28.03.1955
Neðri deild: 66. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér liggur nú fyrir um, að ákveðið verði, að Kópavogshreppur verði gerður að kaupstað, er á margan hátt, eins og það kemur hér fram á Alþ., mjög sérstætt, þegar það er borið saman við hliðstæð málefni frá öðrum kauptúnum. Það er sérstætt að því leyti til, að það er ekki hreppsnefndin í viðkomandi hreppi, sem óskar eftir þeirri breytingu, sem hér er farið fram á, heldur er sagt í grg. frv., að það sé flutt eftir beiðni þriggja stjórnmálafélaga þar í hreppnum. Ég hygg, að það sé ekki til eitt einasta fordæmi um það héðan af Alþ., að hreppsfélagi hafi verið breytt í kaupstað á þann sérstaka hátt, að stjórnmálafélög í viðkomandi hreppi hafi snúið sér til Alþ. og beðið um breytinguna, en hins vegar hafi ekki legið fyrir beiðni viðkomandi hreppsnefndar.

Þetta frv. er líka sérstætt í sinni röð að því leyti til, þar sem nú er kunnugt um, að það hafa verið uppi nokkrar deilur um það, hvort ætti að setja um þetta löggjöf nú strax eða ekki, að íbúarnir í hreppnum hafa ekki enn fengið tækifæri til þess að segja sitt álit um þessa breytingu á ótvíræðan hátt. Hæstv. forsrh., sem hér talaði fyrir þessu frv. að beiðni þeirra stjórnmálafélaga, sem að því standa, að þetta er flutt, sagði, að að vísu hefðu Alþ. borizt undirskriftaskjöl frá um 760 kjósendum í Kópavogshreppi, en að þær undirskriftir jafngiltu því, að meira en helmingur atkvæðisbærra manna þar í hreppi óskaði raunverulega eftir því, að þessi breyting yrði gerð. Ef svo væri, að raunverulegur meiri hluti kjósenda í hreppnum hefði snúið sér skriflega til Alþ. og beðið um, að þessi hreyting yrði gerð, þá væri ekki óeðlilegt, þó að málið væri tekið hér fyrir, þó að það væri að sínu leyti ekki samkvæmt þeirri venju, sem hér hefur skapazt. En það liggur fyrir, að þessar undirskriftir eru meira en lítið vafasamar, það hefur sem sagt verið athugað af gerkunnugum mönnum, bornir saman þessir áskorunarlistar og fyrirliggjandi kjörskrár í hreppnum, og þá kemur í ljós, að af 760 nöfnum, sem þarna eru fram sett, eru hvorki meira né minna en 224, sem ekki finnast á kjörskrá í hreppnum. (Gripið fram í.) Ja, það eru nú til lög um það, svo að hæstv. ráðh. ætti að fara nokkuð nærri um það, hver semur kjörskrár og hvernig kjörskrá öðlast gildi í þessu landi. Þar að auki má svo benda á það, að á milli 50 og 60 nöfn af þeim, sem á þessum undirskriftaskjölum eru, eru nöfn manna, sem aldrei hafa verið búsettir í Kópavogshreppi. Margir unglingar eru þarna tilnefndir, sem eru innan 21 árs aldurs, og þar á meðal eitt barn, 11 ára gamalt. (Gripið fram í.) Já, blessað barnið, það er alveg undravert, hvernig einstakir menn geta leikið sér að því að fara með þau mál, sem þeim er falið að standa fyrir. Einnig má benda á það, að á þessum undirskriftalista, sem svona er tilkominn, er t.d. nafn konu, sem hefur verið erlendis í marga mánuði. Enginn maður, sem þarna þekkir til, efast um það, að þarna er nafn falsað á listann. Og svona til bragðbætis eru svo sett á þessa undirskriftalista nöfn 16 útlendinga. (PO: Hafa þeir ríkisborgararétt?) Nei, þeir hafa ekki einu sinni ríkisborgararétt, og hefði því átt að taka a.m.k. fyrir það mál, sem hér er á undan á dagskránni og fjallar um ríkisborgararétt, ef hefði mátt kannske skola einhverjum þeirra þannig inn fyrir, áður en þeir skrifuðu á þetta plagg. Nei, það verður ekki um það villzt, að það, sem hæstv. forsrh. taldi þó eitt réttlæta það, að þetta mál væri flutt á þennan sérstaka hátt hér á Alþ., þar sem hreppsnefndin í hreppnum hefur ekki óskað eftir þessari breytingu að svo komnu máli, — sú eina röksemd, sem hæstv. forsrh. sá nú þó fyrir því að flytja málið, að fyrir Alþ. lægju nú undirskriftaskjöl frá 760 íbúum í þessum hreppi, eða meiri hlutanum, er brostin líka. Það er greinilegt, að hvergi nærri helmingur af kjósendum í þessum hreppi hefur óskað eftir þessu. Ég held því, að það væri að öllu leyti sæmst fyrir hæstv. forsrh., sem hefur látið draga sig út í þetta forað, að draga frv. til baka aftur og segja, að það hafi verið flutt á upplognum forsendum. Það væri langeinlægast í þessu efni.

