28.04.1955
Efri deild: 75. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1801)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég var minntur á einhverja grein, sem hefði birzt í einhverju kosningablaði, sem hv. síðasti ræðumaður hefur kynnt sér og man betur en ég. Ég mun að sjálfsögðu athuga, hvaða fyrirheit ég hef gefið mínum kjósendum í þessum efnum, en vil á þessu stigi málsins fullyrða, að það sé milljóna króna virði fyrir Kópavog að losna við stjórn hans á Kópavogi.

Ég hef ekki haft ánægjuna af því að heyra góðar ræður, sem hv. andmælandi þessa frv., 6. landsk. þm. (FRV), hefur viðhaft hér í þeim fjögurra eða fimm tíma ræðum, sem hann kann að hafa baldið um þetta mál. En þegar ég hef skotizt inn í d. öðru hverju, hefur mér fundizt hann vera meira og minna jafnan að tala um það sama, og bregður þá ekki mær vana sínum, því að þetta er alveg sama og hans flokksbræður gerðu í Nd., þegar þeir héldu samtals 7 klukkutíma og 18 mínútna ræður um málið, og talaði þá hver eftir öðrum og allir sömu ræðuna, eiginlega lítið annað en hefði mátt orða í nokkrum setningum.

Mér hefur heyrzt, að þessi hv. þm., hv. 6. landsk., hafi aðallega lagt áherzlu á tvennt í sínum ræðum. Annað er það, að sameina beri Kópavog og Reykjavík. Hann hefur fært, þegar ég hef skotizt hér inn frá öðrum önnum, ýmis rök fyrir því, að þetta sé eðlilegur gangur málsins og muni vera Kópavogsbúum til hinna mestu hagsbóta, þeir hafa ekki atvinnutæki til þess að standa undir eðlilegri atvinnuþörf hreppsins, og ýmisleg önnur rök hefur hann að þessu leitt.

Nú spyr ég hann: Ef þetta er svo, sé það í raun og veru sáluhjálparmál Kópavogsbúa að sameinast Reykjavík, hvernig stendur þá á því, að sá mæti forustumaður Kópavogsbúa, oddviti um mörg ár, sem hefur búið þar við einræðiskenndan meiri hluta, hefur aldrei látið sér detta þetta snjallræði í hug, fyrr en nú, þegar hann eygir, að völdin eigi að takast úr hans höndum til þess að fara með málefni þessa byggðarlags? Þetta er samvizkuspurning á örlagastundu, lögð fyrir þennan mæta mann, og ég veit, að hann lætur það ekki standa sér fyrir þrifum, þó að hann þurfi að skýra það í nokkuð langri ræðu á næturfundinum, sem hér mun verða eftir matarhléið.

Hitt meginatriðið, sem mér hefur skilizt hann leggja höfuðáherzlu á, er, að hér sé verið að beita kúgun. Ég hef gaman af spaugsömum mönnum, og mér hefur þótt hann flytja þessi rök með mikilli stillingu og talsverðum sannfæringarkrafti, án þess að mér hafi dottið í hug, að hann hafi meint nokkuð með þessum fullyrðingum. Honum er vel kunnugt um það, að heima í héraði hefur málið verið þannig rekið, að þó að það hafi verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að ná saman hreppsnefndarfundi til að ræða um þetta mál, hefur ekki auðnazt að koma á slíkum fundi. Þegar svo kjósendur í hreppnum voru úrkula vonar um eðlilega forustu í framkvæmd sinna óska fyrir milligöngu þessa aðila, sem í bili fer með stjórn hreppsins, þ.e.a.s. meiri hluta hreppsnefndar, þá gripu þeir til þeirra úrræða, eins og áður hefur verið skýrt frá, að halda um þetta fundi, og þrjú lýðræðisfélögin, sem héldu um þetta fundi hvert í sínu lagi, gáfu út yfirlýsingar um, að þetta væri eindreginn vilji kjósenda þessara flokka, og hv. 6. landsk. veit eins og ég, að þeir fara með vald eða umboð meiri hl. kjósenda í hreppnum. Hann tók ekkert tillit til þess.

Það næsta, sem gert var, var að boða til almenns kjósendafundar um þetta mál, þar sem allir voru boðnir og velkomnir. Á þeim fundi var borin fram till. til stuðnings þeim kröfum, sem felast í því frv., sem hér er til umr., og á þeim fundi fengu þær óskir svo að segja einróma undirtektir allra fundarmanna, þar sem allir flokkar voru boðnir og velkomnir.

