hér hefur komið fram, finnst mér ekki ná neinni átt og vera alls ekki sambærilegt.

Beinar fyrirspurnir, sem fram hafa komið til n., vil ég athuga nokkuð. Um fyrirspurn frá hv. 4. þm. Reykv. (HG) um það, á hvern hátt nefndin hefði hugsað sér að koma í veg fyrir, að stöðvarleyfi yrðu seld, er það að segja, að nefndin ræddi þetta atriði nokkuð. Vitanlegt er, eins og hæstv. dómsmrh. kom inn á viðvíkjandi þessu atriði, að það er illt að koma í veg fyrir svona lagað að öllu leyti. En ástandið er þannig núna samkv. því, sem hv. 4. þm. Reykv. upplýsir, og ég skal ekki rengja það, sem hann tók fram, að stofnun sú, sem hann veitir forstöðu, hefði lánað bifreiðarstjórum til þess að kaupa bíla, mönnum, sem voru öryrkjar og þurftu að komast í þessa atvinnu, en þá upplýsir hann um leið, að það kosti um 10–20 þús. kr. að komast inn á stöð. Ef þetta er ástandið í dag, finnst hv. þm. þá ekki ástæða til þess að gera einhverja tilraun til þess að laga þetta? Nú skal ég ekki segja um það, að þetta frv. nái því, að þetta verði lagað. En ég vil benda á það, sem kom fram undir umr. í samgmn., að ef reglugerð verður sett um þetta, þá er hugmyndin, að ákvæði um þetta verði sett þar, og við skulum hugsa okkur þá á þann hátt, að bifreiðarstjórafélagið, stéttarfélag þessara manna, hvort sem það starfar í einni deild eða fleirum, fái alltaf leyfi, sem losna, í hendur. Úthlutar stjórn félagsins þeim þá eftir vissum viðurkenndum reglum, sem settar eru í reglugerð, sem byggð verður á þessum lögum. Ef hægt er að koma þessu þannig fyrir, að um leið og hreyfingar eru á leyfunum, þá komi hvert einasta leyfi í hendur stjórnar félagsins og hún úthluti þeim eftir þessum reglum, sem minnzt hefur verið hér á, annaðhvort eftir starfsaldri eða eftir öðrum ástæðum, sem geta verið fyrir hendi, t.d. þeim, sem komu fram hjá hv. þm. Barð. viðvíkjandi öryrkjum, og ég skal sízt hafa á móti því, þá álít ég, að þarna sé einmitt kominn hemill á það, að viðkomandi leyfi verði seld. Og þetta atriði er ekki svo lítils virði. Væri mikið fengið, ef hægt væri að kippa þessu í lag, því að samkvæmt þeim upplýsingum, sem hér hafa fram komið, virðist liggja ljóst fyrir, að ef maður hefur að öðru leyti möguleika til að komast inn á bifreiðastöð og fá þar ökuréttindi, verði hann að borga fyrir það háa upphæð.

Nú getur skeð, að það sé einhver afsökun hjá þeim stöðvum, sem selja þessi leyfi. Ég skal ekki segja um það. Vitanlegt er það, að bifreiðastöðvarnar í Reykjavík gera mjög mikið til þess að auka og bæta þjónustu sína við fólkið. Og ég verð að segja um óbeinar spurningar og bollaleggingar, sem hafa komið fram í þessum umræðum, hvort samþykkt þessara laga yrði til þess, að þjónustan yrði enn verri en hún hefur áður verið, að þetta er áreiðanlega ekki hugmynd þessara manna og það er allt annað, sem kom fram í samgmn. undir meðferð málsins, þegar það var þar til athugunar. Við skulum hugsa okkur bifreiðastöð, sem stofnuð er hér í bænum og hefur 100 bíla, til þess að við segjum eitthvað, og þá er það þannig og staðreynd og búið að framkvæma það hér nú þegar, að þessar stöðvar hafa sett upp nokkurs konar útibú, ef ég má svo að orði kveða, víða um bæinn. Þær hafa gert mjög mikið til þess að auka simakerfi, þannig að nú er það hjá nokkrum stöðvum og kannske flestum stærri stöðvunum, sem eru hér í bænum, að þetta er þannig, að þó að maður sé staddur vestur í bæ og hringi á stöð, sem hefur afgreiðslu hér niðri í bæ eða austur í bæ, þá getur hann tekið bifreið, sem er staðsett á stað rétt þar sem hann hringir. Þetta er aukin þjónusta, og þetta hlýtur að kosta mikið fé hjá bifreiðastöðvunum, og einhvers staðar verða þær náttúrlega að fá það fé upp borið.