Það er öllum mönnum kunnugt, að í Kópavogshreppi hafa verið uppi nokkrar deilur manna á meðal um það, hvort ætti að breyta þessu stærsta hreppsfélagi landsins í kaupstað eða ekki. Það er ekkert nýtt, þegar um það er að ræða í hreppsfélögum, að það er rætt um að breyta þeim úr gömlu formi í nýtt form, gera þau að kaupstað, að þá er uppi nokkur skoðanamunur manna á milli í þeim efnum. Þetta hefur alltaf verið látið ganga þannig, að þó að einhverjir pólitískir kappar á viðkomandi stað þreyti um þetta bardaga nokkurn tíma, þá hlaupi ekki ráðh. fram á Alþ. og skerist þar í leikinn öðrum til aðstoðar, heldur er viðkomandi hreppur látinn átta sig á málinu á eðillegum tíma og kjósendurnir þar spurðir ráða. Hreppsnefndin beygir sig síðan venjulega fyrir því, sem meiri hluti kjósenda í hreppnum óskar eftir, og síðan er það hreppsnefndin, sem snýr sér til Alþ. og biður um þá breytingu, sem hún vill að framkvæmd verði. En hér er þessi gamla venja, sem alltaf hefur verið viðhöfð, þverbrotin, og þá vitanlega hlaut að takast svona til eins og þessi undirskriftagögn þegar sýna.

Ég fyrir mitt leyti er á þeirri skoðun, að Kópavogshreppur sé það stór hreppur og fjölmennur, að ef hann óskaði eftir því á venjulegan hátt að fá kaupstaðarréttindi, þá mundi enginn maður á Alþ, standa þar í vegi. Það mundu allir vera því samþykkir, að þá fengi hann kaupstaðarréttindi. En þegar hins vegar málið ber að á þann hátt, sem hér er um að ræða, verður ekki komizt hjá því að rifja það lítillega upp, hvaða orsakir í raun og veru liggja til þess, að það er verið að berjast svona um á hæl og hnakka og fara út úr þessum eðlilega og venjulega farvegi, sem þessi mál hafa verið látin fara eftir.

Það hefur nú staðið nokkuð sérstaklega á um Kópavogshrepp. Hann er vist eini hreppurinn í landinu núna, sem hefur verið látinn ganga út í tvennar kosningar á um það bil einu ári. Það var ekki nóg, að þar færi fram

