02.05.1955
Efri deild: 77. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég óska að segja um þetta frv. á þessu síðasta stigi þess hér í hv. d., áður en það verður gert að lögum. Ég vil í stuttu máli sagt óska þeim þremur lýðræðisflokkum, sem standa að samþykkt þessa frv., til hamingju með afrekið.

Ég vil þakka hæstv. forsrh., aðalflutningsmanni frv., fyrir hreinskilna yfirlýsingu hans um það, að aðalúrbótin, sem mínum sveitungum, Kópavogsbúum, sé ætlað að hafa af þessu máli, sé sú að losna við mig frá sveitarstjórnarstörfum, en hæstv. ráðh. lýsti því hér við 2. umr. málsins, að það væri milljónavirði fyrir Kópavogsbúa. Berari orðum er ekki hægt að segja það, að með samþykkt þessa frv. eru þrír lýðræðisflokkar að gera ráðstafanir til þess með lagasetningu á Alþ. að losna við pólitískan andstæðing frá störfum, sem hann hefur verið kosinn til ásamt öðrum í sínu héraði. Og það fer vel á því, að þetta hefur komið svo hreinskilnislega fram, að það hefur verið játað hér á hæstv. Alþ. og það af sjálfum hæstv. forsrh., því að þetta hefur líka verið játað opinberlega heima í héraði af forsprökkum þeirra sömu þriggja flokka, sem að málinu standa þar. Það er því óumdeilanlegt og liggur nú eins ljóst fyrir og verða má, að þetta er eini tilgangurinn af hálfu upphafsmanna og hvatamanna þessa máls bæði heima í héraði og hér á Alþingi. Sjálfur hef ég ekkert við þetta að athuga.

Mér kemur alls ekki á óvart, að andstæðingar mínir vilji losna við mig. Við, sem hér sitjum, eigum allir andstæðinga, sem vilja losna við okkur og kjósa okkur frá opinberum störfum og helzt fyrir fullt og allt. En það, sem er nýstárlegt við þetta, er það, að hv. Alþ. gerir ráðstafanir í þessa átt.

Nú er mér það vel ljóst, og ég vil taka það skýrt fram hér, að stuðningsmenn þessa frv. hér á Alþ. munu ekki allir ljá því atkv. sitt í þessum skilningi, þó að hann hafi komið fram úr vissum áttum. Þeir geta sagt með fullum rétti, að þetta atriði, hverjir fari með stjórn í hínum nýja kaupstað, verði útkljáð við lýðræðislegar kosningar, sem muni fara fram í hinum nýja kaupstað. Og þetta er alveg rétt. Þetta er í mínum augum alveg næg skýring og afsökun fyrir afstöðu hv. stuðningsmanna málsins hér á Alþingi. Kosningar eru alltaf lýðræðisleg athöfn, og þó að það leiði af samþykkt þessa frv. einar aukakosningar í einu sveitarstjórnarkjördæmi landsins, fer það ekki í bága við lýðræði í sjálfu sér. En það hittist aðeins svo á, að í þessu sama sveitarstjórnarkjördæmi hafa farið fram tvöfalt fleiri kosningar en í nokkru öðru sveitarstjórnarkjördæmi á síðustu 6–7 árum, og til viðbótar þessu er það í mínum augum stærsta atriðið, sem er ábótavant við meðferð þessa máls, að þessir sömu lýðræðisflokkar sem að málinu standa hafa um tveggja mánaða skeið barizt gegn því með öllum tiltækilegum ráðum, að það færu fram almennar lýðræðislegar kosningar um þetta mál, hvort skuli stofna kaupstað í Kópavogi eða ekki, þannig að vilji og afstaða íbúanna til þessa atriðis kæmi berlega í ljós. En það, að úr þessu yrði skorið með lýðræðislegum kosningum, var afstaða og ákvörðun sveitarstjórnar þegar á 10. degi eftir að málið hafði fyrst komið fram, og það er þetta, að komið var í veg fyrir það, sem er alveg einsdæmi og nýstárlegt í sögu mála, þar sem um það er að ræða að fá úr þeim skorið með kosningum.

Ég mun nú ekki hafa þessi orð miklu fleiri. Ég þakka hæstv. forseta og þdm. fyrir það, að þeir hafa hlýtt á mál mitt, sem hefur verið nokkru lengra um þetta mál en önnur. Ég á ekki að þakka þeim eina hv. þm., sem hefur tekið undir þá stefnu og þau rök, sem ég hef flutt fram í þessu máli, en ég vil votta hv. 1. þm. N-M. virðingu mína fyrir það, að hann hefur í þessu máli eins og stundum áður ekki hikað við að láta í ljós sína sannfæringu og skoðun, hver sem afstaða annarra, þ. á m. hans flokksmanna, kann að vera. Ég mun svo að síðustu aðeins endurtaka það, að ég óska þeim lýðræðisflokkum, sem að þessu máli standa, til hamingju og bið þá að njóta eins og þeir hafa stofnað til.