28.04.1955
Efri deild: 75. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hér var lesinn upp kafli úr vel orðuðu ávarpi eftir mig. Þar hef ég lýst yfir, að Kópavogsbúar séu hvergi nærri einfærir um að rísa undir stofnkostnaðinum við að skapa fólki svipaða aðstöðu í Kópavogi sem íbúar Reykjavíkur eru aðnjótandi. Tel ég, að Kópavogshreppur eigi siðferðislega kröfu á hendur ríkissjóði í þeim efnum o.s.frv.

Ég veit nú, að jafnþingvanur maður og hv. 6. landsk. (FRV) gerir sér fulla grein fyrir því, að ríkissjóður hefur veitt sérhverju hreppsfélagi á þessu landi margvíslega aðstoð og því meiri sem þörfin hefur verið meiri, og ég veit, að honum er ljóst, að Kópavogur á þessa siðferðislegu kröfu og að henni verður í einu eða öðru formi fullnægt. Það er allt, sem um það er að segja. Ég stend þess vegna við stóru orðin; þakka honum að öðru leyti fyrir þann heiður, sem hann gerir mér með að treysta mér til þess að standa eftir kosningar við það, sem ég hef lofað fyrir kosningar. Ég veit, að ég er verðugur þessa lofs, en það er gott að fá þá viðurkenningu einnig frá andstæðingum.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta, svo að ég reyni ekki um of á þolinmæði hæstv. forseta og dm. Skal ég því stilla mig um að svara öðru í þessari stuttu ræðu hv. 6. landsk. en því einu, að hann lýsir því yfir, að hann hafi margrætt það við forustumenn Reykjavíkur, hvort ekki gæti komið til greina um sameiningu Kópavogs og Reykjavíkur. Ég má náttúrlega ekki um það staðhæfa, því að ég get ekki vitað, hvað fram fer milli hans og einhvers annars aðila, en þó liggur nú fyrir Alþ. yfirlýsing Reykjavíkurbæjar um þetta. Reykjavík segir: Það hefur ekki verið svo mikið sem orðað við okkur, að Kópavogur og Reykjavík sameinist. — Það stendur þá fullyrðing á mótí fullyrðingu í þeim efnum, en þetta er upphaf þeirrar yfirlýsingar, sem bæjarráð Reykjavíkur hefur gefið varðandi hugsanlega sameiningu, og bætir svo við, að það sé ekki einu sinni tímabært að taka upp samningaviðræður um þetta mál að svo stöddu.

Ég vil svo ekki vegna fundartímans þreyta þolinmæðina, herra forseti.