Eftir þennan fund ákvað lið hv. 6. landsk. að hafa annan fund til að hrinda ákvörðun þessa fundar. Þeir boðuðu til hans sjálfir og buðu menn velkomna, en einnig á þeim fundi var svo ljós vilji manna á fundinum, að forustumennina brast kjark til þess að bera fram svo mikið sem ósk eða till. um andmæli gegn ákvæðum þess frv., sem hér er borið fram.

Eftir allt þetta og eftir að sýslunefnd Kjósarsýslu hefur látið í ljós ósk um, að fyrir liggi annaðhvort meðmæli hreppsnefndar Kópavogshrepps eða vilji kjósendanna, eiga lýðræðisflokkarnir ekki annars úrkostar en að leita álits kjósendanna með undirskriftaskjölum til þess þannig að þvinga oddvitann til að gera sjálfum sér ljóst, hvað kjósendurnir vilja. Þessi undirskriftaskjöl eru margrædd hér á Alþ., og þau eru undirrituð af 822 kjósendum af þeim 1351, sem eru á þeirri kjörskrá, sem nú liggur frammi í þessum hreppi.

Eftir allt þetta ákveður svo oddvitinn, sem er hv. 6. landsk., að ganga á það lag, að ýmsir Kópavogsbúar í ýmsum flokkum kunni að óska eftir því að sameinast Reykjavík, fremur en að leggja áherzlu á, að það frv., sem hér liggur frammi, verði lögfest. Atkvgr. um það ákveður hann sjálfur og hans meiri hl. að skuli fram fara 24. apríl, og hann gerir það, þegar það var almenn skoðun á Alþ., að takast mætti að ljúka þingstörfum 10. apríl, allt í því skyni að geta hindrað framgang málsins, að geta staðið fyrir þrifum þeim augljósa vilja kjósendanna, sem lá fyrir Alþ. með undirskriftaskjölunum.

Þessar kosningar fóru fram, og þær sýndu, að hans lið var ekki nema 494 menn á móti þeim 822, sem höfðu lýst þeim eindregna vilja, að þetta frv. næði fram að ganga.

Eftir allt þetta kemur svo þessi forustumaður hreppsins og berst með oddi og egg gegn því, að þessi vilji megi ná fram að ganga, og þetta gerir hann í nafni lýðræðis. M.ö.o.: Þegar kjósendur í þessum hreppi eru eftir lögformlegum leiðum búnir að leita allra úrræða til að fá fram almennan vilja í hreppnum og alltaf gegn andstöðu hv. 6. landsk., og þegar þrátt fyrir það augljóslega liggur fyrir greinilegur, stórkostlegur meirihlutavilji, þá er seinasta vígið að berjast hér á Alþ. með málþófi gegn þessum vilja.

Ég verð að játa, að margt, sem hv. þm. sagði og ég heyrði, var greindarlegt, eins og hans var von og vísa, en það minnti mig meira á köttinn, sem var að fara í kringum grautinn, heldur en rökræður um kjarna málsins. Og að lokum ber hann svo hér fram rökstudda dagskrá um það að fresta málinu, það er seinasta vígið, sem hann nú stendur í, þar sem hann vill láta samþykkja, að deildin telji tímabært, að tekin verði til athugunar skipun sveitarstjórnarmála í nágrenni Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Hví ekki að taka til athugunar skipun sveitarstjórnarmála yfirleitt í landinu? „Af þessum ástæðum,“ segir hann, „legg ég til, að ríkisstj. skipi 9 manna n. til þess að athuga og gera till. um, hvernig bezt verði fyrir komið til frambúðar skipun sveitarstjórnarmála í næsta nágrenni Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, þannig að bæði þessir bæir og núverandi nágrannasveitarfélög þeirra megi vel við una, og n. sé skipuð mönnum, tilnefndum af þeim sveitarfélögum öllum, sem hér eiga hlut að máli, og enn fremur sýslunefndum Gullbringu- og Kjósarsýslu.“

Ef þessi hv. þm. hefði á frumstigi þessa máls, eða við skulum segja, ef hann hefði út frá þeirri grundvölluðu sannfæringu, sem hann hér er að lýsa, talið, að Kópavogur eigi ekki að vera sérstakur hreppur, heldur eigi hann að vera hluti af Reykjavík, ef hann hefði á valdatímabili sínu, sem er orðið nokkuð langt, varpað fram þessari hugsun, þá getur vel verið, að hún hefði verið tekin alvarlega. En það dettur engum manni í hug í dag, að þessi rökstudda dagskrá sé borin fram í neinu öðru skyni en sem siðasta tilraun til að hindra, að vilji kjósendanna í þeim hreppi, sem hann veitir forstöðu, nái fram að ganga.

