04.04.1955
Neðri deild: 69. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Einar Olgeirsson:

Mér þykir vænt um, að hæstv. forsrh. er kominn í salinn. Ég ætlaði einmitt að segja nokkur orð út af yfirlýsingu, sem hann gaf.

Ég bjóst nú satt að segja við, þegar þetta mál hófst, að það mundi verða venjulegt allharðvítugt deilumál hér hjá okkur á þingi, en þó ekki meira. Ég bjóst satt að segja ekki við, að gefin yrði í sambandi við þetta mál söguleg yfirlýsing um afstöðu Sjálfstfl. og ef til vill fleiri aðila til kosningaaðferðanna á Íslandi í framtiðinni. Í sambandi við þá undirskriftasöfnun, sem hér hefur verið lögð fyrir og hv. flm. þessa máls byrja sitt mál með, gaf hæstv. forsrh. yfirlýsingu, sem þannig hljóðar viðvíkjandi því, hvernig kjósendur eigi að láta sínar skoðanir í ljós, hann sagði: Ég held, að það sé beztur úrskurður um raunverulegan vilja fólksins að lofa því að greiða atkv. opinberlega, og það er það búið að gera. M.ö.o.: Hæstv. forsrh. og form. Sjálfstfl. hefur í þessum umræðum gefið þá yfirlýsingu í sambandi við þá undirskriftasöfnun, sem fram hefur farið í Kópavogi, að þetta sé ekki neitt einstakt fyrirbrigði í sambandi við þetta mál einvörðungu, heldur sé þetta framtíðarskipulagið, sem Sjálfstfl. og ef til vill einhverjir fleiri með honum ætli sér að innieiða á Íslandi, því að það er vitanlegt, að hæstv. forsrh. og form. Sjálfstfl. ígrundar vel það, sem hann segir, og byggir í því á mjög rólegri yfirvegun, þannig að þegar hann hefur komizt að þessari niðurstöðu, þá er auðséð, að hér er ekki um neina augnabliksupphrópun að ræða, heldur um stefnuyfirlýsingu Sjálfstfl. í framtíðinni. Héðan af mun Sjálfstfl. sem sé haga sinni baráttuaðferð viðvíkjandi stjskr. og viðvíkjandi kosningalögum þannig, að hann standi með því, að það, sem gert sé með opinberum undirskriftum, sé rétthærra en leynilegar kosningar, og ekki aðeins það, heldur að bezta aðferðin og réttasti úrskurðurinn um vilja fólksins fáist með því að láta fólk undirskrifa, helzt í heimahúsum, plagg, sem lagt sé fyrir það eða jafnvel skrifað fyrir það á plaggið, og það sé miklu rétthærra en leynilegar kosningar. Og samtímis því, sem hæstv. forsrh. gefur þessa yfirlýsingu, segir hann, að hann sé að tala í anda þess lýðræðis, sem stjskr. Íslendinga gerir ráð fyrir. Stjskr. Íslendinga gerir ráð fyrir allt öðrum hlut í þessu sambandi. Stjskr. íslenzka lýðveldisins gerir ráð fyrir leynilegri atkvgr., og þessi leynilega atkvgr., sem inn í stjskr. er komin og kosningalögin, hefur verið baráttumál um langan tíma. Það eru ekki liðin nema tæp 50 ár síðan við fengum það lögleitt hér á Íslandi, að við mættum greiða leynilega atkvæði í staðinn fyrir opinberlega. En ég sé nú, að Sjálfstfl. ætlar að byrja að beita sér fyrir því og fyrsta fordæmið á að vera í sambandi við Kópavog, að leynilegar kosningar verði afnumdar á Íslandi og ekki í heiðri hafðar, heldur skuli nú fólkið tjá vilja sinn í opinberum kosningum eða með undirskriftum elns og Kópavogsundirskriftunum. Þegar Sjálfstfl. nú er að biðja um það hvað eftir annað, að hann fái meiri hluta á Alþ., að vísu með minni hl. kjósenda, þá vitum við, hvað það er, sem hann er að biðja um. Hann er að biðja um, að það verði tækifæri til þess að framkvæma þá stefnu Sjálfstfl., sem hæstv. forsrh. og form. Sjálfstfl. nú hefur lýst yfir, að fólkið fái að tjá vilja sinn með undirskriftum, með opinberum kosningum, en ekki leynilegum. Við getum hugsað okkur, hvernig það mundi verða, við skulum segja t.d., svo að við séum ekki að taka Kópavoginn, ef við færum í Vestur-Ísafjarðarsýsluna, það ættu að vera opinberar kosningar, og við skulum segja, að rétt áður sé frambjóðandi íhaldsins búinn að ganga þarna til hvers manns og segja við hann: Ja, þú færð bát, svo framarlega sem þú kýst með Sjálfstfl., og þú færð lán út á fisk, ef þú kýst með Sjálfstfl., og þú færð lóð undir hús, ef þú kýst með Sjálfstfl. Og þú færð lán til þess að byggja, segir hann við annan, ef þú kýst með Sjálfstfl. Svo koma menn á kjördeginum, og frambjóðandi Sjálfstfl. stendur inni við kjörborðið, eins og tíðkaðist hjá þeim í gamla daga, og hver maður er leiddur fram eftir annan og spurður: Ja, hérna Jón Jónsson, hvernig kýst þú? Og frammi fyrir honum stendur maðurinn, sem hefur húsið, lánið, bátinn, allt saman í sinni hendi, og hinn á að svara. Þetta er það, sem form. Sjálfstfl. álítur að mundi vera beztur úrskurður um raunverulegan vilja fólksins, og máske þó annar úrskurður enn þá betri eftir hans áliti, og það er að menn taki sig til, t.d. útsendarar Sjálfstfl., gangi í hvert hús um það leyti, sem eigi að fara að úthluta einhverju mikilvægu, t.d. því, sem erfiðast hefur verið að fá í Reykjavík, lóðum undir hús, og segi við hvern: Ja, skrifa þú hér upp á, og þú skalt fá lóð. — Ég veit ekki, hvort þetta hefur kannske verið reynt í Kópavoginum, en a.m.k. virðist það vera þessi regla, sem eigi að fara að innleiða nú. Það var gerð smátilraun með þetta í sambandi við löggjöfina um smáibúðirnar og smáíbúðalánin. Og formaður sjálfstæðisfélagsins í Reykjavík og formaður framsóknarfélagsins í Reykjavík voru settir til að úthluta því rétt fyrir kosningar, þannig að við sjáum nokkurn veginn, hvað það er, sem er meiningin með þessum hlutum.