sveitarstjórnarkosning, eins og lög standa til, um sama leyti og önnur hreppsfélög og kaupstaðir í landinu háðu kosningar. Það var ekki nóg. Þessir spretthörðu menn, sem að þeim stjórnmálafélögum standa, sem biðja nú um, að þetta frv. verði gert að lögum, ætluðu sér sannarlega að ná meiri hluta af þeim meiri hluta, sem áður hafði farið með völd í hreppnum, ætluðu nú að ná þar völdum. Þeir höfðu mikinn hávaða í frammi, eins og gengur í sveitarstjórnarkosningum, en þeir urðu hins vegar að sætta sig við það, að þeir töpuðu. Þeir náðu ekki meiri hlutanum. Gamli meiri hlutinn hélt velli. Þetta hefur maður nú svo sem séð í fleiri sveitarfélögum áður, að svona hefur gerzt. En af því að þessir menn, sem þarna urðu í minni hluta, þóttust eiga allmikið undir sér, þeir þóttust eiga ílök í ráðherrum og ríkisstjórn og að þeir gætu brotizt um á annan hátt en venjulegar leikreglur sögðu, þá vitanlega hlutuðust þeir til um það, að eftir alveg óvenjulegum leiðum yrðu knúðar fram kosningar aftur eftir röskan mánuð í þessum hreppi. Þær kosningar fóru líka fram. Og mennirnir, sem standa að þessu frv., börðust þarna um líka, álíka hart og fyrr, en það fór á sömu lund, þeir töpuðu enn á ný og hafa ekki sætt sig við tapið. Meiri hlutinn gamli var svo sterkur í þessum hreppi, að hann var álíka sterkur hlutfallslega og sá meiri hluti í Reykjavíkurkaupstað, sem hér fer með völd. Hann var sem sagt með sterkustu meiri hlutum í bæjarstjórn eða hreppsnefnd á landinu. En þrátt fyrir þetta hafa þeir menn, sem að þessum þremur stjórnmálafélögum standa, sem nú hafa hér raunverulega lagt fram frv. á Alþingi, sem er nú nokkuð sérstakt, enn leitað til sinna húsbænda og fara nú fram á það við ríkisstj., að hún hlutist enn til um á óvenjulegan hátt, setji nú löggjöf í skyndi um það, að hreppsfélaginu skuli breytt í bæjarfélag og knúðar fram þriðju kosningarnar á rúmlega eins árs tímabili. Þetta er það, sem allir menn, sem horft hafa á þetta, hljóta að hafa tekið eftir. Þetta eru staðreyndir, sem maður veit um, jafnvel þótt maður sé ekki gerkunnugur málefnum í þessum hreppi.

Ég ætla mér ekki á neinn hátt að blanda mér í þær umræður, hvort sá hreppsnefndarmeirihluti, sem þarna fer með stjórn, hefur staðið vel í sínum málum eða illa. Það er allt annað mál. Það er mál, sem um er deilt í hverju hreppsfélagi á landinu og hverjum kaupstað. En hitt er mjög óvenjulegt, þegar slíkar deilur eru dregnar inn í málefni hér á Alþingi fyrir utan allar venjulegar reglur og á þann hátt, sem hér er gert. Ég skil það mætavel, að það er út af fyrir sig mjög hættulegt fordæmi, ef Alþingi ætlar að fara að skipta sér af slíkum innri deilum, sem oft verða í sveitarfélögum, og hlutast á þennan hátt til um það, að þar fari fram kosningar að nýju, því að vitanlega er hægt með því að knýja fram kosningar nógu þétt og nógu oft að gera einn sveitarstjórnarmeirihluta óstarfhæfan og hálfeyðileggja viðkomandi sveitarfélög. Það vænti ég að allir þeir menn skilji, sem komið hafa nærri sveitarstjórnarmálum, að vitanlega er til mestu vandræða fyrir hvert sveitarfélag að vera knúið út í það.

Þá er næst að athuga með nokkrum orðum, hvað það er, sem knúið hefur nú þessa þrjá stjórnmálaflokka í þessum hreppi til þess að vilja fara þessa óvenjulegu leið. Jú, það er sagt, að Kópavogshreppur sé fjölmennur og stór og hann eigi því rétt á þessu, eins og ég minntist á áðan. Og það verður ekki um deilt, að ef hann raunverulega óskar eftir, þá mundi honum þetta heimilað, vegna þess að hann er svo fjölmennur. En mér er þá spurn: Er Kópavogshreppur kannske alveg nýlega orðinn svona fjölmennur, að þessi rök hafi allt í einu oltið upp á borðið núna nýlega? (Forsrh.: Heldur fjölgar nú þar.) Heldur fjölgar nú þar, já, en ég man ekki annað betur en að þetta hafi verið langsamlega fjölmennasta hreppsfélagið í landinu, þegar þær tvennar kosningar í hreppnum fóru fram, sem þar fóru fram fyrir rúmu ári, og hvað sögðu þá þeir menn, sem nú leggja til, að þessu hreppsfélagi verði breytt í bæjarfélag? Voru þeir þá búnir að finna þetta upp? Nei, þá minntust þeir ekki á það einu orði, hvorki í fyrri kosningunum né í síðari kosningunum, að það væri brýn þörf á því að breyta hreppsfélaginu í kaupstað. Það mátti geyma það í handraðanum, ef þeir hefðu tapað í tvennum kosningum, hvort þá mætti ekki fitja upp á þessu í þriðja skiptið til þess að reyna einu sinni enn, ef þeim mætti lánast að ná í meiri hluta.

