26.04.1955
Efri deild: 74. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

132. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Eins og brtt. liggur nú fyrir, þá framlengir hún þetta gamla bráðabirgðaákvæði um túnþýfið, aukastyrk á túnþýfið, í eitt ár. Eins og ég sagði hérna í gær og reyndar líka þegar ég hafði framsögu í málinu við 2. umr., þá er jarðabótastyrkurinn í ár hér um bil 2 millj. hærri en hann var í fyrra, eða nálægt 8.7 millj. kr. í staðinn fyrir 6.7 millj. í fyrra og það er hér um bil allt í aukatúnþýfisstyrk, svo að það sýnir bezt, hvaða áhrif sá áróður hefur haft, sem ég hafði í frammi og byrjaði strax í marzmánuði í fyrra.

Hins vegar fór ég í gær, eftir að þessi till. kom fram, að afla mér upplýsinga um, hvernig málið horfði við í ýmsum héruðum, og þá komst ég að raun um, að það er rétt, sem hv. þm. segir, það eru einstaka menn eftir, en ég hef nú ekki neina samvizku fyrir þá, sem eftir eru, marga hverja, en það eru einstaka menn eftir, t.d. í Vestur-Húnavatnssýslu, af því að þeir fengu ekki vélar til að vinna, vélakosturinn, sem ræktunarsambandið átti, var það lítill, að hann nægði ekki. Þegar þeir vöknuðu við þetta á elleftu stundu um að koma túnþýfinu í burtu, þá nægði hann ekki til að gera það í fyrrasumar. Og sama veit ég um á tveimur stöðum öðrum, sem ég hafði tal af í gær, til að rannsaka, hvernig málið horfði við. Með tilliti til þessa vil ég fyrir minn part leggja til, að till. verði samþ. og þessir menn, sem af óviðráðanlegum ástæðum gátu ekki klárað túnþýfið í fyrra, áttu náttúrlega að vera búnir að því fyrir löngu, en gátu þó ekki klárað það í fyrra, en væntanlega geta það í ár, fái þá að njóta sömu réttinda og aðrir hvað þetta snertir, enda þótt þeir séu síðbúnir.

Það hefur ekki verið fundur í landbn. um þetta, og get ég þess vegna ekki sagt beint um hennar afstöðu, en við höfum nú talað um þetta svona á hlaupum, sem höfum hitzt, — ég hef nú ekki hitt þá alla, ekki náð í hv. 6. landsk. (FRV ) síðan á fundinum í gær, — og ég hygg, að mér sé óhætt að segja, að meiri hl. landbn. eða hún öll kannske sé með því að framlengja þetta bráðabirgðaákvæði í eitt ár og gefa mönnum þar með síðasta frest til þess arna.

Ég held því, að ég tali fyrir munn a.m.k. fjögurra landbúnaðarnefndarmanna, sem leggja til, að till sé samþ. eins og hún nú liggur fyrir um eins árs framlengingu á túnþýfisákvæðinu.