Íslenzk alþýða hefur orðið að berjast fyrir því árum og áratugum saman að fá fram leynilegar kosningar. Hún hefur orðið að berjast fyrir því, vegna þess að hún hefur átt undir högg að sækja. Yfirstétt landsins hefur á hverjum tíma haft ráð hennar mjög mikið í hendi sér, og leynilegi kosningarrétturinn var ráð alþýðunnar til þess að skýla sér gagnvart þeim ofsóknum, sem yfirstéttin eila hefði beitt. Nú virðist svo sem hjá auðmannaklíkunni hér í Reykjavík sé sú tilhneiging að koma fram aftur, að þetta séu hentugustu aðferðirnar. Og þegar sjálfur forsrh. landsins og formaður stærsta flokksins, Sjálfstfl., flokks auðmannastéttarinnar í Reykjavík, gefur þá yfirlýsingu, að það sé beztur úrskurður um raunverulegan vilja fólksins að lofa því að greiða atkv. opinberlega, þá er auðséð, að hér er á ferðinni stefnubreyting, tilraun til þess að knýja fram alveg nýjar aðferðir hér á Íslandi. Og um leið og hæstv. forsrh. var að halda þessa ræðu, var hann svo að kvarta um, að það væri ekki hægt að fá að tala um lýðræði á Íslandi fyrir framíköllum frá mér, og var að státa af því, að ég væri af einhverju allt öðru sauðahúsi en hann, ég væri alls ekki í anda þess lýðræðis, sem stjskr. Íslendinga gerði ráð fyrir. Ég verð nú að spyrja: Hefur hæstv. forsrh. ekki kynnt sér stjórnarskrá Íslands? Veit hann ekki um ákvæðin um leynilegan kosningarrétt, sem hann hefur þó verið kosinn með undanfarin ár? Eða gefur hann þessa yfirlýsingu sem beina vísvitandi yfirlýsingu Sjálfstfl. um, að hann ætli að beita sér fyrir breytingum á þessu? (Gripið fram í.) Já, hvað kallar hæstv. forsrh. fram í? Máske er þetta ekki aðeins yfirlýsing frá Sjálfstfl. í þessu efni. Hæstv. forsrh. sagði, að þeir væru hér þrír umboðsmenn lýðræðisflokkanna. Það var nú ekkert smáræði, sem hann tók upp í sig. Hann var svo sem ekki einn. Nei, þeir voru þrír umboðsmenn lýðræðisflokkanna. Og mér virtist hann helzt vilja lýsa yfir fyrir þeirra hönd, að þeir heimtuðu allir saman afnám leynilegra kosninga á Íslandi. Og ég vil leyfa mér að spyrja, hvort hæstv. forsrh. talar í nafni þeirra meðflm. sinna og gefur þessa yfirlýsingu í þeirra nafni. Ég vil leyfa mér að beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh. og til framsóknarmannanna, hvort þetta sé þeirra skerfur til undirbúnings næstu kosninga, að ætla að standa með íhaldinu í því að knýja fram opinberar kosningar héðan af og afnám leynilegra kosninga á Íslandi. Og ég vil leyfa mér að spyrja hv. 5. landsk. (EmJ), sem er meðflm. þarna, hvort þetta sé máske hans meining líka. Ég þykist þó vita, að því fari allfjarri, að svo sé. En þá held ég sé full þörf á fyrir flutningsmenn þessa frv. að aðgæta, hvað þeir eru að gera, og endurskoða afstöðu sína með þessu frv., og hvort það sé ekki bezt fyrir þá að hætta við að flytja þetta frv.

Nú mundu máske einhverjir vilja segja, að þessi yfirlýsing hjá hæstv. forsrh. um, að hann álíti bezt að koma á opinberum kosningum á Íslandi, hafi ekki verið eins vel yfirveguð frá hans hálfu og ég vildi vera láta. Ef til vill mundu einhverjir vilja segja, að þetta hafi nú verið hálfklaufaleg yfirlýsing hjá honum, skroppið út úr honum, e.t.v. hafi þetta búið undir niðri, en alls ekki verið ætlazt til þess, að þetta kæmi á yfirborðið. En þá vil ég segja eitt. Einmitt það frv., sem hér liggur fyrir, byggist á þessum vilja og þessari yfirlýsingu um afnám leynilegra kosninga á Íslandi. Því fer nefnilega fjarrí, að það hafi þarna skotizt upp hjá hæstv. forsrh. bara einhver leynilegur draumur auðmannanna hér í Reykjavík um, hvernig kosningafyrirkomulagið eigi að vera í framtiðinni á Íslandi. Það er meira, sem býr þarna á bak við. Samþykkt þessa frv. hér á Alþ. mundi vera fyrsta skrefið í þá átt að gera opinberar kosningar rétthærri en leynilegar. Þess vegna er þessi yfirlýsing hæstv. forsrh. full alvara. Það, sem þetta frv. felur í sér og öll þess grg., er það, að Alþ. eigi aðeins að taka tillit til undirskrifta, til opinberra undirskrifta, kannske falsaðra, kannske þvingaðra, en a.m.k. bara tillit til opinberra undirskrifta, en ekki til leynilegrar atkvgr. Það, sem þetta frv. felur í sér, er það, að Alþ. á að dæma eftir undirskriftum og framkvæma eins og það hefðu verið kosningar, sem fram færu, þegar undirskriftunum hefur verið safnað, en ekki að haga sér samkv. stjskr. landsins og í anda þess lýðræðis, sem stjskr. Íslendinga fyrirskipar, að kjósendur fái að láta í ljós sínar skoðanir við leynilega atkvgr., með leynilegum kosningum. Þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh. og formanns Sjálfstfl. hefði maður máske getað tekið eins og hvert annað gaspur, hvert annað orð, sem skroppið hefði út að óvörum, svo framarlega sem það væri ekki mælt í þessu máli, þar sem á að þvinga Alþingi, knýja Alþ. til þess að dæma eftir opinberum kosningum, eftir opinberri atkvgr., í staðinn fyrir að láta fara fram leynilega atkvgr. Einmitt vegna þessa er þetta frv. frekja gagnvart Alþingi og brot á öllu lýðræði, öllu því lýðræði, sem stjórnarskrá Íslendinga gerir ráð fyrir. Ef þetta frv. væri staðfest, þá væri þar með beinlínis verið að gefa yfirlýsingu af Alþingis hálfu um, hvert væri verið að stefna. Það er vitanlegt, að hin löglega hreppsnefnd Kópavogshrepps hefur þegar ákveðið leynilega atkvgr. 24. apríl, eftir 20 daga, um þessi áhugamál íbúa hreppsins. Leynileg atkvgr. er eftir stjskr. sú aðferð, sem menn eiga að fá að láta í ljós sínar skoðanir með. En hér koma nokkrir menn, sem kalla sig umboðsmenn lýðræðisflokkanna þriggja, og tilkynna: Vilji fólksins kemur bezt í ljós með opinberum undirskriftum. — Og síðan ætlast þeir til, að Alþ. leggi blessun sína yfir þessa nýju aðferð, sem þeir vilja fara að innleiða við stjórn á ekki aðeins sveitarstjórnarmálefnum á Íslandi, heldur líka viðvíkjandi löggjafarstarfinu á Alþingi.

