25.03.1955
Neðri deild: 65. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég þarf ekki að flytja nema örstutta framsöguræðu fyrir þessu frv., sem hér er til umr. og prentað er á þskj. 503, vegna þess að þau rök, sem hníga að þeim óskum, sem hér eru fram bornar, eru prentuð með grg. frv., og hef ég í raun og veru engu málefnalegu þar við að bæta. Mér þykir þó réttara aðeins að geta um það, að það hefur verið venja löggjafans á undanförnum árum, þegar einstakir hreppar hafa tekið örum vexti og fram hafa komið óskir íbúanna um það, að þeir yrðu skildir frá því sýslufélagi, sem þeir hafa tilheyrt, og gerðir að sérstöku lögsagnarumdæmi, að verða við þeim óskum.

Ég hygg, að það sé nærri, ef ekki alveg einsdæmi hér í okkar þjóðfélagi, að nokkur hreppur hafi tekið jafnörum vexti og Kópavogshreppur, og er það öllum hv. þm. áreiðanlega kunnugt. Það hefur um nokkurt skeið að undanförnu verið á döfinni, hvort ekki bæri að hlutast til um að taka eðlilegum afleiðingum af þessum öra vexti, og þar kom, að þrír stjórnmálaflokkar eða félög þriggja stjórnmálaflokka í þessum hreppi, Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., báru fram mjög eindregnar óskir um, að þessi skipulagsbreyting mætti ná fram að ganga. Hreppsnefndin hefur hins vegar að meiri hluta til ekki fengizt til þess að ljá þessu samþykki, en hana skipa að meiri hluta flokksbræður þrír, sem tilheyra Sósfl. eða kommúnistaflokknum og hafa haft völd þarna í þessum hreppi um alilangt skeið.

Nú er það ekki tilgangur minn við þessar umræður að deila neitt á þann mann eða þá menn, sem þarna hafa farið með völdin. Ég vek aðeins athygli á því, að það er til mikils mælzt af þeim við þá aðstöðu, sem þeir hafa, að geta haft fullkomna stjórn á þeim vandasömu málum, sem þeir hafa fengið til meðferðar og æ hafa orðið örðugri viðfangs vegna v,axandi fólksfjölda. Það er til mikils mælzt, segi ég, af þessum mönnum, að þeir geti haft á því full tök, og ég hygg, að það sé þá einnig þannig komið, að meiri hluta af hreppsbúum sé það ljóst, að ef vel á að fara, verði að komast á sú breyting, sem hér er farið fram á með þessu frv.

Þetta mál hefur verið borið undir sýslunefndina í Kjósarsýslu, eins og eðlilegt er, og hún lét í ljós það álit, að ef ekki lægju fyrir meðmæli hreppsnefndarinnar, þá yrði að liggja fyrir viljayfirlýsing frá meiri hluta atkvæðisbærra íbúa í Kópavogshreppi. Þessa meirihlutaálits hefur nú verið leitað með undirskriftaskjölum, og ef ég man rétt, hafa 760 menn, búsettir í hreppnum, 21 árs og eldrí, lýst yfir þessum vilja sínum. Ég hygg einnig rétt, að það hafi verið á kjörskrá í febr. 1954, við þær kosningar, sem þá fóru fram til sveitarstjórnar í Kópavogshreppi, 1144 menn, og mættu þess vegna vera nú á kjörskrá allmiklu fleiri, til þess að auðið yrði að vefengja, að hér lægi fyrir viljayfirlýsing meiri hluta kjósenda. Það mættu vera á kjörskrá 1519 menn í staðinn fyrir 1144, eða nærri 400 mönnum fleira en var í febrúar 1954, og þó hægt að staðhæfa með réttu, að fyrir lægi yfirlýsing frá meiri hluta kjósenda í hreppnum. Auk þess er svo rétt, að menn athugi, að jafnvel þó að í hreppnum væru, við skulum segja, 1600 menn, svo að ég taki einhverja tölu, ekki 1520 og ekki 1144, eins og voru í febrúar 1944, heldur t.d. 1600 menn, þá væri þó óhætt að álykta, að hér væri um meiri hluta að ræða, nokkurn veginn örugglega. Ég hygg, að það sé ákaflega fátítt, að við leynilegar kosningar komi fram meira en 90% af atkvæðisbærum mönnum. Ekki er þó ástæða til að halda, að fleiri segi sinn vilja, þegar viljayfirlýsing er birt í skriflegum plöggum í staðinn fyrir að menn gangi að kjörborði. En þó að íbúar væru 1600 og 90% hefðu greitt atkv., þá er það ekki nema 1400 menn, og þyrftu áskorendur þess vegna ekki að vera nema 721, til þess að þar væri fram kominn vilji meiri hluta. En hér er fram kominn vilji 760 manna. Ég hygg þess vegna, að viljinn sé augljós. Ég hygg í öðru lagi, að með þessu sé fullnægt, svo að ekki verði véfengt, þeim skilyrðum, sem sýslunefndin í Kjósarsýslu telur eðlilegt að fullnægt verði. Og ég leiði í þriðja lagi athygli að því, að sá hreppsnefndarmeirihluti, sem fer með völdin, er einlitur flokksmeirihluti, og það er kannske öllum vorkunn, að þeir telji málunum bezt komið í eigin höndum og hafi þess vegna ekki áhuga á breytingum.

Ég á ekki von á því, að Alþ. leggist á móti þessum eindregna vilja mikils meiri hluta kjósendanna, og vil að svo komnu máli ekki einu sinni gera ráð fyrir því, að sá maður, sem hefur farið með oddvitastörfin í þessum hreppi og á sætí í hv. Ed., muni telja sér stætt á því að berjast gegn slíku frv., úr því að það á annað borð er borið fram.

Ég ætla mér ekki að hafa í frammi neina gagnrýni á hans störfum í þessu sveitarfélagi. Mér er ekki nægilega kunnugt um það og hef ekki gert neina tilraun til þess að setja mig inn í það og álít ekki heldur, að það sé það, sem úr sker í þessu máli, heldur hitt, að í fyrsta lagi er það venja löggjafans, elns og ég sagði, þegar honum berast slíkar óskir frá svo stóru hreppsfélagi, að verða við þeim, og í öðru lagi liggur fyrir sá skýri vilji kjósenda í þessum hreppi, sem ætti að nægja til þess að sannfæra Alþ. um, hvers þeir óska, sem þarna búa. — Ég vildi svo leyfa mér að mælast til, að að lokinni þessari umr. yrði þessu máli visað til 2. umr. og hv. félmn.