04.04.1955
Neðri deild: 69. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

132. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég þarf nú ekki mikið að segja í tilefni af ræðu hv. 8. landsk. (BergS), því að síðasti ræðumaður hefur að miklu leyti svarað því, sem hann hafði fram að bera, enda hef ég ekki um þetta mál neitt annað sagt en að skýra frá því, hvaða orsakir til þess liggja, að landbn. gat ekki fallizt á að mæla með þessari till.

Það er náttúrlega rétt hjá hv. þm., að það er komin nokkur reynsla á þetta á Sámsstöðum, en því miður er það nú svo, að það er yfirleitt ekki á landinu jafngóð aðstaða til skógræktar eins og þar eða mjög óvíða, og þar að auki er það álit margra manna, að það geti verið heppilegri aðrar trjátegundir til þessa en birki. Vegna þess, hversu skammt er komið áleiðis rannsóknum á þessu sviði, þykir n. réttara að draga þetta mál, enda þótt hún játi, að hér sé um að ræða framtíðarmál, sem mjög vel þurfi að taka til athugunar. Það er kunnugt, að hér í nágrannalöndunum er mikið að því gert að rækta skjólbeiti, en trjátegundirnar eru miklu fljótari að vaxa þar en hér.

Annars var það aðallega ræða hæstv. viðskmrh., sem gerði það að verkum, að ég taldi nauðsynlegt n. vegna að segja nokkur orð enn. Hæstv. ráðh. hefur nú orðið að fara frá, og verður þá við það að sitja, þó að hann sé ekki viðstaddur, en það er varðandi till. n. um, að það sé lægra ríkisframlag á ræktun sanda en annarrar jarðar. Þessi till. er ekki tekin upp frá landbn. Hún kom frá búnaðarþingi til n., og mér er sagt, að hún hafi verið samþ. þar ágreiningslaust. Það kom fram hjá hæstv. viðskmrh., að hann játaði það, sem kunnugt er, að á sléttum söndum, þar sem aðallega er um að ræða foksanda, sem hafa fokið yfir gróið land, er ákaflega auðvelt mál að vinna það land og miklu ódýrara en á grónu landi, hvort sem það er móa- eða mýrarland, en ríkisframlagið er veitt til vinnslu landsins fyrst og fremst. Hitt er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að það þarf töluvert meiri áburð í sanda en í gróið land, sem ræktað er. En áburðurinn er nú skoðaður frekar sem rekstraratriði en stofnkostnaður, en þetta ríkisframlag, sem lagt er til jarðræktar, er fyrst og fremst lagt fram sem hluti af stofnkostnaði jarðræktarinnar.

Að öðru leyti held ég að þurfi ekki að skýra þessa till., því að það gefur auga leið, að úr því að 24 búnaðarþingsmenn hafa orðið sammála um, að þetta sé sanngjarnt, þá þarf engan að undra það, þó að við í landbn. höfum getað fallizt á að taka þessa till. upp.