Það er vitanlega mjög athyglisvert fyrir Alþingi í þessu efni að taka eftir því, að í kosningaátökum í þessu hreppsfélagi, sem tiltölulega nýlega hafa farið fram, hefur þetta ekki verið neitt baráttumál þar í hreppi. Þá var ekkert um þetta deilt. Enginn flokkur gerði þetta sérstaklega að sínu máli, og engin hræring meðal hreppsbúa var komin í þessa átt. En nú er hins vegar fundið upp á þessu, og í fullu samræmi við það liggur nú svo mikið á, að það má ekki með nokkru móti fara venjulegar og eðlilegar leiðir í þessu máli. Það verður að kasta frv. fram hér á Alþingi á seinustu dögum þingsins á þann hátt, sem nú er gert, og það verður í skyndi að hlaupa á milli hreppsbúa, smala þeim saman til þess að skrifa undir blöð, hirða þar nöfn manna, jafnvel þeirra, sem eru staddir erlendis, taka nöfn barna, útlendinga og allra mögulegra manna, þeirra sem aldrei hafa búið í hreppnum, og setja saman slíka lista, senda þá til Alþingis og biðja nú Alþingi um það í krafti þessa, að við fáum hér alveg óvenjulegar starfsaðferðir, og fyrirskipa að breyta þessu hreppsfélagi í bæjarstjórn og efna til kosninga.

Hitt liggur svo aftur fyrir, að meiri hl. hreppsnefndar hefur sett sig upp á móti breytingunni að svo komnu máli, og meiri hl. hreppsnefndar hefur auglýst það, að hann ætlar að efna til almennrar, leynilegrar atkvæðagreiðslu samkv. kjörskrá meðal allra kjósenda í hreppnum nú með eins stuttum fresti og frekast er unnt, þannig að á ótvíræðan hátt verði skorið úr um það við kjörborðið, hvort meiri hl. hreppsbúa óskar eftir því, að hreppnum verði nú breytt í kaupstað, eða jafnvel hvort horfið verði að öðrum ráðum í sambandi við framtið hreppsins. Það er líka vitað mál, að í þessum hreppi hefur nokkuð verið minnzt á það, að vel kæmi til mála, ef ætti að fara að breyta hinu gamla formi, að leita eftir samningum við Reykjavíkurkaupstað um sameiningu þessa hreppsfélags við Reykjavík, og því verður ekki neitað, að þeir eru afar margir, sem álíta, að ef á að breyta gamla forminu, þá væri miklu réttara að vinna að sameiningu hreppsins við Reykjavíkurkaupstað. Það er nefnilega þannig ástatt með þetta hreppsfélag, að það er talsvert mikið öðruvísi uppbyggt en flest önnur hreppsfélög í landinu. Það er orðið fjölmennt. Þarna búa margir menn. Hins vegar eru atvinnuvegir og önnur fjárhagsleg undirstaða í þessu hreppsfélagi á talsvert mikið annan veg en í flestum öðrum gömlum og rótgrónum hreppsfélögum í landinu. Langflestir íbúanna í þessu hreppsfélagi vinna hér í Rvík eða nálægum kaupstöðum. Þeir hafa hins vegar byggt sér hús í þessum hreppi og eiga þarna fastan samastað, þó að atvinnustofnanir þeirra séu hér. Það eru því mörg rök í sjálfu sér, sem mæla með því, að sá kaupstaður, sem nýtur starfskrafta þessara íbúa, sem jafnvel heldur hér uppi fyrirtækjum með starfskröftum þessa fólks, að sá kaupstaður, sem á óbeinan hátt fær einmitt útsvör eða gjöld af starfsemi þessara íbúa, t.d. veltuskatta af þeim fyrirtækjum, sem þessir íbúar halda hér uppi í Rvík, ætti að sínu leyti að standa undir ýmsum útgjöldum þessa hreppsfélags, sem íbúarnir þar þurfa alveg óhjákvæmilega að leggja í. Séu t.d. rök fyrir því, að Reykjavíkurkaupstaður eigi að leggja fram fé til gatnagerðar í Kleppsholti, þá eru alveg nákvæmlega sams konar rök fyrir því efnahagslega séð, að Reykjavík ætti að leggja fram fé til gatnagerðar í Kópavogshreppi. Og þannig mætti nefna mörg fleiri rök, sem hníga í þá átt, að sameining við Reykjavíkurkaupstað kæmi fyllilega til greina. Afstöðu til slíks skal ég ekki taka sem óviðkomandi maður í þeim efnum, en mér finnst hins vegar rétt, að íbúarnir í þessu hreppsfélagi geri þetta upp við sig, að þeir greiði atkvæði um þetta á venjulegan hátt með leynilegri atkvæðagreiðslu, þar sem farið er eftir kjörskrá og á lögformlegan hátt. Flokkarnir í hreppnum geta svo barizt, einn fyrir þessari niðurstöðu og annar fyrir hinni á venjulegan hátt. Þetta væri sómasamleg afgreiðsla, en hitt ekki, sem byggt er á í sambandi við flutning þessa frv., þar sem því er kastað fram þvert ofan í vilja meiri hl. hreppsnefndar, þvert ofan í áætlanir meiri hl. hreppsnefndar um þessa atkvgr. og án þess að fyrir liggi ótvíræð yfirlýsing íbúanna í hreppnum um það, að þeir raunverulega óski eftir þessu.