Mér er ókunnugt um, hvort það eru stöðvarnar sjálfar, sem selja þessi leyfi, eða eigendurnir, sem eru af einhverjum ástæðum að losa sig við þau, hætta starfsemi eða annað slíkt. Ég skal ekki segja um það. Mér er ekki kunnugt um það, hver selur leyfin. En ef það væri frá stöðvunum sjálfum, þá væri það að þessu leyti skiljanlegt, sem ég tók fram, að hafa eitthvað upp í þann kostnað, sem stöðvarnar hljóta að hafa. Og úr því að ég er nú kominn út í að tala um þjónustu þessara manna við almenning, þá verð ég að segja það, um leið og mér dettur í hug það, sem hv. 1. þm. N-M. var að tala um „harkara“, og sagði, að það væru menn, — og það er víst alveg rétt hjá honum, — sem hafa ekki afgreiðslu eða reyna a.m.k. að koma sér hjá að hafa afgreiðslu á stöðvunum, en stunda þessa atvinnugrein samt, að mér fyndist nú, ef ég ætti að velja um og þyrfti á þessari þjónustu að halda, að ég mundi heldur fara í opinbera bifreiðastöð og fá mér bíl þar en að fara eitthvað út á götu og fá bíl, sem væri ekki á neinni stöð og ég hefði ekki neina hugmynd um. Ég efast ekkert um það, að þeir menn, sem að þessum málum standa, óska eftir því að gera þjónustuna við fólkið sem bezta og bæta hana einmitt með þessari braut, sem þeir eru að reyna að fara inn á með samþykkt þessa frv. Nú er sagt, að þurfi að biða eftir bílum í klukkutíma á næturnar til að fá þá. Ég veit ekki, hvort það er rétt. Ég hygg, að bifreiðastöðvar hafi opið allan sólarhringinn, a.m.k. ein eða kannske tvær á hverri nóttu, — ég hef ekki kynnt mér það, — en ég geri ráð fyrir því, að það sé svo. En þessi þjónusta verður vitanlega ekki látin í té nema með auknum kostnaði og skipulagningu. Og ég vil benda á það í þessu sambandi, að stöðvarbílstjórar hafa sagt við mig, að það komi þrávaldlega fyrir, að ýmsir munir séu skildir eftir í bifreiðum, e.t.v. verðmiklir munir, sem bílstjórarnir á stöðvunum skila vitanlega á stöðina, og svo ef maðurinn, sem hefur gleymt þessu, man það, hvaða bílstöð hann skipti við, þá þarf hann yfirleitt ekki annað en að ganga niður á viðkomandi stöð og spyrja um þennan hlut, og þá fær hann hann, hann er þar geymdur. En ef viðkomandi maður skiptir t.d. við bíl eða mann, sem hefur ekki afgreiðslu á neinni stöð, þá hefur hann ekki neina hugmynd um, hvert hann á að snúa sér, sé um slíkt að ræða. Þetta er aðeins eitt dæmi, sem ég bendi á í sambandi við þetta, hver nauðsyn er á því, að þessi mál verði vel skipulögð og að það sé vel hugsað um og búið að þessu, og ef bifreiðarstjórar sjálfir ætla að reyna að bæta um þetta, að það sé ekki settur fyrir þá fótur hvað þetta snertir og þeim gert ómögulegt með umbætur á þessu sviði, því að það vitum við, að bifreiðarstjórastéttin gegnir það ábyrgðarmiklu starfi, að hún hefur líf og öryggi þúsunda manna í höndum sér á hverjum einasta degi, — þúsunda manna, — og það er í allra þágu, að þessir menn séu starfi sínu vaxnir, sem þeir líka eru, og að einhver öfl haldi þeim saman og gefi þeim alltaf það til kynna og láti þá vera vakandi um þá ábyrgð, sem hvílir á þeim í þessu starfi.