Þess vegna er þessi yfirlýsing frá hálfu hæstv. forsrh. og form. Sjálfstfl. athyglisverð og þess virði, að líka þeir menn, sem fram að þessu hafa kannske hugsað sér að standa með svona frv., rísi upp gegn því, að þeir sjái, að svo framarlega sem farið væri inn á þessa braut, þá væri verið að stíga fyrsta skrefið til þess að neita kjósendum á Íslandi um að láta sína skoðun í ljós með leynilegri atkvgr. og löggilda opinbera atkvgr. og opinberar kosningar sem þá aðferð, sem eigi að vera í anda hins nýja lýðræðis, sem auðmannaklíkan hér í Reykjavík vill fara að innleiða. Hins vegar skal ég vissulega viðurkenna það, að hæstv. forsrh. er ekki einn þeirra valdsmanna, sem hafa verið yfir Íslandi, um þá skoðun, að undirskriftir, opinberar undirskriftir, séu heppilegastar til þess að knýja fram vilja valdhafa gegn lýðréttindum og gegn þjóðréttindum Íslendinga. Henrik Bjelke var alveg á nákvæmlega sömu skoðun. Það er alls ekki í fyrsta skipti núna, sem undirskriftum hefur verið safnað í Kópavogi. Það hefur verið safnað undirskriftum í Kópavogi áður. Og þessi Kópavogsyfirlýsing, sem hæstv. forsrh. nú hefur gefið, er yfirlýsing á móti lýðréttindum Íslendinga, þeim lýðréttindum, sem við höfum verið að berjast fyrir áratugum saman. Og það er eins gott, að hv. alþingismenn geri sér ljóst, að það er ekki nóg að berjast fyrir leynilegum kosningum og fá þær í gegn, það þarf líka að sýna hug til þess að þora að halda í þær og til þess að láta ekki strika þær út, hvenær sem yfirstéttarklíkunni í landinu býður svo við að horfa. Grunnsteinn þess lýðræðis, sem við búum við nú, eru leynilegar kosningar. Og svo framarlega sem á nú, eins og þegar forsrh. einnar stjórnar gefur slíka yfirlýsingu og formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins, að fara að strika það burt sem grundvallaratriði stjórnarskrárinnar, þá sést, hvert við erum að fara.

Það var 1908 í fyrsta skipti, sem kosið var leynilegum kosningum hér á Íslandi. Og það hafa aldrei róttækari kosningar svo að segja farið fram hér á Íslandi. Það hefur aldrei sýnt sig betur, hvernig sú alþýða, sem áður naut sín ekki, tók í strenginn með þjóðréttindum og lýðréttindum Íslendinga, en einmitt þá.

Eftir þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh. er þetta mál þess vegna miklu þýðingarmeira en það var áður. Þetta verður prófsteinn á, hvert eigi að ganga í baráttunni fyrir lýðræði á Íslandi, hvort það eigi að stiga spor aftur á bak til opinberra kosninga og opinberrar atkvgr. eða hvort við eigum að halda áfram að varðveita þann grundvöll, sem kostaði okkar forfeður langa baráttu að fá, að alþýða manna fengi að tjá sínar skoðanir með leynilegum kosningum.

Þetta vildi ég segja viðvíkjandi yfirlýsingu hæstv. forsrh. og viðvíkjandi þeirri aðferð, sem hefur átt að tryggja þessu frv. framgang hér á Alþingi.

Þá er í öðru lagi rétt að koma nokkuð inn á í sambandi við þetta mál, hvaða afstöðu hrepparnir hafa í okkar þjóðfélagi og hvaða tillit okkur hér á Alþ. ber að taka til þeirra.

