05.05.1955
Efri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

122. mál, kirkjubyggingasjóður

Frsm. (Andrés Eyjólfsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umræðu, var borið fram í hv. Nd. og fór óbreytt í gegnum umr. þar, enda mælt einróma með því af þeim fjórum menntamálanefndarmönnum þar, sem þátt tóku í afgreiðslu málsins í nefndinni.

Efni þessa frv. er það, að aftan við 1. gr. l. nr. 43 1954, um kirkjubyggingasjóð, verði bætt nýrri málsgr., sem heimili stjórn kirkjubyggingasjóðs að lána fé til kirkjubygginga, þótt kirkjurnar séu í einkaeign. Lögin, eins og þau eru nú, heimila aðeins lán til kirkna, sem eru í safnaðareign. Þessi viðbótarheimild sjóðsstjórninni til handa er þó bundin eftirgreindum skilyrðum: Að kirkjueigandi hafi boðið söfnuðinum kirkjuna með sanngjörnum kjörum að dómi hlutaðeigandi prófasts, og liggi fyrir vottorð hans um það.

Að fyrir liggi skilríki um það, að söfnuðurinn hafi hafnað því boði. að kirkjan sé notuð í þágu safnaðarins á sama hátt og um safnaðarkirkju væri að ræða. Og loks, að eignir kirkjunnar séu ófullnægjandi til framkvæmdanna að dómi sjóðsstjórnarinnar. Séu öll þessi skilyrði fyllt, hefur stjórn kirkjubyggingasjóðs heimild — ekki skyldu, aðeins heimild til að lána fé úr kirkjubyggingasjóði til byggingar kirkna, sem eru í bændaeign, á sama hátt og ef um safnaðarkirkju væri að ræða. Nefndin telur sanngjarnt, að þessi heimild sé veitt, og leggur því til, að frv. verði samþykkt óbreytt.