22.11.1954
Neðri deild: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (1995)

96. mál, sandgræðsla og hefting sandfoks

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Á síðari árum hafa orðið straumhvörf í ræktunarmálum þjóðarinnar, enda getur það ekki leikið á tveim tungum, að ræktun landsins er eitt af hinum mikilvægustu málum, sem þjóðin hefur til meðferðar. Þær breytingar, sem orðið hafa á þessu sviði, hafa sýnt það, að almennur skilningur er fyrir hendi á þessu mikilvæga máli, bæði hjá hv. Alþ. og eins hjá bændastétt landsins, sem að framkvæmdunum stendur. Hv. Alþ. hefur með margháttaðri löggjöf um ræktunarmál sýnt, að það metur mikils framfarir á þessu sviði, og bændastéttin hefur sýnt það með miklum og vaxandi áhuga, að meðal þeirrar stéttar er fullur skilningur á þessu máli.

Einn þáttur í ræktunarmálum er sandgræðslan. Sá þáttur er næsta merkilegur og mikilvægur. Að græða sand og gerbreyta honum í ígróið land er sannkallað landnám. Sandgræðsla bætir aðstöðu við búskapinn hjá þeim, sem hennar njóta, og styrkir heil sveitarfélög að miklum mun á þann hátt að auka gróðurlendi þeirra og fjölga býlum í sambandi við aukna sandgræðslu. Með sandgræðslunni er enn fremur búið í haginn fyrir fólksfjölgun þjóðarinnar. Þjóðinni fjölgar mjög ört, og sú viðbót, sem bætist við hið starfandi fólk í landinu, þarf að sjálfsögðu ný verksvið, og ef á að sjá fyrir því, að hlutfallsleg aukning eigi sér stað í landbúnaðinum, sambærileg við það, sem gerist meðal annarra stétta, þá þarf ræktun landsins að vera grundvöllur að því, að slík aukning geti átt sér stað.

En sandgræðslan hefur fleiri hliðar en þessar, því að með því að breyta sandauðnum í gróðurlendi er þjóðin að bæta landið á sérstakan og mjög merkilegan hátt. Hún er að vinna að því að græða gömlu sárin, og fá eða engin störf munu vera í raun og veru farsælli fyrir þjóðina en starf ræktunarmannsins, sem „sandrok með svarðreipum batt“.

Það er kunnugt, að á síðustu árum hafa verið unnin stórvirki á þessu sviði. Allmiklir fjármunir hafa verið lagðir fram til sandgræðslunnar, og við höfum átt því láni að fagna, að til starfa á því sviði hafa valizt ósérhlífnir áhugamenn.

Það er óþarft í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, að leiða getum að því, hvernig komið væri um hag nokkurra sveitarfélaga í landinu, hefðu þau átök ekki verið gerð í sandgræðslumálum, sem þegar hafa átt sér stað. En augljóst er, að á ýmsum sviðum væri aðstaðan nú mjög á annan veg en raun er á vegna þess starfs, sem unnið hefur verið á þessu sviði.

Í þessum efnum sem mörgum öðrum ryðja sér til rúms nýjar aðferðir. Þekking manna vex og reynsla í starfi og árangurinn af starfinu að sama skapi. Það getur því ekki leikið á tveim tungum, að þeim fjármunum er vel varið, sem varið er til sandgræðslu í þessu landi.

En lögin, sem gilda um sandgræðslu og heftingu sandfoks, eru einungis miðuð við það, að þetta starf fari fram á foksvæðum, þar sem hættan er á uppblæstri lands. Löggjafarvaldið hefur ekki til þessa færzt meira í fang eða ætlazt til þess, að meira yrði færzt í fang á þessu sviði heldur en að h.efta uppblástur lands og græða foksvæðin. En nú er það kunnugt, og á því hefur verið gerð nokkur athugun af kunnáttumönnum á þessu sviði, að a. m. k. í sumum héruðum landsins eru stór svæði, þar sem eru sandar eða melar eða gróðurlaust land, sem auðvelt er að græða upp með þeim aðferðum, sem sandgræðslan hefur nú yfir að ráða, þó að gróðurleysi þess lands sé ekki til orðið af uppblæstri og ekki stafi hætta af landinu af þeim ástæðum. En eigi að síður er það mikilvægt, að söndum og melum verði breytt í gróið land, og fyllilega ástæða til þess að breyta löggjöfinni í það horf, að þessi stofnun, sandgræðsla ríkisins, hafi heimild til þess að taka slík landssvæði til ræktunar á sama hátt og lögin heimila henni nú að hefta sandfokið og græða foksandana.

Með frv. þessu, sem ég flyt ásamt hv. 2. þm. N-M., er lagt til, að sú breyting verði gerð á núgildandi lögum um sandgræðslu, að heimilað verði að taka til ræktunar, á sama hátt og nú er með foksandana, sanda og mela og annað gróðurlaust land, þótt ekki stafi hætta á uppblæstri af slíkum landssvæðum. Að sjálfsögðu mundi starfið eftir sem áður falla inn í þann verkahring, sem sandgræðsla ríkisins hefur, en aðeins verða heimilt með þessum lögum, ef frv. nær samþykki, að auka starfið og færa það út á víðara svið en verið hefur. Það er að því stefnt með þessu frv. að efla sandgræðsluna frá því, sem verið hefur, og skapa aðstöðu til þess fyrir sandgræðslu ríkisins að færast enn meira í fang við ræktunarstarfið en nú er heimilt samkv. gildandi lögum. Að sjálfsögðu verður starf þessarar stofnunar á hverjum tíma háð fjárveitingavaldinu eða fjárveitingum í fjárlögum, og er vitanlega ekki ætlazt til annars samkv. þessu frv. en að svo verði framvegis.

Ég legg til, þegar þessari umr. er lokið, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.