Ég skal svo að öðru leyti stilla mig um að andmæla hér ýmsum tyllirökum, sem hv. þm. hefur borið fram, af því að ég legg meiri áherzlu á, að þetta frv. nái samþykki Alþ., úr því að það á annað borð hefur verið borið fram, heldur en að taka þátt í því málþófi, sem hv. þm. vill nú stofna til hér. En ég vil þó aðeins segja það, að enda þótt eitthvað af þeim smíðagöllum, sem hann telur vera á þessu frv., mætti rökstyðja, sem ég þó mótmæli að sé hægt, þá gefur auga leið um, að það er ævinlega hægt, þegar búið er að lögfesta þetta frv. og lögleg stjórn hefur setzt þar að völdum, að breyta því í minni háttar atriðum, ef sú stjórn, sem við bæjarmálum tekur, hvort sem það er hann eða aðrir, telur það æskilegt. Tilraunin, sem gerð er nú til þess að bera fram þessar brtt., er af sama toga spunnin og allar tilraunir hans og hans flokksmanna hafa verið hér á þinginu; það eru aðeins tilraunir til þess að tefja framgang málsins og ekkert annað. Þessum mönnum er fullkomlega ljóst, að jafnvel þó að það kynni að styðjast við rök, að það svæði. sem hér er gert að lögsagnarumdæmi, væri stærra en eðlilegt er, þá skiptir það engu málí, ekki heldur í þeirra hugum, einfaldlega af því, sem ég sagði, að ef þeim mönnum, sem við stjórn þessa hreppsfélags munu taka, þykir ástæða til að breyta því, mun aldrei standa á Alþ. um það. Og ég veit einnig, að þessar tilraunir hér í d. eru gerðar til þess að reyna að fá hv. Ed. til með einhverri brtt. að koma málinu til Nd., þannig að þar sé hægt að hefja nýjan málþófsleik til þess að stöðva framgang málsins.

Ég mótmæli því, að hv. 6. landsk. hafi tekizt að benda á nokkur þau smíðalýti á þessu frv., sem megi valda því, að ástæða sé til að gefa flokksbræðrum hans í Nd. ný tækífæri til þess að þæfa málið þar, og ég held fast við það, að það er hjákátleg staðhæfing, þegar kjósendur í Kópavogshreppi hafa leitað stuðnings Alþ. til þess að fá framgengt vilja mikils meiri hluta kjósendanna í hreppnum, að þá skuli sá oddamaður minni hlutans, sem er að reyna að kúga meiri hlutann, koma hér til Alþ. og segja: Ef Alþ. hleypur undir bagga með meiri hlutanum, þá er Alþ. að kúga Kópavogsbúa. — Mér finnst furðu djarflegt af hv. 6. landsk. að leyfa sér, verandi forustumaður sveitarstjórnar þessa hrepps, að bera fram slík rök á Alþ., snúa staðreyndunum öllum við, bera þær sakir á meiri hlutann, sem meiri hlutinn með réttu getur borið á minni hlutann undir forustu hv. 6. landsk., og ætlast til þess, að þingið taki tillit til þess.

Ég verð svo að biðja hv. 6. landsk. afsökunar á því, ei honum þykir, að ég hafi gengið fram hjá einhverjum af þeim tyllirökum, sem flokksbræður hans hafa borið fram í Nd. og hann hér í Ed. Ég hef verið of önnum kafinn, m.a. við lausn kaupdeilunnar, sem hér hefur staðið illu heilli í 6 vikur nú að undanförnu, til þess að mega vera að því að sitja klukkutímum saman yfir þessum ræðuhöldum og hef auk þess ekki löngun til þess að eiga neinn þátt í að halda við málþófi um þetta mál, sem liggur augljóst fyrir og er hrein réttlætiskrafa þess meiri hluta, sem hana hefur borið fram.