19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Í brtt. á þskj. 582 er gert ráð fyrir, að aftan við 1. gr. frv. á þskj. 575 komi svo hljóðandi viðbót:

„Skylt skal leyfishafa að hafa jafnan til taks nægilegan bifreiðakost til þess að fullnægja eftirspurn á hverjum tíma á svæði því, er hann hefur fengið leyfi til að starfa á, enda sé hverjum manni heimilt að leigja sér bifreið frá öðrum, ef leyfishafi uppfyllir ekki þetta skilyrði.“

Ég vildi leyfa mér að gera þá athugasemd við þetta, að enda þótt það, sem vakir fyrir tillögumanni, virðist stefna í rétta átt, þá virðist mér till. vera dálítið óljós. Í tillögunni er talað um leyfishafa. En ef frv., eins og það liggur hér fyrir, yrði að lögum í svipaðri mynd og það er fram borið, hlýtur leyfishafi að vera fleiri en einn. Hins vegar er nauðsynlegt að búa svo um hnútana, að hér verði ekki um að ræða einokun tiltölulega fárra manna., sem haldi uppi verðinu fyrir þjónustuna, en fullnægi jafnframt ekki eftirspurninni.

Eftir að lögin nr. 23 16. febr. 1953, um leigubifreiðar í kaupstöðum, voru sett, setti samgmrn. reglugerð nr. 230 7. des. 1953, um hámarkstölu vörubifreiða í Reykjavík, þar sem sett eru ýmis ákvæði til að útiloka misferli og einokun. Mér finnst, að svipaða leið mætti fara, og finnst það væri heppilegra, ef frv. þetta verður samþ., að koma svipuðu efni og felst í brtt. í reglugerð, sem samgmrn. mundi væntanlega setja. Þar af leiðandi álít ég, að þessi viðbótartill. sé óþörf, því að það sé hægt að ná sama marki með því að gera örlitla breytingu á reglugerðinni.