Hrepparnir voru frá fornu fari eitt lýðræðislegasta skipulagið á Íslandi. Strax á þjóðveldistímanum og lengi vel fram eftir voru þeir bókstaflega vigi fyrir réttindi lýðsins og samtakaform fyrir bændurna í þeirra baráttu gegn erlendri kúgun. Og það er nauðsynlegt, að við gerum okkur ljóst, að þegar eitt ríkisvald og það ekki sízt ríkisvald eins og nú er í höndum auðmannaklíkunnar hér í Reykjavík ætlar að fara að herða að sjálfstæði hreppanna og svipta kjósendur í einum hrepp réttindum til þess að útkljá sín mál á lýðræðislegan hátt, þá er um leið verið að vega að því sjálfstæði, sem hrepparnir frá fornu fari hafa haft hér á Íslandi. Afskipti ríkisvaldsins af hreppunum í gegnum alla okkar sögu hafa verið með því móti, að ríkisvaldið sem tæki yfirstéttar hefur reynt að brjóta hreppana niður og þeirra upphaflega sjálfstæði og gera þá smám saman að tæki í höndunum á ríkisvaldinu. Frá því að tekið var að endurreisa lýðræði í sambandi við hreppana, um 1874 og þar í kring, hefur þess vegna verið mestmegnis hafður sá háttur á, líka af Alþingis hálfu, þegar ákvörðun hefur verið tekin um hreppa og hreppaskiptingu, að reyna að ráðgast við íbúa viðkomandi hrepps, reyna að ræða við þá í ró og friði um þessi mál, reyna að gefa þeim tækifæri á lýðræðislegan hátt til að láta sína skoðun í ljós og komast þannig að sem**** 2 umferð beztri og óhlutdrægastri niðurstöðu um, hvaða aðferðir séu heppilegastar til að leysa vandamál hreppanna. Og þetta hefur þá ekki verið gert í anda lýðræðis, sem hæstv. forsrh. hér var að boða um opinberar kosningar, heldur í anda þess lýðræðis, sem ákveðið er í okkar stjórnarskrá, með leynilegum kosningum. Og ég held, að það sé rétt að hafa þennan hátt á viðvíkjandi íbúum Kópavogshrepps. Ég held, að það sé rétt að gefa þeim tækifæri til þess að láta sínar skoðanir í ljós á þann hátt, sem okkar stjórnarskrá gerir ráð fyrir, með leynilegum kosningum, með leynilegri atkvgr. um, hvernig þeir vilja koma sínum málum fyrir.

Það er engum efa bundið, að það er rétt, sem þeir hafa haldið fram, sem ella eru á öndverðum meiði í þessu máli, að sjálf tilvera Kópavogshrepps er nokkurt vandamál. Í þessu frumvarpi er talað um að gera Kópavogshrepp að sjálfstæðum kaupstað, Kópavogskaupstað. Hugtakið kaupstaður í íslenzku máli byggist á því, að skapazt hafi í sambandi við heppilegar samgöngur, venjulegast við útlönd, nokkur markaðsmöguleiki og verzlunarstaður, sem síðan er gerður að kaupstað. Þannig hafa allir kaupstaðir, sem nú hafa það sem kallað er kaupstaðarréttindi á Íslandi, myndazt, hvort sem menn vilja athuga sjálfa Reykjavík, Akureyri, Ísafjörð eða aðra. Sjálfan grundvöllinn að því, sem felst í hugtakinu kaupstað, vantar raunverulega Kópavogshrepp. Þær forsendur eru ekki þarna fyrir hendi á sama hátt og þær hafa verið í flestöllum öðrum kaupstöðum og hreppum, sem gerðir hafa verið að kaupstöðum á Íslandi. Það vantar allan þann sjálfstæða atvinnu- og verzlunargrundvöll, sem allir kaupstaðir á Íslandi hafa byggzt á.

Og þetta er ákaflega alvarlegt vandamál fyrir íbúa þess hrepps. Meðan þetta hefur verið hreppur út úr gamla Seltjarnarneshreppnum, sem sjálf Reykjavík er hluti af, hefur raunverulega verið litið svo á, að hreppsbúarnir í Kópavogshreppi, eins og hreppsbúarnir í Seltjarnarneshreppnum, t.d. hér úti á nesinu, væru raunverulega allir saman hálfgerðir Reykvíkingar, að þeir ættu að hafa öll sömu réttindi og venjulegir Reykvíkingar. Þess vegna hafa ekki að neinu leyti gilt gagnvart þeim — og þeir ekki heldur gert það sjálfir — þau sérstöku réttindi og um leið þær sérstöku takmarkanir, sem fylgja því í öllum mögulegum lögum, iðnlögum og öðrum, að vera sérstakur kaupstaður.

Mennirnir, sem búa í Kópavogshreppi, það eru menn, sem hafa raunverulega flúið frá íhaldsstjórninni í Reykjavík. Þeir hafa flúið frá erfiðleikunum við að fá lóðir og byggingarleyfi í Reykjavík. Þeir hafa getað notfært sér nokkurt frelsi í Kópavogshreppi, sem þeir fengu ekki að njóta í Reykjavík. Þeir hafa getað fengið þar lóðir, og þeir hafa getað fengið að byggja þar hús. Það hafa ekki verið eins nákvæmar og harðvítugar ráðstafanir, sem þeir þurftu að fullnægja samkv. lögum viðvíkjandi sínum húsum. Íbúarnir í Kópavogshreppi hafa unnið stórvirki þarna suður frá. Allir þeir, sem þekkja Kópavogshálsinn eins og hann var þegar menn í gamla daga urðu að ganga hér á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, hljóta að dást að því, hvað íbúarnir í þeim hrepp hafa afrekað — og það mikið til eftir sinn venjulega vinnutíma — í því að ryðja burt öllum þeim klettum og öllu því stórgrýti, sem þarna var fyrir, og vera búnir að byggja þarna upp stærsta hrepp í landinu. Þeir hafa unnið afreksverk í skjóli þess, að þeir voru frjálsir af þeirri kúgun, sem beitt var af íhaldsstjórninni hér í Reykjavík, og því sleifarlagi, sem var á úthlutun lóða. En þeir hafa allir eftir sem áður orðið að hafa sinn atvinnugrundvöll, sinn lífsgrundvöll hér í Reykjavík Það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að íbúar þessa hrepps þurfi mjög vel að athuga, hvaða hátt þeir vilja hafa á um framtíðarstjórn sins hrepps.

Við höfum áður haft svipuð vandamál og þessi hér fyrir Alþ. Glerárþorp og Akureyri hafa verið sameinuð nú, en það var lengi vel aðskilið, þannig að Glerárþorp var hluti af sérstöku hreppsfélagi og Akureyrarbær átti samt meira að segja allar lóðirnar þar. Það voru margs konar erfiðleikar fyrir Glerárþorpsbúa, sem stöfuðu af þessu. Þetta mál var rætt og yfirvegað af beggja hálfu vel og rækilega í ró og friði, án þess að nokkrir þrír umboðsmenn lýðveldisflokkanna kæmu hér með frv. og yfirlýsingar og annað slíkt og ætluðu að heimta allt slíkt í gegn. Og það varð fullt samkomulag á endanum um, hvernig heppilegast mundi vera fyrir framtíðina að koma þessum miklu hagsmunamálum Glerárþorpsbúa fyrir og um leið að tryggja þeirra rétt á Akureyri, og Akureyri og Glerárþorp voru sameinuð í eitt lögsagnarumdæmi Akureyrar.