Það kom fram, að strætisvagnar væru ekki taldir leigubifreiðar í þessu sambandi. Ég hygg, að þeir séu einmitt taldir leigubifreiðar, svo að þeir, sem aka þeim núna, eigi ekki að missa nein réttindi, þó að þessi lög yrðu samþykkt.

Hv. þm. Barð. spurði um það m.a. eða sló því fram, hvaða ástæða væri til þess, að ásóknin væri svona mikil í þessa stétt núna. Ég er ekki tilbúinn til þess að svara þessu núna, og ég geri ráð fyrir því, að það sé ekki á valdi þingnefndar með takmörkuðum tíma að eiga að fara að grafast fyrir ræturnar á því, hver sú ástæða er. En yfirleitt er ástæðan fyrir því, að menn sækja i eina stétt, hagnaðarvon. Yfirleitt er það alltaf undirrótin. Ef ekki væri hagnaðarvon fyrir mann að kaupa sér bíl fyrir 100 þús. kr., þá mundi hann ekki gera það, svo að ég geri ráð fyrir því, að það sé hagnaðarvonin, sem þarna rekur á eftir. Eftir því sem kemur fram í grg. bifreiðarstjórafélagsins, sem fylgir frv. eins og það er lagt fram fyrst, þá kemur það einmitt fram, að það sé hagnaðarvonin, sem ýtir mönnum út í þetta starf, en hún því miður bregðist mjög oft.

Hv. 1. þm. N-M. minntist í síðustu ræðu sinni á það eða sló fram þeirri spurningu, hvort þetta væri gert til þess að færa bifreiðarnar yfirleitt yfir á eina hönd. (Gripið fram í.) En þetta er alls ekki hugmyndin. Það kom einmitt fram í n. undir meðferð málsins, að stjórn Hreyfils, sem mætti þar hjá okkur, var að gefnu tilefni spurð að því, hvað mikil brögð væru að því, að einstakir menn ættu fleiri bíla en einn á stöð. N. fékk þær upplýsingar, að það væru ekki meira en einn eða tveir menn, fyrir utan Steindór Einarsson, sem ættu fleiri bíla en einn bíl, og þá eitthvað tvo eða þrjá bíla. Ég veit ekki, hvað Steindór Einarsson á marga bíla núna, en það er ekki hugmyndin að fækka þeim fyrir honum eða fjölga, og sízt að taka einkabíla frá mönnum, sem aka þeim sjálfir, og bæta við bílum til bílaeigenda, sem eiga marga, t. d. Steindórs.

Þá kem ég loks að því, sem hv. þm. Barð. kom inn á, að það væri ekki rétt, sem stæði í frv., sem flutt var fyrst í Nd., eins og þar segir, að það hafi verið stjórn Hreyfils, sem bað um þetta. Ég get ekki svarað því á annan hátt en þann, að þingskjalið segir þetta. Það er lagt fram fskj., sem er undirritað af Bergsteini Guðjónssyni f.h. Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils. Þannig kemur það hingað til þessarar hv. d., þannig liggur það fyrir samgmn., og þannig starfar hún að því. Ef þetta er ekki rétt, þá er það eitthvað, sem hefur a.m.k. aldrei legið fyrir n., og segi ég ekki annað um það. En mér þykir nokkuð undarlegt, að þetta skuli þá koma svona seint fram. Þó að ég viti ekki um það upp á víst, þá þykir mér ekki ótrúlegt, að fyrir þessu geti legið einhverjar skýringar, t.d. þær, að þetta bifreiðarstjórafélag starfar í þremur deildum og þetta sé stjórn einnar deildarinnar eða eitthvað slíkt. Ég þori ekki að segja um þetta, en mér þykir það trúlegt, að þetta geti verið skýring á þessu. En þá verður að fá skýringu á því, hvort þessi deild er bær um að biðja um, að þetta frv. verði flutt f.h. félagsins, en hún hlýtur að vera bær um það f.h. sinnar deildar. En þetta er hægt að athuga.

Ég vil svo að lokum segja það, að til þess að athuga þetta nokkru betur vil ég verða við tilmælum hæstv. forseta, að þessari umr. verði frestað núna, og skal þá halda einn fund með nefndinni á eftir þessari umr., ef eitthvað hefur komið fram, sem n. álítur að hún vildi taka upp í þessu máli.