19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Páll Zóphóníasson:

Þegar ég fyrst talaði í þessu máli hér í d., gat ég um það, að eina ástæðan til þess, að þetta frv. væri fram komið, væri, að því er mér væri sagt, sú, að til væru hér í bænum menn, sem gengju undir nafninu „harkarar“, og þessir menn hefðu það að atvinnu á kvöldin og aðallega seinni part dags að keyra um götur bæjarins og bjóðast til að keyra fyrir Pétur og Pál, sem þeir mættu, en hefðu ekki fast aðsetur á neinni stöð. Ég lét þá þau orð falla, að lögin frá því í fyrra, lög um leigubifreiðar í kaupstöðum, nr. 23 frá 1953, hefðu ekki verið framkvæmd að þessu leyti, og ég sagði þá, að ég héldi, að það hefði engin reglugerð verið gefin út eftir lögunum. Síðan sagði nú frsm. málsins, hv. 2. þm. Árn., að það mundi hafa verið gert, en þá reglugerð hef ég ekki lesið fyrr en nú. En í þeirri reglugerð er ekki minnzt á það, að bílarnir eigi að keyra frá stöð, ekki einu orði, og lögunum ekki framfylgt að því leyti til. Þetta frv. er þannig til orðið af því einu, að lögin frá því í fyrra hafa aldrei verið framkvæmd. „Harkararnir“ verða til af því, að þeim er leyft að fara um bæinn, þó að þeir hafi ekkert leyfi til þess eftir lögum, og dómsmrh., sem á að sjá um, að lögunum sé fylgt, og sá ráðh., sem fer með umferðarmál, á að setja reglugerð eftir þessum lögum. Reglugerðin hefur verið sett, en ekki hvað þetta snertir. Það er ekki tekið fram í reglugerðinni, að þeir eigi að keyra frá stöð, ekki einu sinni vörubilarnir. Þeir mega vera til húsa hvar sem þeir vilja með sína afgreiðslu.

Orsökin til þess, að þessi lög eru komin fram núna, er því sú, að það hafa ekki verið framkvæmd lögin, sem til eru. Þess vegna koma þessir bílstjórar og segja: Það er tekin frá okkur vinna af þessum „hörkurum“, og við höfum ekki nóg að gera, ekki nógar tekjur til að lifa af, svo að það verður að takmarka, hvað margir megi keyra leigubíla hér í bæjunum. En verða þá ekki „harkararnir“ til alveg jafnt eftir sem áður? Verður nú nokkuð gert til að afnema „harkarana“? Þeir eru til núna. Það er liðið heilt ár, og það hefur ekki verið hreyfð hönd né fótur til að afnema þá. Verða þeir þá ekki til alveg eins eftir sem áður, „harkararnir“? Ég er anzi hræddur um það, að þeir muni verða til alveg eins eftir sem áður. Meðan enginn treystir sér til að eiga neitt við þá, enginn kærir þá, enginn lætur þá verða fyrir sektum og ekki eru sett nein frekari ákvæði en nú eru, þá verður það alveg eins, lögin verða brotin og þeir keyra fyrir utan stöðvarnar og taka atvinnuna frá þeim, sem á þeim eru, hvort sem það verður ákveðið með þessa tölu eða hina töluna, sem megi keyra frá stöð. Á þetta vildi ég nú benda. Annars skal ég ekki vera að endurtaka það, sem ég hef sagt hér áður.

Ég tel, eins og ég hef áður sagt, að það liggi miklum mun nær að takmarka tölu annarra stétta í þjóðfélaginu en þessarar, sem ekkert hefur stækkað. Þrátt fyrir aukinn kost millilandaskipa, þrátt fyrir aukna bíla hefur hún sama sem ekkert stækkað s.l. tíu ár, meðan kaupmönnunum — þeim, sem lifa á verzlun — hefur fjölgað úr 7% í 9%. Ég spyr enn: þarf tíundi hver maður að lifa á verzlun? Er það umfangsmikið að afhenda hinum níu vörurnar, að einn maður komist ekki yfir það, þurfi að lifa á því? Eigum við ekki heldur núna að koma okkur saman um að búa til lög um, að það megi enginn maður opna búð hér eftir á Íslandi, nýja búð, þær séu orðnar nógu margar, og að það megi jafnvel fækka þeim, sem núna eru, svo að það verði ekki nema svona hæfilegur fjöldi — segjum helmingi færri — sem á því þurfi að lifa að afhenda hinum vörurnar? Eða þjónustufólkið, sem er orðið 11.8%, lifir á þjónustu, mest opinberri þjónustu, við aðra, í bönkum, sparisjóðum o.s.frv., eigum við ekki að búa til lög um að fækka því? Þurfa þeir virkilega að vera svona margir, sem stunda þessa þjónustu, þessi þjónustustörf?

Ef það á að fara að fækka í einni stéttinni og takmarka hana, þá er það alveg eins í mörgum fleiri. Og á þá ekki að takmarka fleira? Það var í einhverju blaði um daginn, ég held það hafi verið í Morgunblaðinu, verið að segja, að það væri svo þröngt í Vestmannaeyjahöfn, að bátar yrðu þar að biða upp undir átta tíma til að geta komizt að bryggju. Eigum við ekki að takmarka, hvað margir bátar mega róa þaðan, svo að það sé vissa fyrir því, að það sé nóg bryggjupláss við bryggjurnar, að þeir komist að? Ja, hvar á yfirleitt að stöðvast, ef haldið er áfram á þessari hraut að takmarka atvinnufrelsi manna í landinu?

Það er ekkert við því að segja, þó að menn segi: Til þess að stunda þessa og þessa atvinnu verður að uppfylla viss skilyrði? Þú verður að taka þitt bílstjórapróf, þú verður að taka þitt embættispróf og prestaskólapróf til að verða prestur og læknispróf o.s.frv., það er allt í lagi. En að segja við mennina, sem er búnir að búa sig undir það að stunda þessa atvinnugrein og aðra ekki, búnir að uppfylla allar þær kröfur, sem ríkið gerir til þess, að þeir geti stundað þessa stöðu: Nei takk, nú verða ekki fleiri menn úr þessu, sem stunda hana, ekki nema þeir, sem við veljum til þess, — það er skerðing á persónufrelsinu og alveg ótvírætt brot á stjórnarskrárlögunum. Og ég er viss um, að sá bílstjóri, sem vill komast að hér og keyra frá stöð og fer í mál við ríkisstj. fyrir að leyfa sér það ekki, eftir að þessi lög eru komin í gildi, fær sig dæmdan til að vera bílstjóri eftir stjórnarskránni. Ég er víss um það.