Það er því engum efa bundið, að spurningin um sameiningu við Reykjavík er mál, sem Kópavogsbúar áreiðanlega yfirvega sem eina af þeim leiðum, sem komi til greina fyrir þá og komi mjög raunhæft til greina við lausn á þeirra vandamáli. Eins og Reykjavík sjálf er allur Kópavogshreppurinn bara hluti af þeim gamla Seltjarnarneshreppi. Og það er e.t.v. ekkert undarlegt, þó að ýmsir þeir, sem hugsa stórt viðvíkjandi Reykjavík framtíðarinnar, álíti, að hún ætti þó a.m.k. að ná yfir allan þann gamla Seltjarnarneshrepp. Sumir hafa tekið meira upp í sig, og jafnvel er farið að leggja hluta af þeim gamla Mosfellshreppi undir Reykjavík. Hins vegar er í fyrsta lagi vonandi, að um það leyti sem farið væri að dreyma þá drauma og framkvæma þá fyrir stækkaða Reykjavík, þá þyrftum við ekki lengur að búa við þá íhaldsstjórn og þann íhaldsmeirihluta, sem við höfum haft í Reykjavík nú um nokkurt skeið og flæmt hefur burt þá menn, sem nú byggja Kópavogshreppinn að mestu leyti. Enn fremur er líka hitt alveg ljóst, að borg — og það eins stór borg og Reykjavík er að verða og mun að öllum líkindum verða — þarf með sínu skipulagi að tryggja rétt hinna einstöku borgarhluta allt öðruvísi og betur en nú er gert, eins og allar höfuðborgir líka gera. Það hefur verið gersamlega óviðunandi, hvernig búið hefur verið um þá aðila, sem hafa byggt upp úthverfi Rvíkur, það er alveg óviðunandi, að það verði þannig til frambúðar, og það er óhugsandi annað en að það verði knúið fram í þeirri stækkandi Reykjavíkurborg, að hinir einstöku borgarhlutar geti haft nokkra sjálfsstjórn um sín sérmálefni og samstarf um það, sem þýðingarmest er og hagfelldast að menn vinni algerlega saman um a.m.k. eru mál, sem er nauðsynlegt að íhuga í þessu sambandi, ekki sízt þar sem um sjálfa höfuðborgina er að ræða.

Nú eru sumir kannske að segja, að af því að talið sé, að Kópavogshreppurinn sé svo rauður, eins og íhaldið kallar það, mundi íhaldið aldrei nokkurn tíma verða með því að sameina Kópavogshrepp Reykjavík. Þeir ættu á hættu að missa þar meiri hlutann. Margt ljótt má nú segja nm íhaldið, en hitt verð ég að segja, að það er ekki svo hrætt, að það þyrði ekki að sameina þetta; þvert á móti. Sjálfur borgarstjórinn í Rvík hefur einmitt við hátíðleg tækifæri gefið þær yfirlýsingar, að Reykjavíkurborg muni í framtíðinni líka ná yfir núverandi Kópavogshrepp, og hans yfirlýsing stendur. Það er mjög leitt, að hann skuli ekki vera viðstaddur á Alþingi til þess að ræða þetta mál nú, en ég býst við því, að þetta mál verði hvort sem er látið bíða, þangað til hann kemur til baka, þannig að hann fái tækifæri til að segja sitt orð um þetta mál og standa við sínar fyrri yfirlýsingar um það, að frá hans sjónarmiði sé eðlilegt, að Kópavogshreppur sameinist Reykjavík.

Hver er þá vilji sjálfra íbúanna í Kópavogshreppi í þessum efnum? Um hann vitum við að vísu ekki enn þá, vegna þess að um þetta mál hefur enn þá ekki farið fram leynileg atkvæðagreiðsla, en það virðist svo sem renna megi nokkurn grun í, hvernig a.m.k. þeir, sem undirskriftunum hafa safnað, hafa haldið að vilji íbúanna í Kópavogshreppi væri. Haus undirskriftaskjalanna hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við undirritaðir kjósendur í Kópavogshreppi skorum hér með á hið háa Alþingi að gera núverandi Kópavogshrepp að sérstöku lögsagnarumdæmi með fullum kaupstaðarréttindum á þingi því, er nú situr, enda rýrir það ekki möguleika á sameiningu við Rvík síðar meir.“

Þetta orðalag, og sérstaklega þetta mjög einkennilega orðalag, að nota þarna „rýrir“ í staðinn fyrir „rýri“, virðist benda til þess, að þeir menn, sem með þessi undirskriftaskjöl ganga, vilji fullvissa þá, sem undir skjölin skrifa, að það sé alls ekki verið að stíga neitt spor, sem að neinu leyti drægi úr möguleikum á sameiningu við Reykjavík síðar meir, og þeir virðast gera ráð fyrir því, að þeir, sem undir skjölin eigi að skrifa, vilji gjarnan hafa þá leið opna að geta sameinazt Reykjavík síðar meir. En svo er lagt fyrir Alþingi frv. um að gera Kópavogshrepp að sérstökum kaupstað, og í stuttri grg. þess frv. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fjölmennum borgarafundi í Kópavogshreppi, sem haldinn var 18. þ. m., var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða að skora á Alþingi að gera Kópavogshrepp að sérstöku lögsagnarumdæmi með fullum kaupstaðarréttindum á þingi því, sem nú situr. Jafnframt hafa borizt áskoranir sama efnis til Alþingis frá 760 Kópavogsbúum, 21 árs eða eldri.“

Ekki er eitt orð um það í grg., hvernig hausinn hafi verið, sem þessir 760 Kópavogsbúar voru látnir skrifa undir; ekki eitt orð um það, að þessir menn hafi verið látnir skrifa undir yfirlýsingu um, að þó að þeir tjái sig fylgjandi þessu frv., þá megi það ekki rýra möguleika á sameiningu við Reykjavík síðar meir.