Það er venja, þegar rætt er um breytingu á hreppsfélagi í kaupstað, að þá er leitað eftir áliti viðkomandi sýslunefndar, þar sem hreppsfélagið er. Það hefur verið leitað eftir áliti sýslunefndarinnar í Kjósarsýslu, og álit hennar er birt hér með sem fskj. 1 í sambandi við þetta frv. Það leynir sér ekki, að sýslunefndin mælir alls ekki með þessari breytingu. Hún tekur beinlínis fram, að hún álítur, að ekki komi til greina að samþ. þessa breytinga, nema fyrir liggi á alveg ótvíræðan hátt, að meiri hl. hreppsbúa óski eftir breytingunni. En eins og ég hef víkið hér nokkuð að, vantar þennan ótvíræða vilja hreppsbúa algerlega, því að enginn getur væntanlega haldið því fram, eftir að hann hefur athugað nokkuð þau undirskriftaskjöl, sem til Alþingis hafa borizt, að þau tryggi það, að meiri hl. í þessu hreppsfélagi óski raunverulega eftir þessari breytingu. Það vantar því hvort tveggja í þessu máli, meðmæli sýslunefndar þeirrar, sem í hlut á, og einnig meðmæli þeirrar hreppsnefndar, sem í hlut á.

Það hefur nokkuð verið að því vikið, að hreppsfélagið sé orðið svo stórt, að það sé afskaplega miklum annmörkum bundið að stjórna þar málum á eðlilegan hátt í formi hreppsfélags, en allt mundi þetta verða miklu auðveldara, ef um kaupstað væri að ræða. Við, sem höfum nokkuð haft af hvoru tveggja að segja í framkvæmd og þekkjum þetta af eigin reynd, vitum, að þetta er alger fyrirsláttur og getur ekki gilt sem rök hjá þeim, sem nokkuð þekkja til þessara mála. Það er talað um það, að oddvitastarfið í þessum hreppi sé orðið svo umfangsmikið, að einn maður geti ekki haft það í hjáverkum. Hver skyldar einn hrepp til þess að hafa sitt oddvitastarf í hjáverkum? Hver hreppur á landinu núna hefur leyfi til þess að hafa sérstakan sveitarstjóra, sem jafngildir í rauninni bæjarstjóra, ef sveitarfélagið óskar eftir því, og það bannar heldur enginn þessu hreppsfélagi frekar en öðrum að taka sér starfsmenn til ýmissa verka, sem þarf að vinna í sambandi við þessi mál. Þó að oddvitinn heiti allt í einu bæjarstjóri, breytir það engu út af fyrir sig. Sömuleiðis er það, að þó að þetta hreppsfélag sé orðið nokkuð fjölmennt og það sé sagt, að þar sé erfitt að halda uppi löggæzlu, þá er mér fyllilega ljóst, að það gerist ekki nokkur skapaður hlutur í sambandi við löggæzlu í þessu sveitarfélagi, þó að skipt verði þarna um nafnið, nema það, að ef þetta heitir kaupstaður, þá er það að vísu skyldugt til að hafa allmarga lögregluþjóna, en það bannar hreppnum heldur enginn að hafa lögregluþjón, ef hann vill leggja það á sig á annað borð.

