14.04.1955
Efri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef víst ekki nema stuttan tíma og skal þá líka reyna að vera stuttorður. Ég var búinn að benda á það áður, að ég tel þetta frv., sem hér liggur fyrir, vera brot á stjórnarskránni. Ég var búinn að benda á það áður, hvernig þjóðin skiptist í flokka eftir atvinnu og að sá flokkur, sem vinnur að samgöngumálum í landinu, er ekki það fjölmennur, að það virðist vera ástæða til þess sérstaklega að skerða hann. Meðan ýmsir aðrir eru til muna fjölmennari, virðist meiri ástæða til þess að fækka þeim, eins og t.d. þeim, sem vinna að verzlun, sem er orðið níundi hver maður í þjóðfélaginu hér um bil, og þeim, sem vinna að opinberri þjónustu og orðnir eru nærri því 12% af þjóðinni. Ég skal þess vegna ekki fara meira út í það.

En það, sem ég nú sérstaklega vil benda á og biðja menn að athuga í þessum till., sem hér liggja fyrir, er það, að til viðbótar við það að brjóta stjórnarskrána og svipta menn atvinnufrelsi leggur n. til á þskj. 527, í b-lið, að sett sé hér á landi á bifreiðarstjóra — ja, ég vil kalla það átthagafjötur. Það er sett það ófrávíkjanlega skilyrði, til þess að bifreiðarstjóri megi komast að og keyra á stöð hér í Reykjavík, að hann sé í stéttarfélagi bifreiðarstjóra í Reykjavík. Sá maður, sem hefur verið suður í Keflavík, fæddur þar, uppalinn þar og hefur keyrt bíl þar, hefur enga möguleika til þess að komast að bílkeyrslu í neinum öðrum kaupstað í landinu. Hann er ekki í viðkomandi stéttarfélagi. Hann er ekki í stéttarfélagi norður á Akureyri, þó að hann vildi flytja þangað, og hann er ekki í stéttarfélagi manna í Reykjavík, þó að hann vildi flytja þangað. Hann getur það ekki, þó að aðstæðurnar séu þannig, að hann af einhverjum ástæðum þurfi þess, t.d. af því, að hann þurfi að vera undir stöðugri læknishendi sérfræðings, sem ekki er til nema hér, en geti þó keyrt bíl. Honum er það ekki hægt, ef b-liðurinn í till. á þskj. 527 yrði samþykktur. Það nær þess vegna ekki að mínum dómi nokkurri átt að vera bæði að svipta menn leyfi til þess að stunda sína atvinnu, þá atvinnu, sem þeir vilja stunda og hafa stundað, og enn síður hitt, að binda þá við það, að þeir megi ekki vera nema á þeim stað, sem þeir hafa verið á og eru fæddir á og uppaldir á og byrjuðu að aka á. Það kemur náttúrlega ekki til nokkurra mála. Þess vegna vænti ég þess, að b-liðurinn verði undir öllum kringumstæðum felldur. Hann á engan tilverurétt. Það er alveg nóg a.m.k. að svipta menn atvinnu, skerða atvinnufrelsi manna, sem er nú vafasamt hvort er hægt eftir stjórnarskránni, þó að það hafi verið gert í fyrra á Alþingi, þó að það sé ekki líka farið að setja á þá átthagafjötur, eins og gert er með tillögunni.

Svo vil ég einungis segja það viðvíkjandi því, sem frsm., 2. þm. Árn., sagði, að þetta, sem hér er verið að gera, á náttúrlega ekkert sambærilegt við áætlunarferðirnar að neinu leyti. Áætlunarferðirnar eru á Íslandi nákvæmlega sama og járnbrautaferðirnar í öðrum löndum. Það er skipulag, til þess að fólk geti ferðazt. Það er eins og skipsferðir á milli fjarða, elns og járnbrautir annars staðar og eins og strætisvagnarnir í Reykjavík. Munurinn er bara sá eini, — og þó er það nú ekki alls staðar, það eru víða „prívat“járnbrautir annars staðar, og það fá ekki aðrir að keyra járnbrautir á þeirri leið en þeir, sem hafa þær, — að það er ríkisvaldið, sem gefur einstaklingunum leyfi til þess að keyra eftir þessum brautum gegn því, að þeir skuldbindi sig til að gera það eftir vissum áætlunum og flytja alla farþega, sem eftir þeim leiðum vilja fara. Þetta er því ekkert sambærilegt við það að takmarka bílafjöldann í kaupstöðum yfirleitt. Náttúrlega er ég á móti lögunum. En ég vænti þess, þó að menn séu nú með því að fara að skipta sér af því, hvað einstaka menn geri hér á landi, og byrji á bílstjórunum, taki svo líklega næst kaupmennina og ákveði, að ekki megi vera fleiri búðir í Reykjavík en núna er, — það er núna 12% hér um bil af Reykvíkingum, sem lifa á verzlun, það er alveg nóg náttúrlega og mætti koma með frv. á eftir og ákveða, að ekki megi fleiri búðir opna í Reykjavík en nú eru og enginn geti byrjað á verzlun, nema þegar einhver hætti, — þá verði menn ekki með því að fara að setja á bílstjórana líka átthagafjötur, því að það kórónaði alveg vitleysuna, ef það væri gert.