M.ö.o.: Í þeirri grg., sem flm. þessa frv. leggja fyrir Alþingi, er falsaður vilji þeirra kjósenda, sem þeir segja að standi með þessu frv., og ekki tilgreint rétt fyrir Alþingi, hvað það er, sem þessir 760 Kópavogsbúar eru látnir undirskrifa. Alþingismenn verða að fara í frumheimildirnar um, hvernig hausinn sé orðaður, sem mennirnir í Kópavogshreppi eru látnir undirskrifa, til þess að fá að vita, hvaða vilji það sé, sem þeir eru að láta í ljós.

Þetta er allmikil ósvinna af hálfu flm. þessa frv. að leggja fyrir Alþingi þessa hluti þannig túlkaða, og út yfir gengur þó, þegar félmrn. nú sendir þessi undirskriftaskjöl hingað til Alþingis bréflaust, þetta er lagt hér fram hjá okkur í lestrarsal og það fyrsta, sem við þingmenn rekumst á, þegar við förum að ganga í gegnum þetta, það er heil síða af undirskriftum, allar saman með sömu hendinni, nákvæmlega sömu hendinni, og haldið áfram með sömu hendinni á næstu síðu á eftir. Það er eins og félmrn., þegar það sendir okkur þetta hingað á Alþingi, vilji undirstrika við okkur: Hér sjáið þið. Svona er það sem kosningaskipulagið á að vera á Íslandi í framtíðinni, vilji kjósenda kemur bezt í ljós með opinberri atkvæðagreiðslu, og það er jafnvei enn þá öruggara, að sú opinbera atkvgr. fari fram á þann hátt, að góður trúnaðarmaður hinna þriggja lýðræðisflokka undirskrifi fyrir kjósendur, hann skrifar kannske betur en ýmsir kjósendurnir, hugsar félmrn. Þess vegna setur félmrn. þetta skjal fremst til þess að Alþingi nú þurfi ekki að efast um, hvernig kosningaskipulagið eigi að vera á Íslandi í framtíðinni.

Það er stundum talað um virðingu fyrir Alþingi, og meira að segja hæstv. ríkisstj. er stundum að kvarta yfir því, að Alþingi sé ekki sýnd nægileg virðing, og sýnir hún því þó litla virðingu venjulega. En þetta, að leggja svona plögg fyrir okkur, svona grg. og fyrstu skjölin, undirskriftirnar, skrifaðar allar saman með sömu hendinni, án þess að ein einasta þeirra sé handsöluð, án þess að það sé gerð grein fyrir því, af hverju einn maður skrifar þetta allt saman, það er ósvinna, það er virðingarleysi gagnvart Alþingi. Þetta virðist eiga að verða prófsteinninn á kosningaskipulag íhaldsins í framtiðinni. Ja, það verður líklega ekki vandi fyrir Þorvald Garðar í Vestur-Ísafjarðarsýslu næst.

Ég held þess vegna, að það sé tími til kominn, að Alþingi taki hér í taumana, að við tryggjum, að vilji kjósenda fái að koma í ljós á lýðræðislegan hátt, á þann hátt, sem stjórnarskrá Íslendinga mælir fyrir, ekki með aðferð Henriks Bjelke eða hinna þriggja umboðsmanna lýðræðisins — eða íhaldsins — að vilji kjósendanna fái að koma í ljós í leynilegri atkvgr. í Kópavogshreppi 24. apríl, hvernig þeir vilji hafa sín mál í framtíðinni, og síðan þegar þeir hafa tjáð sinn vilja, þá séu teknir upp samningar um þau mál, hvort það er við Reykjavíkurbæ, ríkisstj. eða aðra, á grundvelli þess álits, sem þá kemur í ljós, — að þetta mál sé tekið fyrir eins og venjulega hefur verið með svona mál, það sé reynt að finna út heppilegasta lausn fyrir íbúa viðkomandi hrepps, það sé rætt um þessi mál án pólitísks ofsa og ofstopa og það sé reynt að finna þá lausn á þessum málum, sem heppilegust sé fyrir þá, sem eiga við lausnina að búa í framtíðinni.

Við hér á Alþingi höfum oft þurft að ræða um lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, og það hefur margt verið talað í þeim efnum um framtíð Reykjavíkur. En ég man ekki eftir, að það hafi nokkurn tíma komið fram sú uppástunga áður í öllum þeim umræðum, að Reykjavíkurbær æskti sérstaklega eftir því, að það yrði myndaður sérstakur kaupstaður á milli hans og Hafnarfjarðar. Ég held þess vegna, að þetta mál, sem snertir Kópavogshreppinn og hans framtíðarskipulag, sé mál, sem líka eigi að ræða við Reykjavík, við bæjarfulltrúana, við bæjarstjórn Reykjavíkur, við þingmenn Reykjavíkur, og að athuga, hvort ekki sé hægt að finna þarna út aðferðir við skipulag framtíðarinnar, sem bæði núverandi Kópavogsbúar og núverandi íbúar Reykjavíkur gætu sætt sig vel við. Það hefur hingað til verið vilji bæjarstjórnar Reykjavíkur að stækka Reykjavík. Og ég efast ekki um, að þegar Reykjavík — vonandi mjög bráðlega — verður betur stjórnað en nú er, — íhaldið er, eins og menn vita, í minni hluta í Rvík, en slampaðist á að fá meiri hluta í bæjarstjórninni seinast, af því að vinstri flokkarnir stóðu ekki saman, þó að þeir annars hafi meiri hluta Reykvíkinga á bak við sig, — ég efast ekki um, að þegar Reykjavík verður betur stjórnað í framtíðinni og það mjög náinni framtíð, þá þurfi menn ekki að flýja hana til Kópavogshrepps til þess að geta fengið að byggja og til þess að geta fengið að lifa. Ég vonast til þess, að það verði hægt að koma á þannig stjórn í Reykjavík, að íbúar Kópavogshrepps hefðu sama vilja og Reykvíkingar ættu líka að fá að hafa til að finna út samkomulagsleið fyrir báða þessa aðila, sem báðir mættu vel við una. Ef þetta er athugað og rætt án alls pólitísks ofurkapps eins og þess, sem nú hefur verið hleypt í þetta mál, og sérstaklega án þess ofbeldis og ofbeldishótana, sem hafðar hafa verið í frammi í sambandi við opinberar atkvæðagreiðslur og annað slíkt, þá efast ég ekki um, að það megi finna lausn á þessu máli.

Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. minntist á ályktun sýslunefndar Kjósarsýslu og skilyrðin, sem hún hefði sett og prentuð eru í grg. sem fskj. nr. I, og sagði, að þeim skilyrðum hefði verið fullnægt. Skilyrði sýslunefndar Kjósarsýslu voru þau:

1) Að sveitarstjórn, þ.e. hennar meiri hluti, óski eftir svona breytingu. Það skilyrði liggur ekki fyrir.

2) Að meiri hluti íbúa óski eftir slíkri breytingu. Sá vilji liggur ekki fyrir. Það á að leita hans 24. apríl á þann eina hátt, sem íslenzk stjórnarskrá og íslenzk kosningalög gera ráð fyrir, með leynilegri atkvæðagreiðslu, og hann liggur ekki fyrir þangað til, ekki á neinn þann hátt, sem Alþingi Íslendinga tekur til greina.

3) Að sýslunefnd, þegar þetta tvennt lægi fyrir, mælti með.

Hæstv. forsrh. sagði bara einfaldlega: Ja, skilyrðum sýslunefndar er fullnægt. — Hann hafði auðsjáanlega ekki haft fyrir að lesa skilyrði sýslunefndar. Hann hafði hvorki haft fyrir að kynna sér hausinn á undirskriftaplagginu, sem safnað hafði verið í Kópavogi, né lesa skilyrði sýslunefndar Kjósarsýslu, tilkynnti bara, að öllum lýðræðisreglum væri fullnægt og öllum skilyrðum sýslunefndar Kjósarsýslu fullnægt. M.ö.o.: Þeim mönnum, sem hafa fengið hæstv. forsrh. til að bera fram þetta frv. hér á Alþingi, hefur hann auðsjáanlega treyst mjög vel, að allt væri þarna í fyllsta lagi, og talar þess vegna hér án þess að hafa rannsakað þetta mál að nokkru leyti sjálfur. Og það ætti að vera full ástæða til þess, að ef hinir tveir, sem flytja þetta mál með honum, taka sinn flutning á því til baka út af hans yfirlýsingu um það nýja lýðræði, sem íhaldið vill innleiða á Íslandi, þá ætti hann sjálfur að hætta við að þvinga þetta mál áfram, þegar þeir, sem fengið hafa hann til þess að flytja það, hafa búið það svona í hendurnar á honum.

En hver er þá ástæðan til þess, að hæstv. forsrh. lætur hafa sig til þess að flytja þetta mál? Það skauzt upp hjá honum, að það var meira formaður Sjálfstfl. en forsrh. landsins, sem var þar að verki. Hann fór að tala um gagnrýni á oddvitann, og hann fór að tala um, að það væri einlitur flokksmeirihluti. Það voru þá röksemdirnar fyrir framtíðarskipulaginu um Kópavogshrepp hjá hæstv. forsrh. landsins, að hann væri eitthvað á móti oddvitanum og hefði eitthvað út á hann að setja, og að það væri þarna einlitur flokksmeirihluti. Eftir því sem ég veit bezt, er hæstv. forsrh. ekki mjög illa við einlita flokksmeirihluta. Ég veit ekki betur en hann sé mjög státinn af einlitum flokksmeirihluta hér í Reykjavík, að vísu einlitum flokksmeirihluta í bæjarstjórninni, sem styðst við minni hluta kjósenda, en það er líklega réttur litur á þeim flokksmeirihluta. Og ég velt ekki betur en hæstv. forsrh. og hans flokk sé að dreyma um það að fá einlitan flokksmeirihluta hér á Alþingi. Að vísu dreymir þá aldrei um það með því að fá meiri hluta kjósenda á bak við sig, heldur með því móti að hafa minni hluta kjósenda á bak við sig, en meiri hlutann hér á Alþingi, þannig að ég skil nú ekkert í þessum ótta hæstv. forsrh. við einlitan flokksmeirihluta. Nú er það samt ekki einu sinni svo, ef hæstv. forsrh. væri mjög hræddur við einlita flokksmeirihluta, ef þeir væru ekki með réttum lit, að það sé einlitur flokksmeirihluti í Kópavoginum. Þar er bandalag framfarasinnaðra manna, sem hafa verið að reyna að stjórna fátæku hreppsfélagi, sem hefur átt við mikla erfiðleika að stríða, og hefur tekizt að vinna stórvirki á nokkrum árum. Það sér hver maður, sem sér þá byggð, sem risin er upp, og þar með líka stofnanir eins og barnaskólann, að það hefur verið unnið vel og unnið mikið, bæði af íbúum Kópavogshrepps og þeim, sem forustu hafa haft fyrir þeim. Ég held þess vegna, að hæstv. forsrh. hefði ekki átt að koma upp um það í sinni ræðu, að ástæðan til þess, að hann færi að gerast flm. að svona frv., væri, að honum líkaði ekki liturinn á meiri hl. hreppsnefndarinnar í Kópavogi. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Áður en ég held áfram, þar sem áður var frá horfið, vildi ég aðeins leiðrétta ein mistök, sem hafa orðið í minni ræðu áðan, þ.e., að þessir listar, sem eru fremstir í þessu samsafni, eru skýrðir á litlu blaði, sem fylgir með, en mér sást yfir áðan, þannig að þeir heyra ekki undir að neinu leyti þetta, sem ég vildi telja, að menn hefðu skrifað á fyrir aðra. Aftur á móti er í þessum listum, þegar maður fer í gegnum þá, og ekki sízt í listanum, sem er merktur með nr. 40, alveg auðséð, að hvað eftir annað er ekki bara að menn skrifi undir fyrir tvo, sem er kannske stundum ekki óvanalegt í sambandi við svona undirskriftasafnanir, maður og kona t.d., heldur að menn skrifi undir fyrir 6 og 7 manns. M.ö.o.: Þegar maður fer í gegnum þessa hluti og kynnist þessu, þá sést, hve gersamlega ófær sú kosningaaðferð mundi vera, sem hæstv. forsrh. vill nú fara að innleiða og vill fá Alþingi til að samþ. með því frv., sem hér liggur fyrir.