Íbúarnir í þessu hreppsfélagi standa ekkert verr að vígi með að standa undir sínum lögreglukostnaði í sínu hreppsfélagi heldur en í bæjarfélagi, og það hefur farið svo hjá flestöllum minni bæjarfélögum úti á landi, að við reynum þar allir að halda niðri okkar lögreglukostnaði eins og tök eru á og förum ekki það langt í þeim útgjöldum, að við verðum þeirrar náðar aðnjótandi að fá örlítinn hluta af þessum kostnaði endurgreiddan úr ríkissjóði. En þar verður að hafa einn lögregluþjón á hverja 700 íbúa til þess að geta fengið örlitla endurgreiðslu úr ríkissjóði út á þennan kostnað. Ég veit það, að í mínum kaupstað og í fleirum hliðstæðum höfum við aldrei kosið að hafa svo marga lögregluþjóna, að við fengjum þessa hungurlús greidda frá ríkinu upp í þennan kostnað. Við höfum heldur sparað okkur lögregluþjónana og reynt að hafa þá við hæfi á okkar stað, og ég hygg, að það yrði niðurstaðan líka, þó að það væri búið að umskíra Kópavogshrepp og kalla hann Kópavogskaupstað. Ég á varla von á því, að íbúarnir í þeim hreppi mundu óska eftir því að hafa þar útgjöld af lögreglumálum, nema þá sem allra minnst.

Lögreglustjóri eða sýslumaður þessa hreppsfélags er alveg á næstu grösum. Hann býr í Hafnarfirði, er tiltölulega léttur upp á fótinn og á bíl eflaust. Ég hélt, að það væri ekki ýkja erfitt fyrir menn í þessum hreppi að leita til sýslumannsins til Hafnarfjarðar. Og ólikt er það erfiðara sums staðar annars staðar í þessari sýslu að leita til sýslumannsins en t.d. úr þessum hreppi, og miklum mun erfiðara er víða úti á landi fyrir menn í allstórum hreppum, sem eru einangraðir og hafa lélegar samgöngur við þann stað, þar sem sýslumaðurinn situr, að leita til síns yfirvalds heldur en þarna er um að ræða.

En það er nú eins og stundum áður, að það má tína fram ýmis rök og gera þau nokkuð gild, ef mikill vilji er fyrir hendi, og eins er í þessu efni. Af því að það er ofurkapp á því að reka hér í gegn á stuttum tíma frv. um það að gera Kópavogshrepp að kaupstað, þá grípa menn til þess að segja, að raunverulega geti sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu, sá sem situr í Hafnarfirði, ekki sinnt sínum málefnum í þessu hreppsfélagi, nema þannig að skömm sé að, og það þurfi endilega að breyta þarna um form til þess að reyna að kippa þessu í lag, og að núverandi oddviti ræki sín störf þannig, að það sé alveg nauðsynlegt að skipta þarna um form á hreppsfélaginu og kalla hann þá vænlanlega bæjarstjóra á eftir, og þá muni hann verða miklu betri. Það er vitanlega hægt að seilast eftir svona rökum, en ekki eru þau ýkja sterk.

Ég vildi nú beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að hún kynni sér þetta mál alveg niður í kjölinn, að hún láti rannsaka það, hvort þau undirskriftaskjöl, sem Alþingi hafa borizt, með 760 nöfnum, eru frá kjósendum í þessu hreppsfélagi, sem hér er um að ræða, eða hvort þau eru jafnvel frá útlendingum, börnum og búsettum mönnum í öðrum hreppsfélögum, eins og ég hef upplýst, og ég hef verið upplýstur um það af mönnum, sem eru gerkunnugir þarna og hafa látið bera saman þessa undirskriftaskrá við kjörskrá í hreppnum. Ég tel alveg óhjákvæmilegt, að heilbr.- og félmn., sem þetta mál fær til athugunar, gerkynni sér þetta mál.