Svo er annað, sem er rétt fyrir okkur í viðbót við það, sem ég hef áður sagt, að athuga, þegar við erum að ræða um þetta mál. Það var alveg greinilegt, að það, sem fyrir hæstv. forsrh. og e.t.v. þeim, sem með honum standa þarna, vakti, var að framkalla nýjar kosningar í Kópavogshreppi með því að gera hann að kaupstað. Ja, ætli það mundu ekki vera fimmtu kosningarnar í átta ár, ef ekki sjöttu? Það er líklega einar fimm kosningar, sem eru búnar að vera þarna á átta árum. Þeim meiri hluta, sem starfað hefur undanfarið í Kópavogshreppi, hefur verið neitað um þann venjulega starfsfrið, sem flestallar hreppsnefndir og bæjarstjórnir í landinu hafa og telja sér alveg sjálfsagðan. Hann hefur verið lagður í einelti af því opinbera til þess að framkalla þarna sem allra mestan óróa, spilla því almenna friðsemdartímabili, sem venjulega er á milli kosninga og hægt er að nota til þess að framkvæma ýmis hagnýt mál í þessum hreppum og smáu kaupstöðum. Og allt þetta tímabil, sem þessar mörgu kosningar hafa verið þessi undanfarin átta ár, hefur svo um leið það opinbera gripið þarna inn í, ríkisvaldið, á þann hátt sem annars hefur ekki tíðkazt hér frá því á þeim dögum, þegar konungurinn og útlend stjórn áttu eða réðu megininu af jarðeignum á Íslandi. M.ö.o.: Ríkisvaldið hefur notað sér sitt vald sem jarðdrottinn í Kópavogi til alls konar afskipta af lóða- og lendaúthlutun þar, skapað með því hvers kyns tafir á úthlutun lóða og byggingum, eða reynt að skapa nýtt vald utan við hreppsnefndina, sem skyldi ráða því, hvernig þarna væri byggt, sem sé á allan hátt skapað þarna eins mikinn óróa og mögulegt var. Og nú á að kóróna þetta allt saman með því að knýja nú fram sjöttu kosningarnar a.m.k. og þá líklega helzt að hafa þær opinberar. Þegar svo er athugað allt það lénsskipulag, sem reynt hefur verið raunverulega að koma á þarna í Kópavogshreppnum af hálfu ríkisstj. í krafti síns jarðeignavalds, sér maður bezt, hvernig þarna er búið að og hve þetta er gersamlega öfugt við allt lýðræði. Ég vil þess vegna segja það, að þetta frv. til l. um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað, sem hér liggur fyrir, er eitt af þeim frv., sem Alþ. á ekki að láta ganga í gegn. Það á að bíða eftír því, að kjósendur í Kópavogshreppi fái sjálfir að ákveða um þessi mál, fái sjálfir að láta á venjulegan lýðræðislegan hátt með leynilegri atkvgr., eins og stjórnarskráin og kosningalögin mæla fyrir, sína skoðun í ljós um, hvernig þeir vilja haga sínum framtíðarmálum. Hvernig sú skoðun verður, það getum við ekki sagt hér í dag. Það eigum við hér á Alþ. ekki heldur að reyna að ætla að ráða eða stjórna fyrir fram. Það, sem okkur ber að gera, er, þegar við vitum, hverjar þessar skoðanir eru, að ræða málið, að athuga, á hvern hátt er helzt hægt að samræma lýðræðislegan vilja þessara íbúa og afstöðu þeirra annarra heilda í þjóðfélaginu, Reykjavíkurbæjar eða ríkisins, á hvern hátt er hægt að samræma þeirra hagsmuni, áhugamál og þeirra vilja sem bezt.

Ég álít þess vegna, að það offors og sá pólitíski ofsi, sem beitt hefur nú verið í sambandi við þetta mál, allan undirbúning þess og nú seinast flutning þess hér á Alþ., sýni, að svona á ekki að vinna að þessum málum og það er ekki í þágu íbúanna í Kópavogshreppi, að á þennan hátt sé unnið að þeirra framtíðarmálum. Aðferðin, eins og hún er nú orðin með framlagningu þessa frv., hvernig fyrir því er mælt, hvernig það er rökstutt, er hneyksli. Og það er þess vegna ekki að undra, þó að 1. flm. þess, hæstv. forsrh., verði á að gefa hér yfirlýsingar í sambandi við svona slæmt mál og svona slæman undirbúning, sem ég býst við að hann helzt kjósi að hefðu aldrei verið gefnar. Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, þó að þetta mál að öðru leyti fái þinglega meðferð, að hv. flutningsmenn sjái sér það sæmst að lofa þessu máli að sofna í friði og ró í þeirri n., sem það fer til, bíða eftir því, að kjósendur í Kópavogshreppi geti fengið að láta í ljós sina skoðun og sinn vilja á þann hátt, sem okkar stjórnarskrá og kosningalög mæla fyrir, með leynilegri atkvgr., og að Alþingi — og ef til Reykjavíkurbæjar kasta kemur bæjarstjórn Reykjavíkur — taki upp sína samninga við þennan stærsta hrepp landsins um hans framtíðarmál og reyni að ráða hans hagsmunamálum og hugðarmálum til lykta án þess að setja þar inn í neinn pólitískan ofsa eða ofbeldi, heldur taki tillit til hagsmuna þessa fólks og til vilja þess og reyni að samrýma sem bezt þeim vilja, sem mun koma fram hér hjá Reykvíkingum, ef það verður ofan á, að Kópavogsbúar, sem margt virðist nú benda til, m.a. þau gögn, sem hér liggja fyrir, óski eftir því. Ég vil þess vegna eindregið leyfa mér að vona, að hv. flutningsmenn þessa frv. sjái nú að sér um þetta mál og hætti við þá áætlun sína að knýja þetta mál gegnum þingið þvert ofan í þær kosningar eða þá leynilegu atkvgr., sem þar á að fara fram 24. apríl, lofi Alþingi að bíða í ró eftir henni og ræða þessi mál á þann hátt, sem á að ræða slík mál, þegar vilji kjósendanna í Kópavogshreppi liggur ótvíræður fyrir.