Mér er líka sagt, að kjósendur á kjörskrá í Kópavogshreppi séu nú allmikið á 14. hundrað, eða hafi verið 1351 og muni heldur geta fjölgað frá þeirri tölu, og sé það svo rétt, sem ég hef skýrt hér frá, að af þessum 760 undirskriftum séu 224 nöfn manna, sem ekki finnast á kjörskrá í hreppnum, þá er alveg augljóst mál, að þó að maður tæki hinar undirskriftirnar allar gildar, sem auðvitað er nú ákaflega vafasamt að gera, þegar svona hefur verið unnið að málunum, þá er hér ekki um meiri hl. kjósenda að ræða, heldur greinilega minni hluta. Liggi það svo fyrir, að meiri hl. hreppsnefndar hefur ekki óskað eftir breytingunni, sýslunefndin í viðkomandi sýslu hefur ekki mælt með breytingunni og meiri hl. kjósenda hefur ekki heldur látið uppi vilja sinn í málinu, þá vitanlega á ekki að koma til tals að setja þessi lög á þessu þingi. Þá á að fresta þessu máli, þangað til sú atkvgr. hefur farið fram í hreppsfélaginu, sem nú er búið að auglýsa með almennri auglýsingu og er ráðgert að fram fari 24. apríl n.k., en þar hefur verið, eins og ég sagði áður, leitazt við að efna til þeirrar atkvæðagreiðslu með eins stuttum frestum og lög frekast leyfa.

Ég skal svo að endingu aðeins segja það, að þessar athugasemdir, sem ég vildi að kæmu fram um þetta mál hér við 1. umr., til þess að viðkomandi n. gæti athugað þær, ber vitanlega ekki að skilja á neinn hátt þannig, eins og ég hef reyndar tekið fram áður, að ég mundi ekki verða fyrstur manna til þess að vera með því að samþykkja kaupstaðarréttindi til handa Kópavogshreppi, ef farið yrði í þeim efnum eftir venjulegum reglum, ef meiri hluti hreppsnefndar óskaði eftir því, ef sýslunefnd mælti með því og ef kjósendurnir í hreppnum, þeir sem eru á kjörskrá, hefðu sannanlega óskað eftir breytingunni. Það eru sem sagt allt of léleg rök í þessu máli að ætla að halda sér við það eitt, að vegna þess að íbúarnir í þessu hreppsfélagi séu orðnir svona og svona margir, eigi hreppsfélagið rétt á því að vera gert að kaupstað. Það eru mörg önnur hreppsfélög í landinu, sem líka hafa nú senn nálgazt þá tölu, að það kemur fyllilega til mála að veita þeim kaupstaðarréttindi. Það eru þó nokkur hreppsfélög önnur, sem eru að nálgast 1000 íbúa. Og á þá að fara að viðhafa þann leik líka í þeim hreppsfélögum, að allt í einu verði flutt hér á Alþ. frumvörp frá einu eða fleiri stjórnmálafélögum í viðkomandi hreppsfélögum um að breyta þeim í kaupstað, jafnvei þó að íbúarnir í kaupstaðnum hafi ekki leitað eftir því? Ég er hræddur um, að með því efni sé farið út á nokkuð hæpna braut. Og ég álit, að það eigi að varast að fara út á slíkar brautir. Jafnvel þó að tveir ráðherrar, eins og hér eiga hlut að máli, og flokksforingjar séu nú æstir upp í það af spretthörðum, pólitískum hlaupagikkjum í viðkomandi hreppi að kasta þessu fram svona illa undirbúnu, þá fyndist mér, elns og ég sagði reyndar áður, miklu sæmra t.d. af hæstv. forsrh. að kippa nú frv. til baka og biðja afsökunar á því, að hann skuli hafa farið eftir eins óvönduðum upplýsingum og hann flutti mál sitt eftir hér við framsögu málsins.